Hvað með öll hin trúarbrögðin? Hvað ef þú hefur rangt fyrir þér?

Islam

Það sem fæstir gera sér grein fyrir varðandi Islam er að Múhammeð eins og Kóraninn opinberar orð hans samþykkir Biblíuna. Í huga Múhammeðs þá var hann einn af spámönnunum sem Guð hafði sent og skrifuðu Biblíuna en hann væri síðasti spámaðurinn sem Guð myndi senda. Múhammeð sömuleiðis samþykkir Jesú en aðeins sem spámann og síðan afneitar að Jesú dó fyrir syndir heimsins og reis upp frá dauðum. Annar stór munur er að Guð dæmir okkur eftir verkum okkar, ef þau góðu eru fleiri en hin vondu þá ættirðu að sleppa ef þú tilbiður Allah og hlíðir spámanni hans Múhammeð í einu og öllu. 

The Taj Mahal is a mausoleum located in Agra, India, that was built under Mughal

Hindúismi

Hindúar trúa að það er til einn aðal guð en trúa að það eru til margir aðrir litlir guðir sem hjálpa okkur að skilja aðal guðinn. Dæmi um þannig guði eru t.d.  Ganes og sem sjást hérna fyrir neðan.

   Shiva    Ganesh

  
Aðal takmarkið er að nálgast þannann aðal guð og þú gerir það með endurholgun. Ef þú hegðar þér vel í þessu lífi þá kemstu nær aðal guðnum og þarna kemur einnig inn hugmyndin um karma. Hugmyndin með karma er mjög merkileg því það er eins og allir menn hafa skilning á réttlæti skrifað í hjarta þeirra. Þarna kemur einnig inn hugmyndin um stéttarkerfið sem ríkir í hindúismanum þar sem fólk fæðist í lægstu stéttirnar og eru einskis virði og börnin þín einnig.

Búddismi

Það sem fæstir gera sér grein fyrir takmark búddismans er að hætta að vera til. Að slíta sig frá öllu veraldlegu og einnig fólki því að takmarkið er að losa sig undan þjáningu þessa lífs en ef þér þykir vænt um eitthvað þá finnur þú fyrir sársauka þegar þú missir það. Búddismi er afbrigði af hindúisma og er einnig með endurholgun nema takmarkið er annað.  Fyrir þá sem vilja ekki vera til þá er þetta líklegast aðlagandi trú.

Guðleysi/Darwinismi

Sumir myndu líklegast gagnrýna mig fyrir að flokka guðleysi sem trúarbrögð og að mörgu leiti er það réttmæt gagnrýni. En samt, þetta er ákveðin trúarleg sýn á heiminn alveg eins og kristni og búddismi hafa ákveðna sýn á heiminn sem við búum í.  Sýnin er í grunninn sú að alheimurinn varð einhvern veginn til og lífið varð til fyrir eingöngu náttúrulegra ferla.  Baráttan til að lifa af knúði síðan þróun lífvera áfram með tilviljunum sem bjuggu allt til sem við sjáum í dag. Kærleikur, gott og illt er allt saman blekking rafboða í víraflækjunni sem við köllum heila. Guðleysi svarar þeirri spurningu hvað verður um mann þegar maður deyr á þann hátt að allir deyja og hætta að vera til að eilífu en þetta er auðvitað trúarleg afstaða.

Gyðingdómurinn

Gyðingar trúa því að þeir vöru útvalin þjóð til að vera prestar fyrir restin af heiminum og til að vera sú þjóð sem Messías myndi fæðast í og frelsa þá. Í gegnum síðan meira en þúsund ár komu upp spámenn sem sögðu þjóðinni hvað hún væri að gera vitlaust og hún var ótrúlega dugleg við að gera einhvern skandal. Í meira en þúsund ár þá byggðist upp safn handrita þeirra spámanna sem enginn efaðist að hefðu verið sendir frá Guði, menn eins og Móse, Jeremía, Jesaja, Elía, Davíð konungur og Daníel og fleiri. Má segja að Islam er í rauninni byggt á Gamla Testamentinu en síðan hafna aðal boðskapnum í Nýja Testamentinu.  Gyðingar eru enn að bíða eftir Messíasi þar sem þeir telja að Jesú hafi ekki verið hinn rétti Messías eins og Hann hélt fram.

Kristni

Í meira en þúsund ár beið Ísrael eftir frelsara sem spámenn Gamla Testamentisins höfðu spáð fyrir um. Spámenn eins og Daníel hafði spáð hvaða ár Messías myndi deyja og afnema þannig fórnarkerfi gyðinga. Spámaðurinn Míka spáði því fyrir að Messías myndi fæðast í Betlehem eins og við þekkjum úr jóla guðspjallinu.

Míka 5:1En þú, Betlehem í Efrata, ein minnsta ættborgin í Júda, frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael. Ævafornt er ætterni hans, frá ómunatíð.

Kristnir trúa því að Jesús uppfyllti þessa spádóma og borgaði gjaldið fyrir okkar persónulegu glæpi gagnvart Guði og mönnum. Þannig að þegar við deyjum og stöndum frammi fyrir Guði þá mun Hann ekki dæma okkur sek um lygar, þjófnað, nauðganir og hatur og allri þeirri illsku sem við erum sek um, annað hvort í huga okkar eða gjörðum. En ef við endurfæðumst í djúpri sorgariðrun og setjum traust okkar á það réttlæti sem Jesú keypti handa þér þá muntu erfa eilíft líf. Sá sem endurfæðist síðan lifir ekki lengur fyrir sjálfan sig og til að þjóna sínum eigin girndum heldur til góðra verka í kærleika til annara manna, hlíðni við lögmál Guðs og að láta aðra vita af frelsunar áforminu.

Samantekt

Ég er ekki sérfræðingur í mörgum af þessum trúarbrögðum svo ég gæti hafa farið með vitlaust mál þarna einhversstaðar eða einfaldað aðeins of mikið. Ef einhver veit að ég fór með vitlaust mál þá væri gaman að fá að vita það. Sömuleiðis þá ákvað ég að taka ekki öll trúarbrögð fyrir, ef einhverjum finnst einhver trú sem honum er kær var skilin út undan endilega láta mig vita.

Svo varðandi spurninguna, hvað ef þú hefur rangt fyrir þér. Ef þú ert ekki múslimi þá ertu sannarlega í vondum málum ef gaurarnir sem sögðust skrifa upp orð Múhammeðs voru að segja satt. Ef hindúar hafa rétt fyrir sér þá muntu endurfæðast, ef þú varst góður þá muntu öðlast betra tilveru stig. Fyrir kristinn einstakling þá ætti hann ekki að vera í miklum vandræðum ef hindúar hafa rétt fyrir sér.  Búddismi hefur lítið fyrir mig að bjóða, þótt að þjáningar fylgja því að lifa og elska þá vil ég lifa því það er einnig hamingja í því. Svo sá dauði sem búddistar stefna að ekki aðlagandi fyrir mig.  Gyðingar lifa mjög sorglegu lífi, ennþá að bíða eftir Messíasi sem þýðir að þó nokkrir spádómar Gamla Testamentisins rættust ekki. Þeir hafa sem sagt ekki fengið frelsarann sem Gamla Testamentið lofaði þeim og hafa einnig misst musterið og fórnarþjónustuna til að leysa þá undan syndum sínum.  Guðleysið hefur jafn mikið að bjóða og búddisminn nema að auki þá rænir þeirra hugmyndafræði lífið öllum tilgangi með því að gera kærleikann og fegurðina að blekkingum rafboða sem gætu þess vegna verið öll tengd kolvitlaust og það sem við teljum gott er í rauninni viðbjóðslegt. Ef guðleysingjarnir hafa rétt fyrir sér þá tapar kristinn einstaklingur ekki neinu nema að lifa í mjög dapurlegri sýn á það líf sem hann nú lifir.

Ég vel að fylgja Kristi því ég vil fá að lifa og ég veit að ef Guð er til þá er Hann réttlátur og ef Hann lætur mig fá það réttlæti sem ég á skilið þá segir mín samviska það að ég er sekur og myndi ekki öðlast eilíft líf. Þess vegna held ég í Jesús og það réttlæti sem Hann keypti fyrir mig. Þeir sem velja að hafna þessari gjöf Guðs og mæta Guði sem þeir glæpamenn sem þeir eru og þeir munu uppskera eins og þeir sáðu.

Kveða,
Mofi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég get ekki séð að það sé hægt að dæma mig fyrir að trúa ekki þegar forsendur eru svona hæpnar, það væri ekkert nema réttarmorð í mínum huga, þess vegna(ef guð er til) getur tilbeiðsla og guðsdýrkun ekki verið málið og ekki heldur biblíulestur; Makes no sense að ég eigi að trúa einhverjum fornritum eða verða dæmdur að eilífu... does not compute

DoctorE (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 16:11

2 Smámynd: Mofi

Sammála því DoctoE, þú værir ekki dæmdur fyrir að trúa ekki heldur fyrir það sem þú hefur gert og hugsað.

Mofi, 7.12.2007 kl. 16:18

3 identicon

Sæll Mofi

Það er nokkuð ljóst hvoru megin þú liggur í trúmálunum. Ég sem trúleysingi/efahyggjumaður hafði mjög gaman af þessari lesningu og fleirum á síðunni hjá þér því ég hef, þrátt fyrir mína afstöðu í þessum málum, gaman af að skoða sýn trúaðra á trúmál almennt. Lengi vel var ég á báðum áttum í trúmálunum þrátt fyrir að hafa verið alinn upp í kristinni trú. Ég er auðvitað skírður og fermdur, stundaði sunnudagaskólann í mörg ár sem barn og þar á eftir KFUM. En eftir að ég náði tvítugsaldrinum(er kominn yfir þrítugt í dag) fór ég að efast og að pæla mikið í þessum málum út frá almennum röksemdum og fór í lás. Fyrir ekki svo löngu síðan sá ég mynd sem heitir Zeitgeistmovie og má segja að hún hafi gert útslagið um hvoru megin ég endaði. Ég hvet þig til að horfa á trúarkaflann í henni sem er frá ca. 5. mín. til 38. mín. og skrifa þinn dóm um það sem þar kemur fram. Restin er reyndar áhugaverð líka og dæmi bara hver fyrir sig. Slóðin er http://www.zeitgeistmovie.com 

Sighvatur (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 16:20

4 Smámynd: Tryggvi Hjaltason

Smá updeit á Búddisman úr því þú biður svona fallega um það, þeirra tilgangur er nú ekki bara að deyja heldur að öðlast algleymi (Nirvana) en með því þarftu eins og þú sagðir að slíta þig frá allri veraldlegri girnd og festu. Lífið er þjáning og ekkert er varanlegt. Í dauða er veraldlegir hlutir og líkaminn ekkert. Veraldlegir hlutir valda þjáningum. Tilgangur með lífinu: að finna milli veg milli depurð/þunglyndis og eftirlátssemi , ná algleymi (Nirvana) með því að útrýma löngun, hluti af upplýsingu (enlightenment). Veraldlegi heimurinn er tálsýn og sannur raunveruleiki er tóm, vitundaleysi. Með því að útrýma girnd/löngun þá mun maður ekki þjást.  

Þetta er eins og þú segir ekki beint mest upplífgandi trúarbrögð í heimi, en þau boða frið sem er ágætis kjölfesta.

Hindu er fjölgyðistrú, það er ekki einn aðalguð heldur samvitund, s.s. það eru margir guðir sem eru allir hluti af Brahman sem er alheimsvitund/samvitund sem inniheldur í raun allt. Að finna guð er eitthvað sem maður verður að áorka sjálfur og er þetta stór ástæða þess að Hindu er yfirleitt talið friðsælt trúarbragð.

En t.d. Buddismi, hafnar í raun guðlegri ásýnd, og þeir gera sér fyllilega grein fyrir að Búdda (Siddhartha Gautama) var mennskur, hann var prins sem hafnaði veraldhyggju, og setti af stað eins konar hegðunar reglur. Búddismi vinnur meira út frá því að virkja kraft einbeitingar og heilans og þess vegna er hann í raun eina trúarbragðið (af þeim stóru) sem fræðilega séð býður upp á það að vera Búddisti en samt annarra trúar (Kristni, Islam, Hindu, Gyðingur). Þó að vissulega er hann dýrkaður jafnvel guðlega hér og þar.

Ágætt að þú bentir á þennan punkt með Islam, held eimitt að fleiri múslimar mættu gera sér grein fyrir þessu, í raun ættu þeir að líta á Kristna eins og Kristnir líta á Gyðinga.

Sjálfur er ég Kristinn en mér finnst að allir (Kristnir sem aðrir) eiga að kynna sér önnur trúarbrögð með opnum hug, ekki bara fræðilega heldur virkilega langa að komast að því hvort það sé eitthvað til í þessu, það hef ég gert, og mér finnst að Kóranin, Tora, Kama Sutra og öll þessu mest lesnu rit veraldar eigi að eiga heima á öllum heimilum, ef ekki bara í minnsta lagi til að koma í veg fyrir vanþekkingu og fordóma.

Sjálfur er ég duglegur að kynna mér allt svona sem ég kemst í og ég stoppa ekkert bara við stóru trúarbrögðin, hef líka kynnt mér satanisma, wicca, trúleysi, vísindahyggju, vísindakirkjuna (það er sko áhugavert, og það besta er að það er til South Park þáttur sem lýsir henni nokkuð nákvæmlega þótt ótrúlegt sé) og mín niðurstaða er að Kristni kemst miklu nær öllu öðru við að svara þeim spurningum sem mér finnst að allir eiga að spyrja sig, Kristni hefur einnig mjög fallegan og uppbyggjandi boðskap, þó hann sé vissulega svertur af Kristnum öfgamönnum hér og þar.

RSPCT

Tryggvi Hjaltason, 7.12.2007 kl. 16:23

5 Smámynd: Mofi

Blessaður Sighvatur. Get ekki neitað því að mér finnst hræðilegt að heyra þetta með myndina Zeitgeist. Ég var að hugsa um að skrifa um hana fyrir nokkrum mánuðum síðan en fannst eins og fólk gæti ekki verið að horfa mikið á hana svo það væri ekki þess virði. Miðað við þetta þá verð ég að skrifa dáldið vel um hana því af nóg er að taka. Endilega kíktu við á næstu dögum og þá verð ég vonandi búinn að skrifa um hana og þá gætum við rökrætt þessa mynd.

Sæll Tryggvi, takk fyrir uppfærsluna. Ég var óneitanlega að fjalla mjög stuttlega um nirvana hugmyndina í búddismanum en ég tel það vera rétt að takmarkið þar er að slökkva á sjálfum sér, að hætta að vera til. Það er rétt að deyja er ekki rétta orðið yfir þetta þar sem þeir trúa á endurholgun og það er ekki fyrr en eftir margar endurholganir að einhver geti öðlast nirvana og hætt að endurholgast og hætt að vera til.

Ég veit að þú ert duglegur að skoða svona hluti og væri gaman ef þú tækir saman svipaða samantekt á þessu.

Mofi, 7.12.2007 kl. 16:41

6 identicon

Sæll Sighvatur.

Ekki að ég muni fyrir nokkurn máta teljast hlutlaus hvað þessi mál varðar, þá get ég svarið upp á allt mitt hingað til komið guðfræðinám (trúarbragðasögu) og nær allt sem mér er heilagt, að Zeitgeist sé ein al lélegasta heimildarmynd sem hefur komið á síðari tímum sem hefur náð vinsældum. Samanburður Zeitgeist á Jesú á Hórus og fleirum er á svo mikilli villu reystur að það jaðar við meðvitaða sögufölsun! Einnig er listin sem þeir renna fljótt yfir skjáin með guðum og görðum sem eru alveg eins og Jesú algerlega fáranlegur. Þar eru nær teknir fyrir hver einasti Guð sem að hefur nokkurn tíman verið dýrkaður. Hvaða eiga Ásaþór og Jesú sameiginlegt?

Fárnalegt.

Fyrir frekari lestur:

http://www.hugi.is/saga/articles.php?page=view&contentId=5307759

 http://www.hugi.is/saga/threads.php?page=view&contentId=5310685

Ef þú kýst að hafna trú á Krist, þá er það fínt mín vegna, en ekki byggja höfnunina á eins miklu rusli og illa gerðri sögufölsun og Zeitgeist.

Jakob (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 18:46

7 Smámynd: Mofi

Skúli: Ég er ekki alveg viss um að þú (eða aðrir) áttir þig á muninum á góðverkum í Kristinni trú og góðverkum í Íslam samkvæmt Kóraninum.  Það er talsverður munur þar á og stundum algerar andstæður.

Almennt þá myndu múslimar telja upp sömu hluti og við en mikið rétt, það eru síðan aðrir hlutir sem við myndum aldrei kalla góða en þeir myndu kalla góða og þess vegna bendi ég á að þú þyrftir að gera góð verk og hlíða spámanninum í einu og öllu. Takk fyrir að líta við.

Jakob, ég vildi forðast að tala illa um Zeitgeist en ég get ekki neitað því að ég er sammála þér, hún er svakalega illa gerð. Stundum fannst manni eins og þeir væru vísvitandi að ljúga. En það er ekki nema von að sumir sem hafa ekki kynnt sér málið ýtarlega frá öllum hliðum geta fundist svona mynd sannfærandi. Það á síðan aldrei að vera í lagi í huga kristins einstaklings að einhver hafnar Kristi. Að segja fólki frá Honum á að vera gert vegna kærleika til viðkomandi því að tilhugsunin um að þeir deyi án réttlætis Krists á að vera hræðileg í hans huga vegna umhyggju fyrir þeim sem hann er að tala við.

Mofi, 7.12.2007 kl. 19:44

8 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Alltaf spennandi að líta við hjá þér Mofi, hef fylgst með þér lengi. Zeitgeistmovie fannst mér þannig eitruð að hún sáir fræi efasemdanna og með góðum slatta af áburði. Hún fannst mér annars merkilegt fyrirbæri og býsna ágæt úrfærsla á því af hverju maður ætti ekki að trúa. Ég gerði úttekt á þessu og fletti Hórasi upp og fleirum af þessum „staðreyndum" sem var flaggað þarna og niðurstaðan var að flest var einfaldlega uppdiktað, logið eða umsnúið. Að sjálfsögðu voru þarna hlutir sem voru réttir en jafnvægið breyttist allverulega við þessa rannsókn. Sighvatur, ég hvet þig til að rannsaka málið sjálfur, ekki bara trúa því sem þér er rétt (jafnvel þótt einhver segi jörðina vera flata, ... nú eða jafnvel hnöttótta). Sannleikurinn mun gera þig frjálsan, líka þarna, til að gera upp hug þinn á Guði.

Las einhverstaðar að öll trúarbrögð nema kristnin ættu sér það sameiginlegt að boða lausn einstaklingsins; kristnin boðaði lausn fjölskyldunnar, líkamans, heildarinnar.  Væri gaman að vita hvað ykkur þykir ...

Ragnar Kristján Gestsson, 7.12.2007 kl. 20:36

9 Smámynd: Mofi

Ragnar, gaman að fá þig í heimsókn Raggi og velkominn á bloggið.

Mofi, 7.12.2007 kl. 22:54

10 identicon

Þetta var nú kannski full mikil einföldun hjá mér að segja að þessi mynd hafi gert útslagið. Hún frekar staðfesti mig enn frekar í þeirri skoðun sem ég hafði myndað mér, frekar en að hafa verið valdur að þessari skoðun minni. Í rauninni varð ekkert sérstakt þess valdandi að ég "snérist" nema minn eiginn hugur og pælingar. Hinsvegar átti ég erfitt með að gefa einhverjar skýringar á afhverju mér fynndist eitthvað bogið og ekki passa við trúna annað en bara common sense (í mínum huga allavega). Þessi mynd fannst mér útskýra bara ansi vel t.d. helstu hátíðisdaga kristinna og ásatrúa, því þeirra aðal blótsdagur er einmitt 25. des.(svar til Jakobs Æ). Einnig fannst mér hún setja þessi trúmál í ansi gott samhengi við stjörnufræði og því væri eiginlega réttast að spyrja stjörnufræðing hvort þessar tímasetningar standast. Ég held að sú skýring sem t.d. kristnir aðhyllast varðandi Biblíuna sé ansi ansi langsótt, þótt ekki sé meira sagt og þegar maður horfir á Zeitgeistmovie og sér aðra tilgátu um uppruna trúarinnar og fer að bera þessar tvær útgáfur saman að þá finnst mér svona common sense að velja þá einföldu og rökréttu umfram hina óútskýrðu og langsóttu, sem að liggur við að engir tveir geti túlkað eins (þ.e. trúna). Hinsvega er líka til fólk (og þá er ég ekkert endilega að tala um ykkur hér að ofan) sem hefur lifað sig mikið inn í trúna alla ævi og stúterað þessi mál, sem gæti aldrei horfst í augu við að það gæti hafa verið að lifa í blekkingu alla sína tíð, að það hafi tileinkað líf sitt einhverju sem ekki er til. Ég finn bara ekki þörfina hjá mér fyrir að trúa á eitthvað æðra okkur, eitthvað sem brýtur í bága við öll þau náttúrulögmál sem við þekkjum og mannkynið hefur byggt sína þekkingu á, og náð þetta langt. Ég gæti svosem haldið lengi lengi áfram að rökræða þessi mál en..... þetta er nóg í bili.

Sighvatur (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 23:21

11 identicon

Best að ég taki það fram að ég er ekki í Vantrú og hef ekki einusinni gerst svo frægur að fara inn á síðuna þeirra. Ég veit svosem ekkert hvort skoðanir mínar falla inn í t.d. svokallaðan Darwinisma eða eitthvað annað. Hef bara ekkert pælt í því. Ég kíkti nú inn á síðuna hjá Ragnari áðan þar sem hann hótar að eyða færslum vantrúarmanna, en það ber nú bara vott um skort á umburðarlindi. Hitt er svo annað mál að persónuárasir og aðfinnslur sem koma umræðunni ekkert við er eitthvað sem enginn þolir, hvorki ótrúaðir né hinir.

Sighvatur (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 23:42

12 Smámynd: Mofi

Sighvatur: Þessi mynd fannst mér útskýra bara ansi vel t.d. helstu hátíðisdaga kristinna og ásatrúa, því þeirra aðal blótsdagur er einmitt 25. des.

Það er ekkert nema eðlilegt að þegar menn tóku upp kristni að þá vildu þeir "kristna" þær hátíðir sem þeir voru vanir að halda. Tuttugasti og fimmti des hefur enga sérstaka þýðingu í kristni og ekki stafur um þá dagsetningu í Biblíunni.

Sighvatur: Einnig fannst mér hún setja þessi trúmál í ansi gott samhengi við stjörnufræði og því væri eiginlega réttast að spyrja stjörnufræðing hvort þessar tímasetningar standast.

Hvaða tímasetningar hefurðu í huga? 

Sighvatur: Ég held að sú skýring sem t.d. kristnir aðhyllast varðandi Biblíuna sé ansi ansi langsótt, þótt ekki sé meira sagt

Ef Guð er til, er þá ekki rökrétt að Hann hafi eitthvað samband við okkur? Sumum að vísu finnst það vera ekkert eðlilegt en miðað við hve fínstillt náttúrulögmálin eru til að leyfa tilveru okkar og miðað við þá miklu hönnun sem virðist hafa verið sett í jörðina okkar þá finnst mér eðlilegt að gera þá ályktun að sá sem setti þetta svona upp hefur áhuga á okkur miðað við vinnuna sem virðist hafa farið í þetta allt saman.

Sighvatur: þegar maður horfir á Zeitgeistmovie og sér aðra tilgátu um uppruna trúarinnar og fer að bera þessar tvær útgáfur saman að þá finnst mér svona common sense að velja þá einföldu og rökréttu umfram hina óútskýrðu og langsóttu

Það væri mjög gaman að heyra afhverju þér fannst útskýring Zeigeistmovie vera rökrétt og hvað þér finnst órökrétt við þá t.d. útskýringar hins kristna.

Sighvatur: Ég finn bara ekki þörfina hjá mér fyrir að trúa á eitthvað æðra okkur, eitthvað sem brýtur í bága við öll þau náttúrulögmál sem við þekkjum og mannkynið hefur byggt sína þekkingu á, og náð þetta langt.

Náttúrulögmálin segja okkur að það er ekki hægt að skapa efni né eyða efni og sömuleiðis segir okkar þekking á náttúrunni að alheimurinn hefur byrjun svo eitthvað varð á einhverjum "tímapunkti" að brjóta þessi náttúrulögmál til að búa alheiminn til.

Hérna er spurning frá Isaac Newton handa þér sem ég bið þig um að íhuga:

Isaac Newton: This thing [a scale model of our solar system] is but a puny imitation of a much grander system whose laws you know, and I am not able to convince you that this mere toy is without a designer and maker; yet you, as an atheist, profess to believe that the great original from which the design is taken has come into being without either designer or maker! Now tell me by what sort of reasoning do you reach such an incongruous conclusion?

Mofi, 7.12.2007 kl. 23:44

13 Smámynd: Mofi

Takk fyrir að líta við Gylfi og vinsamleg orð. Ég get verið sammála því að sannleikskorn eru að finna í öllum trúarbrögðin en ertu sammála því að þau geta ekki öll haft rétt fyrir sér um t.d. hvað verður um mann þegar maður deyr? Ég meina, annað hvort endurholgast maður, deyr og verður aldrei aftur til, lifir áfram sem einhver andi eða deyr og eina vonin er að sá sem bjó mann til geti búið mann til aftur.

Mofi, 8.12.2007 kl. 13:59

14 Smámynd: Mofi

Eins og ég benti á Arngrímur þá "trúa" guðleysingjar ákveðnum hlutum um lífið og tilveruna, svo þeir hafa sérstaka heimssýn eins og aðrir trúarhópar. Þess vegna eru þeir í þessum lista.

Mofi, 8.12.2007 kl. 18:09

15 Smámynd: Mofi

Afsakaðu það, mér finnst eins og fólk notar þessi orð á mismunandi hátt og maður þarf að reyna að sjá til þess að allir skilji hvað maður er að meina.

Mofi, 9.12.2007 kl. 13:27

16 identicon


Smá úrdráttur úr grein sem ég skrifaði fyrir margt löngu um islam, uppruna og sögu fram til okkar daga.

Islam er yngsta trúin í hópi höfuðtrúarbragða mannkyns og jafnframt að mörgu leyti þeirra einföldust og skýrust í dráttum.  Hún tignar einn alvaldan guð. Höfundur hennar Múhammeð, var hvorki frelsari né Messías, heldur maður, sem guð hafði valið til þess að flytja nýja trú.  Boðskapur hennar er ekki vafinn slungnum rökum.  Hann snýst ekki síður um rétt atferli manna í þessu lífi en um örlög þeirra í öðrum heimi. (Helstu trúarbrögð heims: 85)
Líkt og í öðrum trúarbrögðum eru boðun og kenningar islams ekki alltaf í samræmi við útfærsluna í hinu daglega lífi manna.  Þannig hafa margar þær siðavenjur, sem voru rótgrónar í umhverfi Múhameðs, runnið saman við islam.  Islam hefur og tekið til sín síðari tíma lögskýringar og hefur í tímans rás orðið pólitískari en önnur trúarbrögð
Í þessari grein mun ég reyna að gera þessum trúarbrögðum nokkur skil með þá spurningu í huga hvort þau hafi reynst mannkyninu, böl eða blessun.

Því verður ekki neitað að islam hefur verið mótandi afl í sögunni.  Fáum árum eftir dauða Múhameðs hafði trú hans flætt yfir öll hin nálægari Austurlönd. (Helstu trúarbrögð heims: 85)  Nú eru fylgjendur islams nálægt milljarður að tölu og hundruðir milljóna úr þeim hópi taka trú sína af meiri alvöru en títt er að menn geri með sína trú í samfélagi sem okkar.(Islam: 30)
Islam er í eðli sínu pólitískari en önnur trúarbrögð.  Þannig gæti mikið af þeirri baráttu sem fram fer í nafni islams ekki farið fram með sama hætti undir merkjum annarra trúarbragða.  Grunnhugmynd islams er réttlæti á jörðinni en ekki réttlæti á himnum eins og í kristinni trú.(Islam: 180-181)  Engu að síður er islam í mörgu áþekk kristinni trú og gyðingdómi.  Hún boðar gjafmildi og gæsku hvers konar, himnaríki og helvíti sem og opinberanir um væntanlegan heimsendi.  Útfærsla hennar hefur þó verið með ýmsu móti eins og sjá má af því sem að framan greinir og má segja að gæskan sé oft á tíðum víðs fjarri.
Í framhaldi af því má spyrja hvort islam, líkt og önnur trúarbrögð, sé í reynd til sem trú á einn guð, kærleika og gæsku til alls og allra.  Þegar sagan er skoðuð blasir við ótti og öryggisleysi.  Og ef menn vilja vera einlægir og skoða það sem er, burt frá því sem menn helst vilja að sé, þá sjá þeir að það er einmitt þessi ótti manna sem skapað hefur trúarbrögðin.  Trúin er í reynd ótti og öryggisleysi.
Bæði kristni og islam geta um sýnir eða vitranir boðbera guðs, Allahs.  Múhameð upplifði vitranir hvers konar líkt og Páll postuli sem er í reynd boðberi kristinnar trúar.
Það má öllum ljóst vera að þær vitranir, sýnir og heyrnir, sem Múhameð upplifði, skipa stóran sess í islam, m.a. er Kóraninn afleiðing eða afsprengi þessa og þá um leið allt það sem hér að framan greinir.  En spyrja má hver uppruni þessara sýna hafi verið.  Hinir ótalmörgu fylgismenn islam segja þær komnar frá Allah.  En er það svo?  Hvað segir sagan, skoðuð í út frá nútíma þekkingu?  Þó heimildum beri ekki saman um veikindi Múhameðs þá verður ekki fram hjá því horft að víða er þess getið að Múhameð hafi verið flogaveikur.  Og í dag er vitað að því geta fylgt bæði ofsjónir og heyrnir hvers konar.
Flogaveiki er tiltölulega algeng og einkennist af endurteknum flogaköstum eða flogum.  Flog koma þegar eðlileg rafboð heilans truflast skyndilega af háspenntum rafbylgjum sem kvikna ýmist í heilanum öllum eða í hluta hans.  Orðið flogaveiki er villandi þar sem ekki er um eiginlegan sjúkdóm að ræða heldur einkenni sem getur haft margvíslegar orsakir.  Þar af leiðandi eru flog mörg og margvísleg.  Sem dæmi má nefna svokölluð ráðvilluflog (Complex partial flog, Temporal lobe flog, Psychomotor flog) sem orsakast af óeðlilegum rafbylgjum í eða í tengslum við gagnaugalappa heilans (temporal lobe).  Viðkomandi skynjar umhverfi sitt á draumkenndan hátt og einnig einkennir einkennilegt, ósjálfrátt atferli þessa gerð floga, s.s. að tala samhengislaust og tómlegt starandi augnaráð (Upplýsingabæklingur Lauf).  Ef til vill ekki svo ólíkt manni sem varð frá sér numinn, án þess að ráða við það, þar sem hann stóð á götu úti eða hjá Kaaba og orðin streymdu af vörum hans. (Helstu trúarbrögð heims: 86)
Í ljósi þessa má aftur spyrja hvort sagan hefði orðið önnur ef menn hefðu haft þá þekkingu sem nú er og skýrt hefði getað sýnir Múhameðs á þeim tíma er hann lifði þær.  Mestar líkur eru á að svo hefði ekki verið.  Eðli og afleiðingar flogaveiki eru mönnum vel kunnugar í dag.  Sú vitneskja ætti með réttu að breyta viðhorfum manna til trúarinnar.  Jafnvel svo að hún liði undir lok í þeirri mynd sem nú er.  En því fer fjarri að nokkuð slíkt sé í vændum.
Ný þekking gefur vissulega ný svör.  En gömul þekking segir vegi guðs órannsakanlega.  Að val á farvegi sé guðs, ekki manna. Og þá um leið að ráðvilluflog sé jafn góður farvegur og hver annar fyrir boðskap guðs til manna.  Hverju er hægt að svara slíkum rökum?  Ótti manna og þörf fyrir öryggi æðri máttarvalda, guðs, Allah, er slík að menn eru tilbúnir til að leggja niður heilbrigða dómgreind, horfa framhjá öllum skyni gæddum rökum, og skapa sér trúarbrögð.  Hver og einn í samræmi við sínar persónulegu þarfir.
Staðreynd málsins er nefnilega sú að menn hafa aldrei geta nýtt sér eigin þekkingu og reynslu sem og reynslu undangenginna kynslóða til að skapa óttalausa veröld.  Á öllum tímum hafa verið til menn sem séð hafa eðli trúarbragðanna og nýtt sér þann ótta sem að baki þeim liggur til að beita aðra menn valdi.  Þannig hafa trúarbrögðin iðulega orðið stjórntæki misviturra yfirvalda víða um heim.
Í ljósi þessa hljótum við að svara spurningunni, sem við settum fram í byrjun, á þá leið að til að islam, sem og önnur trúarbrögð, gætu orðið mönnum til blessunar yrðu menn að kunna að lesa og nýta sér söguna.  Þannig hefur vangeta manna til að nýta þá þekkingu og reynslu sem heimurinn býr yfir valdið því að trúarbrögðin hafa ekki reynst mannkyninu blessun.  Og víða má sjá að þau hafa reynst hið mesta böl.  Sagan hefur í reynd aldrei kennt mönnum neitt.

ih/95

Inga Helgadóttir (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 22:15

17 identicon

Segðu mér þá hvað sé réttlátt við það að móðir deyji frá 3 börnum sínum? Hvaða réttlæti er í því?

Bragi þór (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 14:53

18 Smámynd: Mofi

Takk Inga fyrir áhugavert innlegg.

Bragi, það er ekkert réttlæti í því. Er ekki dáldið merkilegt að þú skulir sjá að það er óréttlátt? Ég meina, við höfum ekki svo mörg dæmi um réttlæti í sögunni, aðalega hörmungar og óréttlæti en samt höfum við öll hugmynd um hvað er réttlátt og löngun að alvöru réttlæti nái fram að ganga. Þótt að dómsdagur vanalega veki ugg og óþægilegar tilfinningar hjá mörgum þá snýst hann í rauninni um þetta, dagurinn þegar alvöru réttlæti nær fram að ganga. Þeir sem gerðu slæmt fá sinn dóm og þeir sem urðu fyrir óréttlæti fái sína umbun.

Vandamálið er að á þessum degi þá verður allri illsku og þá verður maður að horfa inn í sjálfan sig og spyrja samviskuna um það hvernig manni sjálfum mun reiða á þeim degi.

Mofi, 13.12.2007 kl. 15:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Mofa blogg

Höfundur

Mofi
Mofi

Ég er sjöundadags aðventisti en tala samt ekki fyrir hönd safnaðarins. Hugbúnaðarfræðingur að mennt og aðhyllist Biblíulega sköpun. 

Íslendingur, hugbúnaðarfræðingur að mennt, búsettur í Englandi sem hefur áhuga á flest öllu. 

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • trinity witch craft
  • Bodunarkirkjan
  • Trinity_Symbol
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband