"Til einskis dýrka þeir mig því að þeir kenna það eitt sem menn hafa samið"

pope_easter_gettyÞað hefur verið mönnum erfitt að halda sig við Biblíuna og ekki vera að fara út fyrir það sem hún kennir.  Það er ekki hægt að réttlæta þessa fordæmingu getnaðarvarna út frá Biblíunni og ég persónulega tel hana vera að valda miklum skaða með þessu.

Það sem ég held að spili hérna sterkt inn í er pólitík.  Kaþólska kirkjan sér að múslimir eru að fjölga sér eins og kanínur svo það gengur ekki upp að kaþólikkar séu ekki að fjölga sér. Ég er ekki frá því að þetta er spurning um völd frekar en hlýðni við Guð eða að reyna að vera góður kristinn einstaklingur.  Mér finnst viðeigandi það sem Jesú sagði eitt sinn um Faríseyja Hans tíma:

Matteusarguðspjall 15
7Hræsnarar, sannspár var Jesaja um ykkur er hann segir:
8Þessir menn heiðra mig með vörunum
en hjarta þeirra er langt frá mér.
9Til einskis dýrka þeir mig því að þeir kenna það eitt sem menn hafa samið.

 


mbl.is Fordæming getnaðarvarna staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, það væri samt auðveldara að fylgja boðskap Biblíunnar ef hann væri aðeins skýrari, sérstaklega hinn háæruverðugi Jesús Kristur (og athugaðu að ég aðhyllist flestar hugmyndis Jesúss þótt ég trúi því ekki að hann hafi verið Guð). Hér er eitt sem böggaði mig þegar ég var kristinn og ég hef aldrei fengið fullnægjandi skýringu á.

2. Mósebók 31:14: Haldið því hvíldardaginn, því að hann skal vera yður heilagur. Hver sem vanhelgar hann, skal vissulega líflátinn verða, því að hver sem þá vinnur nokkurt verk, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni.

Nú verður maður að velta fyrir sér hvort þessar reglur gildi ennþá. Spurjum Jesú sjálfan.

Matteus 5:17-19: Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.

Hann segir klárlega að hann sé ekki, ég endurtek, ekki kominn til að afnema lögmálið (Torah), en 2. Mósebók er einmitt önnur bók þess lögmáls. Ef hann hefði meint það sem stendur þarna, hefði hann farið að framfylgja lögmálinu í stað þess að heimila fólki að brjóta það eins og hann gerir hér:

Þegar farísear sáu það, sögðu þeir við hann: "Lít á, lærisveinar þínir gjöra það, sem ekki er leyft að gjöra á hvíldardegi."

Matteus 12:3-8: Hann svaraði þeim: "Hafið þér eigi lesið, hvað Davíð gjörði, þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, og þeir átu skoðunarbrauðin, sem hvorki hann né menn hans og engir nema prestarnir máttu eta. Eða hafið þér ekki lesið í lögmálinu, að prestar vanhelga hvíldardaginn í musterinu á hvíldardögum, og eru þó án saka? En ég segi yður: Hér er meira en musterið. Ef þér hefðuð skilið, hvað felst í orðunum: ,Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir,' munduð þér ekki hafa sakfellt saklausa menn. Því að Mannssonurinn er herra hvíldardagsins."

Lögmálið segir skýrt og klárlega frá því að sá sem vinni á hvíldardegi skuli upprættur úr þjóð sinni. Annaðhvort stendur lögmálið eða ekki, það getur ekki bæðið staðið og verið breytt, en Jesús bætir við þessari leikfléttu að mega gera það. Ofan á það réttlætir hann það með aðgerðum  Davíðs þegar menn hans hungruðu, en sá kafli í Biblíunni kemur hvílardeginum nákvæmlega ekki neitt við, og boðskapurinn virðist því vera sá að maður eigi að fylgja lögmálunum nema þegar maður sjái ástæðu til að gera það ekki. Þetta er í beinni mótsögn við lögmálið sjálft sem er að uppræta þann mann úr þjóð sinni sem vinnur á hvíldardeginum. Fullyrðing getur ekki verið sönn og ósönn á sama tíma, það er skilgreiningin á mótsögn.

Það er því ekkert skrýtið að menn eigi erfitt með að fylgja lögmálinu til hins ítrasta, af þeirri einföldu ástæðu að það er endalaust svigrúm til að rífast um það hvaða lögum beri að fara eftir og hvaða önnur lög maður eigi að endurtúlka með hliðsjón af boðskap Jesú Krists.

Eins og venjulega eru einu varnirnar gegn þessu ýmist þær að þetta sé tekið úr samhengi, sem er einfaldlega ekki rétt í þessu tilfelli, eða að þetta þýði raunverulega ekki það sem stendur þarna, og í því tilfelli er Biblían augljóslega ekki hið fullkomna rit siðgæðis, og því augljóslega ekki ritað eða boðað af skapara alheimsins, enda hefði maður haldið að sá sem gæti hannað alheiminn gæti komið frá sér skilaboðum á skýrari hátt, án þess að treysta á einstaklingsbundnar geðþóttatúlkanir.

Ef ég spyr spurningarinnar, "Á að uppræta mann, eða á ekki að uppræta mann, úr þjóð sinni, fyrir að vinna á hvíldardeginum?" - þá geturðu valið svarið. Samkvæmt 2. Mósebók, já, klárlega, en samkvæmt Jesú Kristi, nei, klárlega ekki. Annaðhvort er lögmálið því ekki eilíft, í beinni mótsögn við það sem Jesús sagði á öðrum tíma, eða að menn séu hreinlega ekki skyldir til að fylgja lögmálinu til hins ítrasta.

Nú heldurðu kannski að ég hafi grafið þetta upp í einhvers konar kvikindisskap eða þröngsýni, en það fór verulega í taugarnar á sjálfum mér þegar ég var kristinn, að geta ekki fundið út úr þessu. Þetta er eitt af því fjölmarga sem ringlaði með í kristni minni og stendur eftir óútskýrt nú þegar ég hef misst trú á því að Guð skrifi bækur.

Endilega útskýrðu fyrir mér, Mofi. Ég skal taka rökréttar útskýringar trúverðugar, en ekki fara út í gömlu afsakanirnar eins og þetta sé þýðingarvilla, því þýðingarvillu ætti ekki að vera erfitt að einfaldlega laga, en svona er þetta í öllum Biblíum sem ég hef lesið, bæði enskum sem íslenskum. Ef þú vilt meina að þetta sé tekið út úr samhengi, endilega útskýrðu fyrir mér hið rétta samhengi. En ég krefst þess að notuð sé röksemd, ég trúi því ekki að Guð krefjist þess af okkur að hunsa það besta og mikilvægasta og fallegasta sem Guð hefur gefið okkur til að komast að sannleikanum; vitið sjálft.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 15:10

2 Smámynd: Mofi

Helgi
Hér er eitt sem böggaði mig þegar ég var kristinn og ég hef aldrei fengið fullnægjandi skýringu á.

Blessaður Helgi og takk fyrir heimsóknina.  Leiðinlegt að heyra að þú varst kristinn en misstir trúna.  Ég skal reyna að minnsta kosti útskýra þetta eins og ég skil þetta.

Helgi
Nú verður maður að velta fyrir sér hvort þessar reglur gildi ennþá. Spurjum Jesú sjálfan.

Þessi lög sem þarna um ræðir eru refsilöggjöf þjóðarinnar. Þau voru í rauninni afnumin 70.e.kr. af því að þau áttu við gyðinga sem þjóð og 70. e.kr. þá misstu þeir landið sitt og sjálfstæði.   Lærisveinar Krists fóru ekki að boða kristni sem nýjan gyðingdóm eða nýja þjóð sem væri stjórnað af lögmálunum sem við finnum í Mósebókunum.  Kristnir voru fyrstu 300 árin dreifðir meðal þjóðanna og aldrei sem ein þjóð sem hafði sér löggjöf ( refsilöggjöf ) sem þeir notuðu til að refsa fólki.

Enn annað sem þarf að hafa í huga er að musteris þjónustan snérist um að veita þeim miskunn og fyrirgefningu sem brutu lögmálið. Ef einhver braut lögmálið þá átti hann að geta iðrast og farið til musterisins og fengið fyrirgefningu og það var það sem Guð hvatti til í lögmálinu; að fólk sýndi iðrun og miskunn.

Helgi
Lögmálið segir skýrt og klárlega frá því að sá sem vinni á hvíldardegi skuli upprættur úr þjóð sinni. Annaðhvort stendur lögmálið eða ekki, það getur ekki bæðið staðið og verið breytt, en Jesús bætir við þessari leikfléttu að mega gera það

Menn voru að lesa inn í hvíldardagslögmálið hluti sem tilheyrðu því ekki. Þegar Jesú talar um söguna af Davíð þá er Hann að útskýra þessa hluti fyrir fólkinu.  Hvíldardagurinn átti að vera feginsdagur eða ánægjulegur þar sem fólk fékk hvíld og gat notið dagsins. Dagurinn var gerður til blessunar mannsins en ekki til að setja á fólk byrgðar eins og prestarnir voru búnir að gera.

Helgi
enda hefði maður haldið að sá sem gæti hannað alheiminn gæti komið frá sér skilaboðum á skýrari hátt, án þess að treysta á einstaklingsbundnar geðþóttatúlkanir

Þegar maður les snilldar verk Shakespeare eins og Hamlet eða snilldar verk Newtons um stærðfræði þá býst ég ekki við að það sé auðvelt að lesa það eins og það væri eitthvað Andrésar andar blað.  Ég býst við því að þegar kemur að alvöru bókmenntum þá þurfi að leggja vinnu í að skilja þær og að með lestri og íhugun þá muni ég skilja meira og meira. Ég býst einfaldlega við því sama af Biblíunni og af öðrum merkilegum bókmenntum.

Vonandi ertu sáttur við svarið en endilega láttu mig vita ef þú ert það ekki.

Bestu kveðjur

Mofi, 3.10.2008 kl. 16:08

3 identicon

Sæll aftur og takk fyrir ágætis svar.

"Þegar maður les snilldar verk Shakespeare eins og Hamlet eða snilldar verk Newtons um stærðfræði þá býst ég ekki við að það sé auðvelt að lesa það eins og það væri eitthvað Andrésar andar blað."

Ég get alveg kvittað undir þetta, enda hef ég stúderað Biblíuna alla mína ævi, fyrst sem kristinn, síðar meir sem efasemdamaður og núna vegna þess bæði að mér þykir það skemmtilegt, sem og að sama hvað manni finnist um hana, er hún afskaplega mikilvæg menningarlega. Sumsé, ég get alveg tekið undir það sem þú sagðir, en ég vil benda á að ég hef stúderað hana alla mína ævi (28 ára núna). Og það er ýmislegt gott í henni, ég bara trúi ekki að hún sé orð skapara alheimsins, en við þurfum svosem ekkert að rífast um það, ég skal reyna að halda mig við efnið.

"Menn voru að lesa inn í hvíldardagslögmálið hluti sem tilheyrðu því ekki. Þegar Jesú talar um söguna af Davíð þá er Hann að útskýra þessa hluti fyrir fólkinu.  Hvíldardagurinn átti að vera feginsdagur eða ánægjulegur þar sem fólk fékk hvíld og gat notið dagsins. Dagurinn var gerður til blessunar mannsins en ekki til að setja á fólk byrgðar eins og prestarnir voru búnir að gera."

Tjah, þeir voru að lesa það sem stendur í 2. Mósebók 31:14, væntanlega, þar sem stendur svart á hvítu, í upprunalegu hebresku útgáfunni og hverri einustu sjálfstæðu þýðingu, að lífláta beri mann fyrir að vanvirða hvíldardaginn og reka úr þjóðinni þann sem vinnur á honum. Ég get tekið rök þín góð og gild hvað varðar nútímasamfélagið, þar eð við erum ekki Ísrael né gyðingar, en Jesús lifði á tímum þegar Ísrael var ennþá til, nánar tiltekið sem Ísrael, Júdea og Samaría. Sumsé, lögmálin ættu að hafa verið gild á hans tíma og hans stað, í það minnsta. En ég skal taka gott og gilt að þau séu ekki gild hér og nú.

Hvað varðar Davíð og hanns menn, þá fletti ég nú einhvern tíma upp því sem Jesús var að tala um, en hvergi fann ég neitt í þeirri sögu, og ég virkilega reyndi að finna það, sem réttlætir að vinna á hvíldardeginum. Davíð brauð lög vegna þess að "nú verður allt helgað", þ.e. þeir voru að gera svo mikilvæga hluti að þeir þurftu ekki að hlýða reglunum. Ef það má nota þann boðskap til að réttlæta að brjóta lögmálin, þá augljóslega standa þau ekki að eilífu, og þá kom Jesús augljóslega til þess að breyta lögmálinu, þrátt fyrir að hafa sagt sjálfur sérstaklega að hann væri ekki kominn til þess.

Hvað áttu Farísearnir að halda? Þeir lásu væntanlega 2. Mósebók 31:14. Mér dettur eitt í hug sem þú getur gert til að sannfæra mig, sem er að finna út einhver önnur lög um hvíldardaginn í lögmálinu (Torah) sem heimila svona lagað, eða setja þetta allt saman í eitthvert samhengi.

Vandi minn er ennþá til staðar. En takk fyrir svarið.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 17:18

4 Smámynd: TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.

Þetta hefur alltaf viðgengist, trúin er vopn sem er beitt óspart. Þú ert þarna með vers úr Matteusarguðspjalli ég ætla að hafa það af að lesa hvernig þessi bók segir að sér öðruvísi við guðspjöll hinna postulana, eitthvað tengist það að frásögn hans tengist miklu meira GT á beinan hátt. En ég tók víst líka 1984 með mér og Sri s. :)

TARA ÓLA/GUÐMUNDSD., 3.10.2008 kl. 22:04

5 Smámynd: Sigurður Rósant

Getum við mennirnir kennt eitthvað annað en það sem menn hafa samið?

Hver og ein einasta kennisetning í þessum 66 ritum Biblíunnar er samin af mönnum, fyrst sem munnmæli mann fram af manni og síðan skráð og endurskráð kynslóð eftir kynslóð.

Allar kennisetningar sem maðurinn telur sig fá frá guði sínum eru einungis úr kolli hans sjálfs byggðar á óskhyggju hans sjálfs og annarra manna sem hafa áhrif á þann sem heyrir raddir í kolli sínum.

Sigurður Rósant, 4.10.2008 kl. 13:24

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er mikil óskhyggja Sigurðar Rósants sem mótast af því hvernig hann sjálfur vill, að veruleikinn sé. En sama hversu oft sem hann segir þetta, breytir það engu.

Jón Valur Jensson, 4.10.2008 kl. 20:31

7 Smámynd: Mofi

Helgi
Og það er ýmislegt gott í henni, ég bara trúi ekki að hún sé orð skapara alheimsins, en við þurfum svosem ekkert að rífast um það, ég skal reyna að halda mig við efnið.

Ekki rífast um það nei en væri gaman að sjá þig eitthvað í þessum mánuði þar sem ég var með tvær greinar þar sem ég ætla að fjalla um ástæður til að trúa því og væri gaman að fá þitt innlegg í þá umræðu.

Helgi
Tjah, þeir voru að lesa það sem stendur í 2. Mósebók 31:14, væntanlega, þar sem stendur svart á hvítu, í upprunalegu hebresku útgáfunni og hverri einustu sjálfstæðu þýðingu, að lífláta beri mann fyrir að vanvirða hvíldardaginn og reka úr þjóðinni þann sem vinnur á honum

Augljóslega þá skiptir það öllu máli, hvað það er að vanvirða hvíldardaginn. Jesú greinilega hafði aðrar skoðanir á hvað það væri að vanvirða hvíldardaginn. Það sést best á því þegar kom að spurningunni hvort mætti lækna fólk á hvíldardögum.  Jesús spyr þá hvort megi gera góðverk á hvíldardögum og kemur síðan upp um hræsni eða illsku þeirra þegar Hann bendir á að þeir myndu auðvitað bjarga dýri úr lífsháska á hvíldardegi.

Lúkasarguðspjall 13
10Jesús var að kenna á hvíldardegi í samkundu einni. 11Þar var þá kona nokkur. Í átján ár hafði hún verið sjúk. Hún var kreppt og alls ófær að rétta sig upp. 12Jesús sá hana og kallaði hana til sín og sagði við hana: „Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!“ 13Þá lagði Jesús hendur yfir hana og jafnskjótt gat hún rétt úr sér og lofaði Guð.
14En samkundustjórinn reiddist því að Jesús læknaði á hvíldardegi og mælti til fólksins: „Sex daga skal vinna, komið þá og látið lækna ykkur og ekki á hvíldardegi.“
15Drottinn svaraði honum: „Hræsnarar, leysir ekki hver ykkar á hvíldardegi naut sitt eða asna af stalli og leiðir til vatns? 16En þessi kona, sem er dóttir Abrahams og Satan hefur fjötrað full átján ár, mátti hún ekki leyst verða úr fjötrum þessum á hvíldardegi?“

Helgi
Ef það má nota þann boðskap til að réttlæta að brjóta lögmálin, þá augljóslega standa þau ekki að eilífu, og þá kom Jesús augljóslega til þess að breyta lögmálinu, þrátt fyrir að hafa sagt sjálfur sérstaklega að hann væri ekki kominn til þess.

Í Daníel þá er spádómur um um krossfestinguna og þar kemur dáldið merkilegt fram.

Daníel 9
27Hann mun gera traustan sáttmála við marga í eina viku, frá miðri viku mun hann afnema sláturfórn og matfórn

Allt fórnarlögmálið var skuggi af því sem Kristur átti að gera eða uppfylla. Sá hluti "lögmálsins" eða fórnarlögmálið átti alltaf að afnema svo ég verð að álykta að Jesús var að tala um boðorðin tíu. Refsilöggjöf gyðinga gat heldur ekki átt við kristna sem voru og eru enn á mörgum stöðum, aðeins hópur manni sem býr í samfélagi sem er ekki kristið.  Ég fjallaði um þennan spádóm betur hérna ef þér finnst vanta samhengi í þetta hjá mér, sjá: Spádómurinn um Föstudaginn Langa

Mofi, 5.10.2008 kl. 13:06

8 Smámynd: MacGyver

Er ekki eitthvað dóteri í Biblíuna um að ekki henda sæði burt til einskis?

MacGyver, 5.10.2008 kl. 14:29

9 Smámynd: Mofi

Takk fyrir það Halldóra :)

Tara
En ég tók víst líka 1984 með mér og Sri s. :)

Nú er ég forvitinn :)   því ég skildi því miður ekki það sem þú sagðir

Rósant
Getum við mennirnir kennt eitthvað annað en það sem menn hafa samið?

Jesús gerði skýran mun á milli helgra rita spámannanna og erfðikenningarinnar sem þessir menn voru að predika.  Þessir menn vissu líka muninn, þeir vissu að sum rit voru frá spámönnum og önnur voru það einfaldlega ekki þótt þeir aðhylltust margt í þeim.

Takk fyrir góða athugasemd Jón Valur... kom mér samt á óvart að þú skyldir ekki gagnrýna mig fyrir þessa færslu.

Mofi, 5.10.2008 kl. 14:45

10 Smámynd: Sigurður Rósant

Mofi - "Jesús gerði skýran mun á milli helgra rita spámannanna og erfðikenningarinnar sem þessir menn voru að predika."

Er nú ekki fullmikið að fullyrða að svo hafi verið? Jesús skildi ekki eftir sig neitt ritverk í þessu sambandi og minntist ekki einu orði á getnaðarvarnir, miðað við meint ummæli hans.

Auk þess var Jesús bara maður sem lærði sín fræði af mönnum og braut bæði "lögmál Guðs" og mannasetningar jöfnum höndum.

Sigurður Rósant, 5.10.2008 kl. 21:57

11 Smámynd: TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.

Nei sorry. Loksins kom að því að þú skyldir ekki eitthvað :) Ég er fjarstödd en allt á fullu samt og heilasellurnar í flækju svo þetta er ósköp eðlilegt er það ekki. Satt að segja hrúgast að mér bækur, ég man ekki hvað þessi heitir en ég er ekki að ruglast á Tómasi, þessi bók tók fyrir Matteusarguðspjall og nefndi meira að segja, minnir mig, að það væri 40 árum yngra en Markúsarg. og að hann (Matt.) byggði á öðru en hinir postularnir og þar kæmi GT mikið við sögu. Ég verð að klára dæmið og lesa þetta alveg, bara búið að vera mikið að gera við að auglýsa málþing Amnesty Int. til heiðurs Grigory Pasko og enginn er nógu áhugamikill til að lesa um hann einu sinni virðist mér. Það er voða gott að sitja við tölvuna og þræta og deila um heimsmálin eða hvað ég á að kalla þetta, en alls ekki að standa upp og láta verkin tala. Ég er ekkert að skamma þig Mofi minn, notaði bara tækifærið til að segja þetta því þú ert svo víðlesin, óforskömmuð

TARA ÓLA/GUÐMUNDSD., 6.10.2008 kl. 14:25

12 Smámynd: Mofi

MacGyver
Er ekki eitthvað dóteri í Biblíuna um að ekki henda sæði burt til einskis?

Ekki svo ég viti til. Það er að vísu til saga af manni sem neitaði eiginkonu sinni um að eignast barn og var sú hegðun gagnrýnd.

Rósant
Er nú ekki fullmikið að fullyrða að svo hafi verið? Jesús skildi ekki eftir sig neitt ritverk í þessu sambandi og minntist ekki einu orði á getnaðarvarnir, miðað við meint ummæli hans.

Tel það nokkuð öruggt. Við sjáum Jesú t.d. vitna í marga spámenn eins og Elía, Jesaja og Daníel en síðan vitna í hefðir gyðinga sem hefðir manna eins og kemur fram í versinu sem ég benti á í greininni.

Rósant
Auk þess var Jesús bara maður sem lærði sín fræði af mönnum og braut bæði "lögmál Guðs" og mannasetningar jöfnum höndum.

Þetta er auðvitað óverjanleg staðhæfing. Það eru engin dæmi að Jesú hafi brotið lögmál Guðs sem við vitum um.

Tara
Nei sorry. Loksins kom að því að þú skyldir ekki eitthvað :)

Endilega ekki bæta í hauginn af þeim hlutum sem ég skil ekki.  Hann er allt of stór!  :)

Tara
en ég er ekki að ruglast á Tómasi, þessi bók tók fyrir Matteusarguðspjall og nefndi meira að segja, minnir mig, að það væri 40 árum yngra en Markúsarg. og að hann (Matt.) byggði á öðru en hinir postularnir og þar kæmi GT mikið við sögu

Ég hélt að langflestir væru sammála um að Markús væri elsta og Matteusarguðspjallið byggði að einhverjum hluta á því... 

Tara
Ég verð að klára dæmið og lesa þetta alveg, bara búið að vera mikið að gera við að auglýsa málþing Amnesty Int. til heiðurs Grigory Pasko og enginn er nógu áhugamikill til að lesa um hann einu sinni virðist mér.

Það er svo mikið af upplýsingum í okkar þjóðfélagi; allt of mikið að lesa...  Ég las og langaði að mæta en er búinn að vera veikur síðustu viku og ekki viljað vera of mikið meðal fólks ( snýtandi og slefandi, ekki aðlagandi... )  Á eftir að horfa á videóin en finn vonandi tíma í dag.

Kær kveðja :)

Mofi, 6.10.2008 kl. 14:42

13 Smámynd: TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.

Allt í fína þú finnur tíma. En ég ætla skrifa hér nokkur orð svo þú haldir ekki að AI ráði bara svolítið sérstaka sjálfboðaliða :) (ég er reyndar undandtekning) Rétt Markúsarguðspjall var skrifað um 25 árum fyrr og er sennilega elst. En samt er Matteusarguðspjall alltaf fyrst, skýringin á því er sú að það er brúin á milli GT og NT. Engin bók NT steypir saman GT og því nýja í sama mæli og Matteusarguðspjall. Matteus sér vonir og drauma Gyðinga rætast í Jesú. Jesús er kallaður oftar sonur Davíðs í Matt. en í öllum hinum samanlögðum. Matt. gat aðeins sannfært Gyðinga um að Jesús hafi verið Messías með þeim hætti að sýna þeim fram á að spádómur spámanna hafi ræðst í Jesú og lífi hans. Það er ástæða þess að ein setning gengur sem rauður þráður gegnum guðspjall Matt. Hún er í fyrsta kafla og síðan hvað  eftir annað út allt guðspjallið. Allt þetta varð til þess að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins.

Gerðu svo vel, þetta dugar :) kv. Tara

TARA ÓLA/GUÐMUNDSD., 6.10.2008 kl. 15:29

14 Smámynd: Mofi

Tara, ég hef ekki kynnt mér ástæðurnar fyrir röð guðspjallanna en ætti að gera það.  Gangi þér vel með málþingið og vonandi kemst ég.

Mofi, 6.10.2008 kl. 15:40

15 Smámynd: TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.

Já vonandi kemstu á málþingið Mofi minn, þrátt fyrir hörmungafréttirnar. En hafðu ekki áhyggjur að guðspjöllunum, ég þekki þau til hlýtar, og Biblíuna alla auðvitað.

TARA ÓLA/GUÐMUNDSD., 6.10.2008 kl. 17:29

16 identicon

Mofi: Sko, lögmálin geta ekki bæði breyst og ekki breyst, það er bein mótsögn.

Það að spádómurinn í Daníel 9. kafla segi til um að Messías muni breyta lögunum um brennifórn þýðir ekki að hann sé kominn til að breyta því lögmáli að sá sem vinni á hvíldardeginum skuli upprættur úr þjóð sinni. Hann þarf ekki einu sinni að vanhelga hvíldardaginn, hann þarf bara að vinna á honum, til að vera upprættur úr þjóð sinni, samkvæmt gömlu lögmálunum sem Jesús segist ekki vera kominn til að afnema. Spádómur Daníels fjallar um brennifórn, ekki um hvíldardaginn eða lögmál Guðs, sem ég get ekki ítrekað nógu oft, að Jesús segist sjálfur ekki vera kominn til að afnema!

Hvað kallar þú mótsögn ef ekki þetta? Í alvöru, gefðu mér dæmi um mótsögn, ekki úr Biblíunni, bara yfirhöfuð.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 13.10.2008 kl. 10:31

17 Smámynd: Mofi

Helgi
Mofi: Sko, lögmálin geta ekki bæði breyst og ekki breyst, það er bein mótsögn.

Fer eftir hvaða lög þú ert að tala um.  Í þessu tilfelli þá er greinilega verið að tala um boðorðin tíu því við sjáum það í samhenginu en ekki refsilöggjöf gyðinga þjóðarinnar.

Helgi
Það að spádómurinn í Daníel 9. kafla segi til um að Messías muni breyta lögunum um brennifórn þýðir ekki að hann sé kominn til að breyta því lögmáli að sá sem vinni á hvíldardeginum skuli upprættur úr þjóð sinni.

Sammála

Helgi
Hann þarf ekki einu sinni að vanhelga hvíldardaginn, hann þarf bara að vinna á honum, til að vera upprættur úr þjóð sinni, samkvæmt gömlu lögmálunum sem Jesús segist ekki vera kominn til að afnema.

Jú, Hann þarf að vanhelga hvíldardaginn því að boðorðið hljóðar á um það. Það voru auðvitað ákveðin störf sem þurfti að vinna eins og að hjúkra þeim sem þurftu á því að halda og enginn leit á þannig störf sem vanhelgun á hvíldardeginum.

Helgi
Spádómur Daníels fjallar um brennifórn, ekki um hvíldardaginn eða lögmál Guðs, sem ég get ekki ítrekað nógu oft, að Jesús segist sjálfur ekki vera kominn til að afnema!

Í versunum þá er talað um sláturforn og matforn.

27Hann mun gera traustan sáttmála við marga í eina viku, frá miðri viku mun hann afnema sláturfórn og matfórn

Svo hérna er verið að tala um fórnarlögmálið eða musteris þjónustuna.  Refsilöggjöfin átti aðeins við gyðingana sem þjóð og var nátengd musteris þjónustunni því að þar gat maður fengið fyrirgefningu á þessum brotum; þar gat maður farið með fórn til að þurfa ekki að verða fyrir refsingunni sjálfur.  

Mofi, 13.10.2008 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Mofa blogg

Höfundur

Mofi
Mofi

Ég er sjöundadags aðventisti en tala samt ekki fyrir hönd safnaðarins. Hugbúnaðarfræðingur að mennt og aðhyllist Biblíulega sköpun. 

Íslendingur, hugbúnaðarfræðingur að mennt, búsettur í Englandi sem hefur áhuga á flest öllu. 

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • trinity witch craft
  • Bodunarkirkjan
  • Trinity_Symbol
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 803264

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband