Ættfeður og spámenn - Hvers vegna var syndin leyfð?

patriarchs_and_prophets.jpgÆttfeður og spámenn er bók eftir Ellen White, hérna má sjá meira um hana: Patriarchs and Prophets

Þessi bók fer yfir fyrstu kaflana í Biblíunni og varpar ljósi á margt sem við eigum erfitt með að skilja í Gamla Testamentinu.  Eftir að hafa lesið þessi bók sjálfur þá er ég mjög þakklátur fyrir boðskap Ellen White. Útskýrir svo margt sem ég glímdi við þegar kom að Biblíunni.

Hérna má lesa bókina í heild sinni á ensku, sjá: http://www.whiteestate.org/books/pp/pp.asp

Hérna er fyrsti kaflinn.

1. kafli – Hvers vegna var syndin leyfð?

     „Guð er kærleikur.“ 1Jh 4.16. Eðli hans, lögmál hans, er kærleikur. Svo hefur ávallt verið, svo mun ávallt verða. „[Hinn] hái og háleiti, hann sem ríkir eilíflega.“ Jes 57.15. „Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.“ Jk 1.17.  Sérhver opinberun um sköpunarmátt er tjáning um óendanlegan kærleik. Óskorað vald Guðs felur í sé fyllingu blessunar handa öllum sköpuðum verum. Sálmaskáldið segir:

„Þú hefur máttugan armlegg,hönd þín er sterk, hátt upp hafin hægri hönd þín.
Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns,miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.
Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið,sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.
Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna réttlæti þínu,
því að þú ert þeirra máttug prýði...
sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort, Drottni heyrir skjöldur vor,og konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.“
Sl 89.14-19.                                      

     Sagan um deiluna miklu milli góðs og ills, frá þeim tíma þegar hún hófst á himnum fram til endanlegs ósigurs uppreisnar og algjörrar eyðingar syndarinnar, er einnig vitnisburður um óbreytanlegan kærleik Guðs.

                                                                            34

     Drottnari alheimsins stóð ekki einn að velgjörðarverki sínu. Hann hafði samstarfsaðila sem mat tilgang hans og tók þátt í gleði hans yfir því að veita hamingju þeim sem skapaðir voru. „Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði.“ Jh 1.1-2. Kristur, Orðið, eingetinn sonur Guðs, var einn með hinum eilífa föður – einn að eðli, tilgangi – hin eina vera sem gat tekið þátt í öllu ráðslagi og markmiðum Guðs. „Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“ Jes 9.6. ,,[Ætterni] hans [skal] vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum.“ Mík 5.1.

     Faðirinn skapaði með syni sínum allar himneskar verur. „[Allt var] skapað í honum ... hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans.“ Kól 1.16. Englar eru ráðsmenn Guðs, ljómandi af þeirri birtu sem ávallt stafar frá honum, og fara á hraðfleygum vængjum til að framkvæma vilja hans. En sonurinn, hinn smurði Guðs, „ímynd veru hans,“ „ljómi dýrðar hans.“ „ber allt með orði máttar síns,“ ríkir yfir þeim öllum. Heb 1.3. „Hásæti dýrðarinnar, hátt upp hafið frá upphafi,“ var helgidómur hans (Jer 17.12), „sproti réttvísinnar,“ sproti ríkis hans. Heb 1.8. „Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.“ Sl 96.6. [Miskunn] og trúfesti ganga frammi fyrir [honum].“ Sl 89.15.

     Lögmál kærleikans, sem er grundvöllur ríkis Guðs, hamingja allra viti borinna vera er háð fullkomnu samræmi við hinar miklu grundvallarreglur ráðvendninnar. Guð æskir af öllum sköpuðum verum sínum þjónustu í kærleik – þjónustu sem sprettur af viðurkenningu á eðli hans. Hann gleðst ekki yfir þvingaðri hlýðni; og hann veitir öllum frjálsan vilja svo að þeir megi veita honum þjónustu af fúsum og frjálsum vilja.

                                                                            35

     Á meðan allar skapaðar verur viðurkenndu hollustu við kærleikann ríkti fullkomin sátt og samlyndi í ríki Guðs. Það var gleði hinna himnesku herskara að gera vilja skapara síns. Þeir glöddust við að endurvarpa dýrð hans og kunngjöra lofgjörð hans. Kærleikur til Guðs skipaði æðsta sess og kærleikur hvers til annars var hrekklaus og óeigingjarn. Engin misklíð varpaði skugga á himneska sælu. En hér varð breyting á. Til var sá sem misnotaði það frelsi sem Guð hafði gefið hinum sköpuðu verum. Syndin er runnin undan rifjum þess sem næstur Kristi hafði notið mests heiðurs af hendi Guðs og var æðstur að völdum og dýrð meðal íbúa himnaríkis. Lúsífer, „sonur morgunsins,“ var æðstur verndarkerúbanna, heilagur og óspilltur. Hann var í návist hins mikla skapara og  ævarandi dýrðargeislar, sem umluktu Guð, féllu á hann. „Svo segir Drottinn Guð: Þú varst ímynd innsiglishrings, fullur af speki og fullkominn að fegurð! Þú varst í Eden aldingarði Guðs; þú varst þakinn alls konar dýrum steinum. Ég hafði skipað þig verndarkerúb, þú varst á hinu heilaga goðafjalli, þú gekkst innan um glóandi steina. Þú varst óaðfinnanlegur í breytni þinni frá þeim degi, er þú varst skapaður, þar til er yfirsjón fannst hjá þér.“ Esk 28.12-15.

     Smám saman tók Lúsífer að láta eftir löngun sinni um sjálfsupphafningu. Í Biblíunni segir: „Hjarta þitt varð hrokafullt af fegurð þinni, þú gjörðir speki þína að engu vegna viðhafnarljóma þíns.“ Esk 18.17. „[Þú] sagðir í hjarta þínu: Ég vil stíga upp til himins! Ofar stjörnum Guðs ... gjörast líkur Hinum hæsta!“ Jes 14.13, 14. Þótt öll dýrð þessa mikla engils kæmi frá Guði fór hann að líta svo á að hún tilheyrði honum sjálfum. Hann var ekki ánægður með stöðu sína, þótt hann væri heiðraður umfram hina himnesku herskara, heldur leitaðist hann við að afla sér virðingar sem skaparanum einum bar. Í stað þess að gera Guð æðstan í ást og hollustu allra skapaðra vera leitaðist hann við að tryggja sér sjálfum þjónustu og hollustu þeirra. Og vegna þess að þessi prins englanna þráði að afla sér þeirrar dýrðar, sem hinn almáttugi faðir hafði veitt syni sínum, sóttist hann eftir völdum sem voru aðeins forréttindi Krists.

     Nú ríkti ekki lengur sátt og samlyndi á himnum. Sú tilhneiging Lúsífers að þjóna sjálfum sér í stað  þess að þjóna skapara sínum olli ótta hjá þeim sem töldu að Guði einum bæri mestur heiður. 

                                                                            36

Í hásölum himnanna sárbændu englarnir Lúsífer. Sonur Guðs vakti athygli hans á mikilleik, gæsku og réttlæti skaparans, og heilögu og óbreytanlegu eðli lögmála hans,  að sjálfur Guð hefði sett lög himnaríkis og ef Lúsífer viki frá þeim væri hann að vanvirða skapara sinn og stefna sjálfum sér í glötun. En þessi viðvörun, gefin með óendanlegum kærleika og miskunn, vakti aðeins upp mótþróa. Lúsífer lét afbrýðisemi sína í garð Krists vera ráðandi og varð enn ákveðnari en áður.

     Það varð nú markmið þessa prins  englanna að efast um yfirburði sonar Guðs og draga þannig í efa visku og kærleik skaparans. Hann ætlaði sér að beita snilligáfu sinni, sem gekk næst snilligáfu Krists meðal hinna himnesku herskara, til þess að ná þessu markmiði. En skaparinn, sem vildi að allar skapaðar verur hans hefðu frjálsan vilja, skildi enga þeirra eftir varnarlausa fyrir þeim yfirþyrmandi útúrsnúningum sem uppreisnarandinn reyndi að beita sér til réttlætingar. Áður en hin mikla barátta hæfist skyldu allir fá skýra birtingarmynd um vilja skaparans, en viska hans og gæska var uppspretta allrar gleði þeirra.

    Konungur alheimsins kallaði herskara himnanna fyrir sig, svo að hann gæti í návist þeirra sagt frá hinni sönnu stöðu sonar síns og sagt frá því hvaða tengsl hann hefði við allar skapaðar verur. Sonur Guðs samnýtti hásæti föður síns og dýrð hins eilífa, sem lifir óháður öðrum, umlukti þá báða. Umhverfis hásætið söfnuðust heilagir englar, mikill fjöldi þeirra – „tíu þúsundir tíu þúsunda og þúsundir þúsunda“ (Opb 5.11), upphafnir englar, sem ráðsmenn og þegnar, sem glöddust í því ljósi sem skein á þá fyrir nánd Guðdómsins. Fyrir framan saman safnaða íbúa himnanna lýsti konungurinn því yfir að enginn nema Kristur, hinn eingetni sonur Guðs, gæti fyllilega tryggt markmið hans og að honum yrði falið að framkvæma hina mikilvægu fyrirætlanir Guðs. Sonur Guðs hafði framkvæmt vilja Guðs í sköpun allra herskara himnanna og honum, svo og Guði, bar lotning þeirra og hollusta. Kristur átti enn eftir að framkvæma vilja Guðs við sköpun jarðarinnar og íbúa hennar. En í öllu þessu mundi hann ekki leita eftir valdi eða upphefð fyrir sig sjálfan gagnstætt ráðsályktun Guðs, heldur mundi hann upphefja dýrð föðurins og framkvæma markmið hans um velgjörðarverk og kærleik.

     Englarnir viðurkenndu með gleði yfirburði Krists, féllu að fótum honum og auðsýndu honum kærleik og lotningu. Lúsífer hneigði sig einnig ásamt þeim, en í

                                                                            37

hjarta hans urðu sérkennileg og öflug átök. Sannleikur, réttlæti og tryggð háði þar baráttu við öfund og afbrýðisemi. Áhrif heilagra engla virtust um tíma telja honum hughvarf. Þegar lofsöngvar stigu upp í hljómþýðum ómum, sem mögnuðust í þúsundum glaðra radda, virtist sem andi hins illa væri sigraður; ómælanlegur kærleikur gagntók hann allan; hann opnaði sál sína í samhljómi við hina syndlausu tilbiðjendur, í kærleik til föður og sonar. Enn á ný fylltist hann þó stolti yfir sinni eigin dýrð. Löngun hans eftir æðsta valdi kom fram á ný og hann lét undan öfund sinni í garð Krists. Lúsífer viðurkenndi ekki að hin æðstu metorð hans væru sérstök Guðsgjöf, og kölluðu því ekki fram neitt þakklæti til skapara hans. Hann naut sín í birtu sinni og upphefð og leitaðist við að verða jafningi Guðs. Hann naut kærleiks og virðingar herskara himnanna, englar höfðu ánægju af því að framkvæma boð hans, og hann var íklæddur visku og dýrð umfram þá alla. Samt var sonur Guðs í meiri metum en hann, sá sem valdið hafði og máttinn ásamt föðurnum. Hann var í ráðum með föðurnum, en Lúsífer átti ekki hlutdeild í  áætlunum Guðs. „Hvers vegna,“ spurði þessi mikli engill, „ætti Kristur að vera í mestum metum? Hvers vegna er hann heiðraður umfram Lúsífer?“ 

     Og Lúsífer fór úr návist föðurins og tók að dreifa óánægjuanda meðal englanna. Hann vann að þessu með leynd og um tíma tókst honum að leyna raunverulegum tilgangi sínum undir yfirskini lotningar fyrir Guði. Hann hóf að gefa í skyn efasemdir um þau lögmál sem giltu um himneskar verur og lét á sér skilja að þótt lögmál gætu verið nauðsynleg fyrir íbúa heimanna hefðu  englar, sem væru meira upphafnir, ekki þörf fyrir slíkar hömlur, heldur væri þeirra eigin viska þeim nægilegur leiðbeinandi. Þeir væru ekki verur sem gætu vanvirt Guð, því að allar hugsanir þeirra væru heilagar. Því væri þeim ekki mögulegt frekar en Guði að villast af leið. Gefið var í skyn að upphafning sonar Guðs sem jafningja föðurins fæli í sér ranglæti gagnvart Lúsífer þar sem honum bæri einnig, að því er sagt var, lotning og heiður. Ef þessum prinsi englanna tækist að ná sinni réttmætu tignarstöðu mundi það leiða til mikils góðs fyrir alla herskara himnanna, vegna þess að markmið hans væri að tryggja frelsi handa öllum. En nú væri jafnvel tekið fyrir það frelsi, sem þeir hefðu notið fram til þessa, því að þeim hefði verið settur algjör yfirboðari og allir yrðu að lúta valdi hans. Slíkar voru hinar lævíslegu blekkingar sem vélabrögð Lúsífers dreifðu í hinum himneska ranni.

                                                                            38

     Engin breyting hafði orðið á stöðu eða valdi Krists. Öfund Lúsífers, rangtúlkanir hans og kröfur um jafnrétti við Krist gerðu það nauðsynlegt að koma með yfirlýsingu um hina sönnu stöðu sonar Guðs, en hún hafði verið óbreytt frá upphafi. Margir englar létu samt blindast af blekkingum Lúsífers.

     Lúsífer tókst að notfæra sér kærleiktraust og hollustu þeirra heilögu vera, sem voru undir stjórn hans, og honum tókst að sá í huga þeirra sínu eigin vantrausti og óánægju með þeim hætti að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því hvað hann ætlaðist fyrir. Lúsífer hafði kynnt fyrirætlanir Guðs í röngu ljósi, rangtúlkað þær og rangfært til þess að ýfa upp mótþróa og óánægju. Með kænskubrögðum tókst honum að fá áheyrendur sína til að tjá tilfinningar sínar, og endurtók síðan yfirlýsingar þeirra, þegar það hentaði tilgangi hans, sem vitni þess að englarnir væru ekki alveg sáttir við stjórn Guðs. Hann þóttist sjálfur sýna Guði fullkomna hollustu, en hvatti til þess að nauðsynlegar breytingar yrðu gerðar á lögum og reglum himnanna til þess að tryggja stöðugleika guðlegrar yfirstjórnar. Með því að espa þannig til andspyrnu við lög Guðs og sá sinni eigin óánægju í huga englanna, sem hann stjórnaði, þóttist hann að því er virtist vera að eyða óánægju og sætta óánægða engla við lög himnanna. Á meðan hann  sáði þannig ágreiningi og uppreisn tókst honum með snilldarlegum brögðum að láta líta svo út að eina markmið hans væri að efla hollustu og viðhalda sátt og samlyndi og friði.

     Óánægjuandinn, sem hafði þannig verið vakinn upp, var farinn að vinna sitt illa verk. Þótt ekki bæri á neinu á yfirborðinu jókst óánægja meðal englanna svo að lítið bar á. Sumir þeirra litu með velþóknun á dylgjur Lúsífers um stjórn Guðs. Þótt þeir hefðu fram til þessa verið fyllilega sáttir við þá reglu, sem Guð hafði skapað, voru þeir nú orðnir óánægðir vegna þess að þeir skildu ekki  órannsakanlegar fyrirætlanir hans. Þeir voru óánægðir með það markmið hans að upphefja Krist. Þeir voru tilbúnir að styðja kröfu Lúsífers um jafnt vald við son Guðs. En englar, sem voru hollir og trúir, héldu fram visku og réttlæti hinna guðlegu fyrirmæla og leituðust við að sætta þessa óánægðu veru við vilja Guðs. Kristur væri sonur Guðs. Hann hefði verið með honum áður en englarnir urðu til. Hann hefði ávallt staðið við hægri hlið föðurins. Yfirvald hans, sem var öllum til blessunar

                                                                            39

sem komu undir áhrifasvið þess, hafði hingað til ekki verið dregið í efa. Sátt og samlyndi himnanna hafði aldrei verið rofið. Hvers vegna skyldi nú koma upp ágreiningur? Trygglyndir englar sáu fram á að slík sundurþykkja mundi aðeins hafa hræðilegar afleiðingar og sárbændu hina óánægðu að láta af fyrirætlun sinni og sanna að þeir væru trúir Guði með því að sýna stjórn hans hollustu.

     Af mikilli miskunn og samkvæmt sínu guðlega eðli sýndi Guð Lúsífer mikla biðlund. Andi óánægju og ágreinings hafði aldrei áður þekkst á himni. Þetta var eitthvað nýtt, furðulegt, dularfullt, óútskýranlegt. Í upphafi hafði Lúsífer ekki gert sér fulla grein fyrir raunverulegu eðli tilfinninga sinna. Um skeið  hafði hann ekki þorað að tjá hugsanir sínar og hugmyndir en samt varpaði hann þeim ekki frá sér. Hann gerði sér ekki grein fyrir hvert hann stefndi. En með viðleitni, sem aðeins óendanlegur kærleikur og viska gat leitt af sér, var reynt að sannfæra hann um villu síns vegar. Honum var sýnt fram á að óánægja hans væri ástæðulaus og til hvers áframhaldandi uppreisn mundi leiða. Lúsífer var sýnt fram á að hann hefði rangt fyrir sér. Hann sá að „Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum“ (Sl 145.17), að guðdómleg lagaboð eru réttlát og að hann ætti að viðurkenna þau fyrir öllum himninum. Ef hann hefði gert það hefði hann getað bjargað sjálfum sér og mörgum englum. Hann hafði enn ekki algjörlega afneitað hollustu við Guð. Þótt hann hefði þegar horfið úr stöðu verndarkerúbs var það samt svo að ef hann hefði verið fús til að snúa aftur til Guðs og viðurkenna visku skaparans og sætt sig við að taka þá stöðu, sem Guð hafði áætlað honum í sinni miklu áætlun, hefði hann fengið embætti sitt á ný. Tíminn var kominn til lokaákvörðunar. Hann yrði að gangast að fullu undir óskorað vald Guðs eða verða uppvís að opinberri uppreisn. Hann hafði nær því tekið þá ákvörðun að snúa aftur en stolt hans kom í veg fyrir það. Það reyndist of mikil fórn fyrir þann, sem hafði hlotið svo mikinn heiður, að viðurkenna að hann hefði haft rangt fyrir sér, að hugrenningar hans væru ekki á rökum reistar og að hann yrði að gangast undir það vald sem hann hafði verið að leitast við að sýna fram á að væri ranglátt.

     Skaparinn, fullur samúðar, aumkaði Lúsífer og fylgismenn hans og leitaðist við að draga þá aftur frá því hyldýpi eyðileggingar sem þeir voru að steypa sér í. En miskunn hans var mistúlkuð. Lúsífer benti á að langlyndi Guðs bæri vitni um yfirburði hans sjálfs, vísbending um það að konungur alheimsins mundi samþykkja skilmála hans. Hann sagði að ef englarnir stæðu staðfastir með sér gætu þeir enn öðlast allt

                                                                            40

það sem þeir óskuðu eftir. Hann varði staðfastur sína eigin stefnu og helgaði sig að fullu hinni miklu deilu við skapara sinn. Þannig varð það að Lúsífer, „ljósberinn“, þátttakandi í dýrð Guðs, gæslumaður hásætis hans, varð Satan sökum syndar, „andstæðingur“ Guðs og heilagra vera og tortímandi þeirra sem himinninn hafði falið honum til leiðsagnar og varðveislu.

     Hann hafnaði með fyrirlitningu rökum og innilegum bænum trúfastra engla og fordæmdi þá sem afvegaleidda þræla. Hann lýsti því yfir að í forréttindum Krists væri fólgið ranglæti bæði gagnvart sér og öllum herskara himnanna og tilkynnti að hann mundi ekki lengur líða brot á réttindum sínum og þeirra. Hann mundi aldrei aftur viðurkenna yfirvald Krists. Hann hefði ákveðið að krefjast þess heiðurs sem hann hefði átt að fá að gjöf og taka að sér að stjórna öllum þeim sem vildu fylgja honum, og hann hét þeim, sem gengju í lið með honum, nýrri og betri stjórn þar sem allir nytu  frelsis. Mikill fjöldi engla lýsti þeim vilja sinum að samþykkja hann sem leiðtoga sinn. Hann var upp með sér vegna þess hve viðleitni hans var vel tekið og vonaðist til að fá alla englana á sitt band og verða jafnoki sjálfs Guðs og að allir herskarar himnanna mundu hlýða honum.

     Enn hvöttu trúfastir englar hann og stuðningsmenn hans til að gefast Guði og lýstu óhjákvæmilegum afleiðingum þess ef þeir höfnuðu því: Sá sem hefði skapað þá gæti kollvarpað valdi þeirra og refsað þeim fyrir uppreisnina með afgerandi hætti. Engum engli gæti tekist að ganga í berhögg við lög Guðs, sem væru jafn heilög og hann sjálfur. Þeir brýndu fyrir öllum að þeir ættu að loka eyrum sínum fyrir falsrökum Lúsífers og hvöttu hann og fylgjendur hans til að leita til Guðs án tafar og viðurkenna þá villu sína að draga visku hans og vald í efa.

     Margir voru hlynntir því að fara að þessum ráðum, að iðrast óánægju sinnar og leita á ný eftir velvild föður og sonar. En Lúsífer hafði aðra blekkingu á reiðum höndum. Hinn mikli uppreisnarseggur lýsti því nú yfir að þeir englar, sem voru honum handgengnir, hefðu gengið of langt til þess að snúa aftur, að hann þekkti hin guðdómlegu lög og vissi að Guð mundi ekki fyrirgefa þeim. Hann sagði að allir þeir, sem gengjust undir lög himnanna, yrðu rúnir heiðri sínum og lækkaðir í tign. Hvað

                                                                            41

honum sjálfum viðvék var hann staðráðinn í að viðurkenna aldrei valdsvið Krists. Eina leiðin sem þeim væri fær, sagði hann, væri að halda fast á frelsi sínu og taka með valdi þau réttindi sem hefðu ekki verið fúslega veitt þeim.

     Hvað viðkom Satan sjálfum var það rétt að hann hafði nú gengið of langt til þess að snúa aftur. En hið sama gilti ekki um þá sem höfðu látið blindast af blekkingum hans. Ráðleggingar og sárbeiðni trúfastra engla opnuðu þeim dyr vonar og hefðu þeir sinnt aðvöruninni hefðu þeir getað sloppið úr snöru Satans. En stolt þeirra, ást á leiðtoganum og löngunin í ótakmarkað frelsi var látin ráða og sárbeiðnum guðdómlegs kærleika og miskunnar var endanlega hafnað.

     Guð leyfði Satan að halda áfram iðju sinni þangað til óánægjuandinn hafði þróast í virka uppreisn. Nauðsynlegt var að áætlanir hans yrðu fullmótaðar svo að hið sanna  eðli þeirra og tilhneiging yrði öllum ljós. Lúsífer hafði notið mikillar upphefðar sem smurður verndarkerúb. Hann naut mikillar ástar himneskra vera og þær voru undir sterkum áhrifum frá honum. Stjórn Guðs náði ekki aðeins til íbúa himinsins, heldur einnig íbúa allra heimanna sem hann hafði skapað. Lúsífer hafði komist að þeirri niðurstöðu að ef sér tækist að fá engla himinsins með sér í uppreisn gæti sér  tekist að fá alla aðra heima á sitt band. Hann hafði af lævísi kynnt málstað sinn og tekist að tryggja sér fylgjendur með útúrsnúningum og svikum. Afl hans til blekkingar var mjög mikið. Með því að íklæðast hjúpi ósanninda hafði hann náð nokkurri forystu. Allar gerðir hans voru svo vel duldar að erfitt var að opinbera fyrir englunum hið sanna eðli verka hans. Ekki væri unnt að sýna fram á hve ill áform hans væru fyrr en þau hefðu náð að þróast. Óánægja hans teldist ekki vera uppreisn. Jafnvel trúfastir englar gátu ekki gert sér fulla grein fyrir því hvert eðli hans var eða til hvers verk hans mundu leiða.

     Í byrjun hafði Lúsífer beitt freistingum sínum þannig að hann var enn óskuldbundinn. Þá engla, sem honum tókst ekki fyllilega að telja á sitt band, sakaði hann um tómlæti um hagsmuni himneskra vera. Hann ákærði trúfasta engla fyrir að vinna einmitt þau verk sem hann var sjálfur að vinna. Ásetningur hans var að rugla þá í ríminu með lúmskum rökum um markmið Guðs. Allt einfalt hjúpaði hann dulúð og með lævíslegum rangfærslum dró hann í efa einföldustu yfirlýsingar Guðs. Það veitti yfirlýsingum hans aukinn þunga að hann skipaði háa stöðu og var nátengdur hinni

guðdómlegu yfirstjórn.

42

     Guð gat aðeins brugðið á þau ráð sem voru í samræmi við sannleika og réttlæti. Satan gat beitt því sem Guð gat ekki beitt – smjaðri og blekkingum. Hann hafði leitast við að falsa orð Guðs og rangtúlka áætlun hans um stjórn, og sagði að Guð væri ekki réttlátur úr því að hann þröngvaði lögum sínum upp á englana. Með því að krefjast undirgefni og hlýðni allra skapaðra vera væri hann aðeins að leita eftir því að upphefja sjálfan sig. Þess vegna var nauðsynlegt að sýna íbúum himinsins og allra heimanna að stjórn Guðs væri réttlát og lög hans fullkomin. Satan hafði látið líta svo út að hann sjálfur leitaðist við að stuðla að velferð alheimsins. Öllum yrði að verða ljóst hið sanna eðli valdaræningjans. Hann yrði að fá tíma til að sýna sjálfan sig í illum verkum sínum.

     Satan kenndi stjórn Guðs um þann ágreining, sem hann sjálfur hafði valdið á himnum, að allt illt stafaði af hinni guðlegu stjórn. Hann hélt því fram að  eigið markmið sitt væri að bæta lögmál Guðs. Þess vegna leyfði Guð honum að sýna fram á eðli yfirlýsinga sinna, hvernig hann hygðist breyta hinum guðdómlegu lögum. Hans eigin verk yrðu að fordæma hann. Satan hafði haldið því fram frá upphafi að hann væri ekki að gera uppreisn. Allur alheimurinn yrði að sjá þegar grímunni yrði svipt af svikaranum.

     Jafnvel þegar Satan var varpað frá himnum eyddi Hin óendanlega viska honum ekki. Þar sem einungis kærleiksþjónusta er þóknanleg Guði verður tryggð skapaðra vera hans að hvíla á sannfæringu um réttlæti hans og góðvild. Íbúar himinsins og heimanna, sem voru ekki við því búnir að skilja eðli og afleiðingar syndar, hefðu ekki gert sér grein fyrir réttlæti þess að tortíma Satan. Hefði honum verið eytt fyrirvaralaust hefðu sumir þjónað Guði fremur af ótta en kærleik. Áhrifum svikarans hefði ekki verið að fullu eytt og anda uppreisnar hefði ekki verið algjörlega útrýmt. Öllum alheimi til góðs um ótaldar aldir varð hann að fá að þróa meginreglur sínar, svo að allar skapaðar verur gætu séð ásakanir hans á hendur guðlegri stjórn í réttu ljósi, og að réttlæti og miskunn Guðs og óbreytanleiki laga hans yrði hafin yfir allan vafa um alla eilífð.

     Uppreisn Satans skyldi verða lexía handa alheimi um allar aldir – stöðugur vitnisburður um eðli syndar og hræðilegar afleiðingar hennar. Þróun yfirráða Satans,

                                                                            43

áhrif þeirra á bæði á menn og engla, mundu leiða í ljós afleiðingar þess að óhlýðnast guðlegu valdi. Það væri til vitnis um það að tilvist stjórnar Guðs er forsenda velmegunar allra þeirra vera sem hann hefur skapað. Þannig skyldi frásögnin af þessari hræðilegu uppreisnartilraun verða til ævarandi verndar öllum heilögum verum, svo að komið yrði í veg fyrir að þær létu blekkjast um eðli syndar, til að forða þeim frá því að drýgja syndir og verða að þola hegningu fyrir það.

     Sá sem ríkir á himnum er sá sem sér endalokin frá upphafi – sá sem hefur leyndir fortíðar og framtíðar fyrir framan sig, og sá sem sér afrek eigin tilgangs, kærleiks og blessunar handan hörmunga myrkurs og eyðileggingar sem syndin hefur valdi. Þótt „[ský] og sorti séu umhverfis hann, [er] réttlæti og réttvísi grundvöllur hásætis hans.“ Sl 97.2. Þetta munu íbúar alheimsins, bæði hinir trúföstu og hinir svikulu, skilja að lokum. „Fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ 5M 32.4.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Þetta er ansi merkilegt. Til að byrja með er gaman að sjá hvað Ellen G. White er óhrædd við að skálda bara upp dót, án nokkurs stuðning við textann.

Hins vegar er frekar vandræðalegt að sjá þig vitna í (réttu) íslensku þýðinguna af Míka 5.1 sem einhvers konar fyrir þeirri fullyrðingu að Jesús hafi verið til með guði frá eilífð. Míka 5.1 talar einmitt ekki um það (og er  eiginlega í mótsögn við það), en í (röngu) ensku þýðingunni sem EGW notaði var greinilega talað um að hann væri frá "everlasting" en ekki "fortíðar dögum".

Hjalti Rúnar Ómarsson, 4.8.2011 kl. 10:54

2 Smámynd: Mofi

Hjalti
Þetta er ansi merkilegt. Til að byrja með er gaman að sjá hvað Ellen G. White er óhrædd við að skálda bara upp dót, án nokkurs stuðning við textann

Alveg eins og aðrir spámenn þá bætir hún við upplýsingum. Hún styðst ekki eingöngu við textann heldur líka innblástur.

Hjalti
Míka 5.1 talar einmitt ekki um það (og er  eiginlega í mótsögn við það), en í (röngu) ensku þýðingunni sem EGW notaði var greinilega talað um að hann væri frá "everlasting" en ekki "fortíðar dögum"

King James þýðingin er svona:

Mic 5:2  But thou, Bethlehem Ephratah, though thou be little among the thousands of Judah, yet out of thee shall he come forth unto me that is to be ruler in Israel; whose goings forth have been from of old, from everlasting. 

Og þegar ég skoða grískuna þá sé ég ekki betur en það er verið að nota orð þarna sem er best þýtt sem "frá eilífu" en það eru orðin 

min, min-nee', min-nay'
For H4482; properly a part of; hence (prepositionally), from or out of in many senses: - above, after, among, at, because of, by (reason of), from (among), in, X neither, X nor, (out) of, over, since, X then, through, X whether, with.

yome
From an unused root meaning to be hot; a day (as the warm hours), whether literally (from sunrise to sunset, or from one sunset to the next), or figuratively (a space of time defined by an associated term), (often used adverbially): - age, + always, + chronicles, continually (-ance), daily, ([birth-], each, to) day, (now a, two) days (agone), + elder, X end, + evening, + (for) ever (-lasting, -more), X full, life, as (so) long as (. . . live)

o-lawm', o-lawm'
From H5956; properly concealed, that is, the vanishing point; generally time out of mind (past or future), that is, (practically) eternity; frequentative adverbially (especially with prepositional prefix) always: - always (-s), ancient (time), any more, continuance, eternal, (for, [n-]) ever (-lasting, -more, of old), lasting, long (time), (of) old (time), perpetual, at any time, (beginning of the) world (+ without end). 

Ég er náttúrulega ekki menntaður í grísku en svona þýðir King James þetta og þetta er það sem grísku orðin sem þarna eru notuð þýða svo ég sé ekkert að því að tala þarna um að ætterni hans sé frá eilífðinni.

Mofi, 4.8.2011 kl. 14:29

3 identicon

Sæll Moffi

Ég las þetta yfir og er glaður að þú meðtakir að eitthvað annað sé til en á milli handanna.

Alveg eins og aðrir spámenn þá bætir hún við upplýsingum. Hún styðst ekki eingöngu við textann heldur líka innblástur.

Hvaðan skyldi þessi innblástur hafa komið til hennar ? Ég tel mig geta frætt ykkur um það að það skiptir ekki máli hve margar bækur af hinum helgu ritum þið lesið því að ekki er hægt að gera textann og innihaldið sýnilegt til að uppfylla óskir ykkar.

Það er ekkert öðru vísi með þjóna kirkjunnar af hvaða flokki sem þeeir eru að ef þeir hafa ekki hæfileika til að fá tilfinninguna og upplifunina við lesturinn verður textinn flatur við upplestur og breytir raddbreyting há eða lág engu máli.

Hef nú áður sett smá innlegg hér á síðuna og setti inn 2009 að hagkerfi heimsins færu á hliðina 2011 og mér sýnist því miður að það muni gerast. Ég sagði þá að Grikkland Ítalía og Spánn yrðu gjaldþrota.

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 4.8.2011 kl. 20:26

4 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Alveg eins og aðrir spámenn þá bætir hún við upplýsingum. Hún styðst ekki eingöngu við textann heldur líka innblástur.

Merkilegt. Myndirðu þá segja að það sem hún segir hérna, og á sér klárlega enga stoð í biblíunni, sé byggt á opinberun frá guði?

Er EGW þá óskeikul?

Og þegar ég skoða grískuna þá sé ég ekki betur en það er verið að nota orð þarna sem er best þýtt sem "frá eilífu" en það eru orðin

Það er nú svolítið klaufalegt að skoða grískuna ;) Held að þú vitir auðvitað betur og þarna hafi bara orðið smá skammhlaup og "gríska" komið í staðinn fyrir "hebreska".

Mofi, ég skal finna það, en ég man eftir að hafa skoðað þetta einhvern tímann (þeas séð þetta í grein og skoðað það) að þar sem þetta "dagar olam" er notað annars staðar þá er merkingin klárlega eitthvað eins og "í gamla daga". T.d. er sagt eitthvað um að hebrearnir hafi óhlýðnast í "dagar olam", sem er klárlega ekki frá eilífð.

Svo ef maður skoðar Míka 5, þá er verið að tala um ætterni væntanlegs leiðtoga, og rétt á undan er talað um að hann verði afkomandi Davíðs.

 Eitt enn, ég var að sjá að í ensku útgáfunni sem þú vísar í er vísun í annan stað úr biblíunni á eftir þessari Míka-tilvitnun. Eru það bara mistök að hafa það ekki með, eða var því kannski breytt í mismunandi útgáfum? Hérna er það:

 And the Son of God declares concerning Himself: "The Lord possessed Me in the beginning of His way, before His works of old. I was set up from everlasting. . . . When He appointed the foundations of the earth: then I was by Him, as one brought up with Him: and I was daily His delight, rejoicing always before Him." Proverbs 8:22-30.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 5.8.2011 kl. 18:22

5 Smámynd: Mofi

Hjalti
Merkilegt. Myndirðu þá segja að það sem hún segir hérna, og á sér klárlega enga stoð í biblíunni, sé byggt á opinberun frá guði?

Er EGW þá óskeikul?

Þegar maður les t.d. þetta sem ég benti á þá er endalaust verið að vitna í Biblíuna svo að hluta til byggt á Biblíunni. Ég trúi að Ellen White er eins og aðrir spámenn Biblíunnar, að það sem Guð sagði þeim var satt en að þeir sem menn eru ekki óskeikulir. Hún sagði beint út "“In regard to infallibility, I never claimed it; God alone is infallible".

Hjalti
Það er nú svolítið klaufalegt að skoða grískuna ;) Held að þú vitir auðvitað betur og þarna hafi bara orðið smá skammhlaup og "gríska" komið í staðinn fyrir "hebreska".

Ehh... kannski :)

Hjalti
Mofi, ég skal finna það, en ég man eftir að hafa skoðað þetta einhvern tímann (þeas séð þetta í grein og skoðað það) að þar sem þetta "dagar olam" er notað annars staðar þá er merkingin klárlega eitthvað eins og "í gamla daga". T.d. er sagt eitthvað um að hebrearnir hafi óhlýðnast í "dagar olam", sem er klárlega ekki frá eilífð.

Endilega útskýrðu betur. Ég benti á þrjú orð í hebreskunni sem ég tel réttlæta þá þýðingu sem King James er með og sé ekki hvernig það sem þú sagðir eru mótrök gegn því.

Hjalti
Eitt enn, ég var að sjá að í ensku útgáfunni sem þú vísar í er vísun í annan stað úr biblíunni á eftir þessari Míka-tilvitnun. Eru það bara mistök að hafa það ekki með, eða var því kannski breytt í mismunandi útgáfum? Hérna er það:

Til í að útskýra...?

Mofi, 8.8.2011 kl. 12:47

6 Smámynd: Valur Arnarson

4Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni.

Mofi, hvernig skilur þú þetta vers úr annari Mósebók, 20 kafli, 4. vers. Þá er ég sérstaklega að tala um þennan hluta: né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi. Auðvitað þarf þetta allt að skoðast í samhengi, hér er augljóslega verið að tala um skurðgoðadýrkun og vara við slíkri hegðun, en þetta með myndirnar af því sem er á himnum uppi hefur alltaf truflað mig.

Er verið að tala um að ef við gerum okkur myndir af því sem er á himnum uppi , þá sé það ígildi skurðgoðadýrkunnar? Eða er þetta bara einhver vitleysa í mér? Ég hef alltaf litið á sérstöðu Guðs og þess sem er himneskt með þeim hætti að við vitum ekki neitt um þau mál, þ.e. okkur verður það ljóst þegar sá tími kemur og ættum því að sýna biðlund og þolinmæði (sýna æðruleysi) á meðan staða okkar er eins og hún er núna og ekki leita eftir myndum af því sem er á himnum.

Hvernig hljóma þessar pælingar?

Valur Arnarson, 8.8.2011 kl. 15:50

7 Smámynd: Valur Arnarson

Hérna er ég auðvitað að tala um vitneskju um það sem er á himnum umfram Biblíuna, sé núna að þetta gæti misskilist, er svolítið þreyttur í dag

Valur Arnarson, 8.8.2011 kl. 15:58

8 Smámynd: Mofi

Valur, já, sammála því. Menn gætu lesið í textann og ályktað sem svo að málarastéttin er ein stór misstök og samfélag syndara.  Ég hef samt alltaf skilið þetta þannig að við eigum ekki að tilbiðja styttur eða myndir en ekki að við megum ekki búa slíkt til, til þess að skreyta. Það voru styttur að ég best við í musterinu sem Guð sjálfur gaf leiðbeiningar um hvernig ættu að vera.

Ég hef marg oft séð myndir af Jesú á himnum í bæklingum minnar kirkju svo mín kirkja hefur ekki skilið þetta þannig að við mættum ekki ímynda okkur hvernig lífið á himnum gæti orðið.  Áhugaverðar pælingar, sérstaklega þar sem ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að gera grein um hvernig himnaríki sé vegna þess að mörgum finnst hugmyndin að lifa að eilífu fráhrindandi; álykta sem svo að það hlýtur að vera mjög leiðinlegt.

Mofi, 8.8.2011 kl. 16:57

9 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Endilega útskýrðu betur. Ég benti á þrjú orð í hebreskunni sem ég tel réttlæta þá þýðingu sem King James er með og sé ekki hvernig það sem þú sagðir eru mótrök gegn því.

Ég fann greinina sem kemur með dæmin, þau eru neðst á blaðsíðu 8 hérna. Ég er ekki með (og veit ekki af ókeypis þannig forriti á netinu) sem getur leitað að nákvæmlega þessu.

Ef þú skoðar dæmin, þá sérðu að þetta orð getur ekki þýtt "eilífð" eða eitthvað álíka. Sjáðu til dæmis dæmið sem kemur tveimur köflum seinna, Míka 7.14:

Gæt þú þjóðar þinnar með staf þínum, sauða arfleifðar þinnar, þeirra sem byggja einir sér kjarrsóginn innan um aldingarðana. Lát þá ganga í Basanshaglendi og í Gíleað eins og forðum daga.

Þarna er líka notað "dagar olam" og augljóslega voru þeir ekki að ganga um Basanshaglendi í einhverri eilífðri fyrnd.

Hin rökin eru þau að í Míka 5 er verið að tala um að þessi væntanlegi leiðtogi verði afkomandi Davíðs, og þegar er verið að tala um ætterni hans, þá er líklega verið að ræða um þetta, og þetta ætterni er frá "fortíðar dögum" en ekki frá "eilífð".

Til í að útskýra...?

Ef þú kíkir á ensku útgáfuna af þessum kafla. Og kíkir á fyrstu efnisgreinina á "page 34", byrjar á "The Sovereign of the universe...." ("Drottnari alheimsins..." í þessari þýðingu). Þá endar sú efnisgrein á tilvitnun í Orðskviðina 8. Sú tilvitnun er ekki í íslenska textanum hérna. Var að spá hvort það væri bara mistök eða hvort að það hefði verið tekið út í einhverjum útgáfum.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 8.8.2011 kl. 19:56

10 Smámynd: Valur Arnarson

Sæll Mofi, ég þakka þér fyrir svarið. Þeir sem hafa málað/teiknað myndir af því sem er á himnum eru kannski ekki þeir einu sem eru settir undir þessi gleraugu. Þá er ég líka að tala um þá sem gera sér hugmyndir um það sem er á himnum eins og hún Ellen White virðist gera hér. Nú er ég ekki að segja að fólk geti ekki fengið opinberanir frá Guði í dag, það væri fráleitt að halda slíku fram, en texti færslunnar er svona einskonar formáli sköpunarsögunnar og allrar sögunnar ef horft er á heildarsamhengið. Þær spurningar sem vakna þá í kjölfarið gætu verið á þessa leið: Hvers vegna þessar opinberanir núna? Hvers vegna rataði þetta t.d. ekki beint í Mósebækurnar þar sem um mjög mikilvægt efni er að ræða sem takmarkast í rauninni ekki við þekkingu neins tíma, þ.e. sá sem opinberunina fær þarf ekki nútímaþekkingu til þess að koma henni frá sér á skiljanlegt form.

Við sem lesum textann hljótum að reyna að átta okkur á því hvaðan hann er kominn. Mér sýnist á honum að hann innihaldi í rauninni ekkert nýtt um Guð, hann aðgreinir hins vegar föður og son og ég er aldrei hrifinn af því vegna þess að þá erum við að takmarka það guðlega við okkar skilning. Textinn inniheldur hins vegar margt nýtt um Lúsífer/Satan og útskýrir áður óútskýrðan uppruna hans að mörgu leiti, en og aftur er ég ekki hrifinn af þessu þar sem þetta andavald er varasamt. Það sem ég er kannski að reyna að segja er að ekki sé útilokað að textinn sé ekki opinberun heldur eitthvað annað sem kannski ber að varast.

Mér dettur í hug að kannski væri skynsamlegt að taka Gamalíel á þetta og segja að ef þetta komi frá mönnum þá verði það að engu en sé þetta frá Guði komið þá borgi sig ekki að standa gegn því. Áttar þú þig á því hvert ég er að fara með þessu Mofi?

Þú talar um tilbeiðslu og er ég sammála þér í því að versið sem ég vitnaði í varar sterklega við því, en getur þetta ekki líka átt við hugmyndir sem gætu orðið yfirsterkari hinu raunverulega orði?

Valur Arnarson, 9.8.2011 kl. 09:03

11 Smámynd: Mofi

Hjalti, áhugaverðar pælingar um þetta hérna: http://carm.org/does-micah-5-2-predict-jesus-messiah

Sérstaklega finnst mér punkturinn góður að á dögum Jesú var þetta skilningurinn á versunum og þeir ættu að hafa betri skilning á hvað textinn var að meina en við.

Mofi, 10.8.2011 kl. 11:25

12 Smámynd: Mofi

Valur
Þá er ég líka að tala um þá sem gera sér hugmyndir um það sem er á himnum eins og hún Ellen White virðist gera hér. Nú er ég ekki að segja að fólk geti ekki fengið opinberanir frá Guði í dag, það væri fráleitt að halda slíku fram, en texti færslunnar er svona einskonar formáli sköpunarsögunnar og allrar sögunnar ef horft er á heildarsamhengið

Ef að fólk getur fengið opinberanir í dag og eins og Páll talaði um að við ættum að sækjast eftir spádómsgáfunni þá er rökréttast að við ættum að meta hvort einhver sé falsspámaður eða ekki.

Valur
Þær spurningar sem vakna þá í kjölfarið gætu verið á þessa leið: Hvers vegna þessar opinberanir núna? Hvers vegna rataði þetta t.d. ekki beint í Mósebækurnar þar sem um mjög mikilvægt efni er að ræða sem takmarkast í rauninni ekki við þekkingu neins tíma, þ.e. sá sem opinberunina fær þarf ekki nútímaþekkingu til þess að koma henni frá sér á skiljanlegt form.

Í Biblíunni sjáum við glitta fyrir þessari deilu milli Guðs og Satans en enginn tók hana fyrir ýtarlega í heild sinni. Ég veit ekki af hverju svona heildarmynd var ekki gefin fyrr en þannig hefur það oft verið; spámenn hafa komið með einhvern nýjan sannleika sem fólk þurfti á að halda á þeim tíma.  Við lifum á tímum þar sem guðleysi er mjög algeng afstaða sem er nýtt í sögunni og þeirra aðal vopn er að saka Guð um illsku svo ýtarlegri útskýring á hvernig illskan varð til og af hverju Guð leyfir henni að halda áfram að vera til er viðeigandi boðskapur fyrir okkar tíma.

Valur
Við sem lesum textann hljótum að reyna að átta okkur á því hvaðan hann er kominn. Mér sýnist á honum að hann innihaldi í rauninni ekkert nýtt um Guð, hann aðgreinir hins vegar föður og son og ég er aldrei hrifinn af því vegna þess að þá erum við að takmarka það guðlega við okkar skilning.

Ég sé ekki betur en Nýja Testamentið aðgreinir algjörlega Guð föður og Guð son. Ertu ósammála því?

Valur
Textinn inniheldur hins vegar margt nýtt um Lúsífer/Satan og útskýrir áður óútskýrðan uppruna hans að mörgu leiti, en og aftur er ég ekki hrifinn af þessu þar sem þetta andavald er varasamt. Það sem ég er kannski að reyna að segja er að ekki sé útilokað að textinn sé ekki opinberun heldur eitthvað annað sem kannski ber að varast.

Sérðu eitthvað í textanum sem er í andstöðu við Biblíuna?  Hvað finnst þér um þessa útskýringu á af hverju syndin var leyfð og af hverju Guð hefur ekki stöðvað hana?

Valur
Mér dettur í hug að kannski væri skynsamlegt að taka Gamalíel á þetta og segja að ef þetta komi frá mönnum þá verði það að engu en sé þetta frá Guði komið þá borgi sig ekki að standa gegn því. Áttar þú þig á því hvert ég er að fara með þessu Mofi?

Það er diplómatiskt en ein af aðal mistökum Ísraels var að hafna þeim spámönnum sem Guð sendi til þeirra. Í því ljósi tel ég að maður eigi að meta þá sem segjast vera spámenn, hafna þeim sem standast ekki kröfur Biblíunnar eða kenna eitthvað sem er í ósamræmi við hana en að skoða vel það ljós sem spámenn sem virðast vera sannir gefa.

Full ástæða til að vera á varðbergi en maður getur misst af miklu ef maður hafnar boðskapi sem Guð er að gefa sínu fólki.

Valur
Þú talar um tilbeiðslu og er ég sammála þér í því að versið sem ég vitnaði í varar sterklega við því, en getur þetta ekki líka átt við hugmyndir sem gætu orðið yfirsterkari hinu raunverulega orði?

Ég skil ekki alveg hvað þú meinar hérna.  Ef að Guð gefur sínu fólki meira ljós eða nýtt ljós þá er það Hans orð og sannleikur sem ber að hlusta á eins og það sem var opinberað fyrr á öldum.  Ég kannast ekki við tilbeiðslu á Biblíunni þó að maður trúi því sem hún segir og hið sama gildir um Ellen White.

Mofi, 10.8.2011 kl. 11:57

13 Smámynd: Mofi

Valur, þér gæti þótt þessi grein forvitnileg sem fjallar um Ellen White og tengsl hennar við Biblíuna, sjá: http://whiteestate.org/godsmessenger/lesson_plans/9-12/11-12/chpt_wksht/csa_17.pdf

Mofi, 10.8.2011 kl. 13:10

14 Smámynd: Valur Arnarson

Sæll Mofi, ég þakka þér fyrir svörin.

Ef að fólk getur fengið opinberanir í dag og eins og Páll talaði um að við ættum að sækjast eftir spádómsgáfunni þá er rökréttast að við ættum að meta hvort einhver sé falsspámaður eða ekki.

Þetta er hárrétt hjá þér. Við ættum að leita Guðs með þessa hluti, hann gefur okkur svörin, við erum bara mislengi að meðtaka þau :)

Við lifum á tímum þar sem guðleysi er mjög algeng afstaða sem er nýtt í sögunni og þeirra aðal vopn er að saka Guð um illsku svo ýtarlegri útskýring á hvernig illskan varð til og af hverju Guð leyfir henni að halda áfram að vera til er viðeigandi boðskapur fyrir okkar tíma.

Góður punktur!

Ég sé ekki betur en Nýja Testamentið aðgreinir algjörlega Guð föður og Guð son. Ertu ósammála því?

Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að Biblían kenni okkur að Faðirinn sé Guð, Sonurinn sé Guð og Heilagur andi sé Guð og að Guð sé einn Guð. En auðvitað hefur Faðirinn persónu, Sonurinn persónu og Heilagur andi hefur persónu. Ert þú að meina það, Mofi? Ég er sammála því að Nýja Testamenntið aðgreinir algjörlega þessar persónur en þetta er samt sem áður einn Guð. Það sem ég er að meina með texta Ellenar er að okkur mönnunum hættir oft til að orða hlutina þannig eins og um aðgreinda Guði væri að ræða. Ég hafði það á tilfinningunni þegar ég las textann að um slíka aðgreiningu væri að ræða en ég gæti haft rangt fyrir mér, ég viðurkenni það.

Sérðu eitthvað í textanum sem er í andstöðu við Biblíuna? Hvað finnst þér um þessa útskýringu á af hverju syndin var leyfð og af hverju Guð hefur ekki stöðvað hana?

Það sem ég var að reyna að segja hér er hvort þessi ný til fengna vitneskja um Lúsífer sé okkur nauðsynleg en mér fannst þú útskýra þann punkt vel þegar þú sagðir að við lifðum á tímum þar sem guðleysi er orðin algeng afstaða. Í þessu ljósi er kannski orðið nauðsynlegt að útskýra fall Lúsífers betur með opinberunum eins og Ellen gerir. Ég sé ekkert í textanum sem er í andstöðu við Biblíuna, nema þessi tilfinning sem ég fékk varðandi aðgreininguna, en það gæti verið misskilningur frá mér kominn.

Full ástæða til að vera á varðbergi en maður getur misst af miklu ef maður hafnar boðskapi sem Guð er að gefa sínu fólki.

Ég get tekið undir þessi orð þín Mofi og ég mun gefa þessu riti það tækifæri sem það á skilið. Ég vil líka þakka þér fyrir að vekja máls á þessu.

Ég kannast ekki við tilbeiðslu á Biblíunni þó að maður trúi því sem hún segir og hið sama gildir um Ellen White.

Þú hefur misskilið mig hér Mofi. Ég var ekki að tala um að það ætti að tilbiðja Biblíuna, það voru ekki mín orð. Kannski hefur setningin frá mér verið sett klaufalega fram. Ég var að samþykkja það sem þú sagðir um versið sem ég vitnaði í, þ.e. 20 kafla 2 Mósebókar 4 vers. Þar sem varað er við tilbeiðslu til handar skurðgoða og gerviguða. Hins vegar var ég að velta upp þeirri spurningu hvort versið, sem varar við því að við gerum okkur myndir af því sem á himnum er, geti ekki líka átt við um rit sem gætu, hjá einhverjum hópum, orðið yfirsterkari orðinu, eins og t.d. hjá Mormónum sem eru bæði með Mórmónabiblíuna og Biblíuna en ef eitthvað misræmi er þá ræður Mórmónabiblían í þeirra huga. Ég er ekkert endilega að segja að þetta eigi við um bók Ellenar, aðeins að velta upp þessari hugmynd. Annars þakka ég þér fyrir góða og gagnlega umræðu.

Valur Arnarson, 10.8.2011 kl. 13:37

15 Smámynd: Mofi

Valur
Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að Biblían kenni okkur að Faðirinn sé Guð, Sonurinn sé Guð og Heilagur andi sé Guð og að Guð sé einn Guð. En auðvitað hefur Faðirinn persónu, Sonurinn persónu og Heilagur andi hefur persónu. Ert þú að meina það, Mofi?

Akkúrat. Er einmitt að vinna í grein sem svarar bæklingi frá Votta Jehóvum sem heldur því fram að Jesús sé ekki Guð.

Valur
geti ekki líka átt við um rit sem gætu, hjá einhverjum hópum, orðið yfirsterkari orðinu, eins og t.d. hjá Mormónum sem eru bæði með Mórmónabiblíuna og Biblíuna en ef eitthvað misræmi er þá ræður Mórmónabiblían í þeirra huga. Ég er ekkert endilega að segja að þetta eigi við um bók Ellenar, aðeins að velta upp þessari hugmynd. Annars þakka ég þér fyrir góða og gagnlega umræðu.

Ellen White setti Biblíuna ofar sínum ritum og að Biblían væri staðallinn sem við ættum að dæma út frá.  Ég tek undir hennar orð og ef ég sæi að hún væri að kenna annað en Biblían þá yrði ég að hafna því sem hún hefur fram að færa. 

Takk sömuleiðis og sömuleiðis þakka þitt spjall við Hjalta, það er búið að vera gaman að fylgjast með.

Mofi, 10.8.2011 kl. 14:16

16 Smámynd: Valur Arnarson

Já, spjallið við Hjalta var ágætt. Þetta byrjaði reyndar á spjalli við Jón Bjarna en svo kom Hjalti Rúnar inní þetta af krafti. Annars var þetta bara allt saman mjög fróðlegt og mikil heimsspekikennsla fyrir vin okkar, sem situr væntanlega heima núna og stúderar Nietzche :)

Aðkoma Óla Jóns var hins vegar ekki eins skemmtileg og langt frá því að vera málefnaleg. Á tímabili vissi ég ekki hvort ég var að tala við Óla Rúnar eða Hjalta Jón, en ég áttaði mig fljótt á því að um hvorugan þeirra var að ræða en þetta eru einmitt nöfn á vinnufélögum mínum til nokkurra ára.

Valur Arnarson, 10.8.2011 kl. 15:07

17 Smámynd: Mofi

Maður verður að reyna að fá eitthvað jákvætt út úr svona; jafnvel þegar verið er að skjóta á mann, jafnvel þegar skotin virka ekki sanngjörn.  Erfitt og ég hef ekki enn náð góðum tökum á því :)

Mofi, 10.8.2011 kl. 15:57

18 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hjalti, áhugaverðar pælingar um þetta hérna: http://carm.org/does-micah-5-2-predict-jesus-messiah

Ó nei, það sem stendur á CARM er ekki "áhugavert". Sjáðu til dæmis þetta: "“The terms convey the strongest assertion of infinite duration of which the Hebrew language is capable.”. Finnst þér "dagar olam" í Míka 7.14 vera "the strongest assertion of infinite duration"?

Sérstaklega finnst mér punkturinn góður að á dögum Jesú var þetta skilningurinn á versunum og þeir ættu að hafa betri skilning á hvað textinn var að meina en við.

Það eina sem gæti hugsanlega passað við þetta er arameíska þýðingin frá 2. eða 3. öld sem þeir vísa á, en það er ekki auðvitað ekki "á dögum Jesú". Og satt best að segja treysti ég alls ekki þeirri heimild sem þeir vísa á.

Svo skil ég ekki af hverju þú vilt fara í einhverjar þýðingar, þegar þú getur bara séð að tveimur köflum seinna er þessi sömu orð notuð "dagar olam" og þá þýðir það augljóslega ekki eilífð, heldur "gamla daga".

Hjalti Rúnar Ómarsson, 12.8.2011 kl. 04:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Mofa blogg

Höfundur

Mofi
Mofi

Ég er sjöundadags aðventisti en tala samt ekki fyrir hönd safnaðarins. Hugbúnaðarfræðingur að mennt og aðhyllist Biblíulega sköpun. 

Íslendingur, hugbúnaðarfræðingur að mennt, búsettur í Englandi sem hefur áhuga á flest öllu. 

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • trinity witch craft
  • Bodunarkirkjan
  • Trinity_Symbol
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 802791

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband