Jólin og hátíðir Guðs

bible-image1.jpgÞað er áhugavert að bera saman hátíðir Guðs og síðan jólin sem er töluvert erfiðara að segja að sé kristin hátíð. Eins og allir vita þá fæddist Kristur ekki þann 25. des en aftur á móti fæddust nokkrir heiðnir guðir þann dag svo frekar undarlegt af kristinni kirkju að velja þennan dag til að halda upp á fæðingu frelsarans. Eitthvað segir mér að það var ekki andi Guðs sem var þar á bakvið.

Mjög líklega fæddist Jesú á einni af hátíð Guðs og sú sem ég trúi að Hann hafi fæðst á er Laufskálahátíðin af því að hún er táknmynd þess þegar Guð býr á meðal fólks síns. Hérna má lesa meira um Laufskálahátíðina eða Sukkót, sjá: http://www.hebrew4christians.com/Holidays/Fall_Holidays/Sukkot/sukkot.html

Skoðum stuttlega hátíðir Guðs til að átta okkur á því hvaða lexíur Guð var að kenna okkur með þeim.

  1. Páskadagur. 
    Á þessum degi lærði fólkið um páskalambið sem myndi deyja fyrir syndir mannkyns. Prestarnir þurftu að velja lamb til að vera páskalambið og það þurfti að vera fullkomið og flekklaust. Þessi rannsókn stóð yfir rétt fyrir páskadag, alveg eins og Jesú var grandskoðaður og fundinn flekklaus áður en Hann dó á páskadag.
  2. Hátíð hinna ósýrðu brauða ( Feast of unleavened bread )
    Þessi hátíð byrjaði strax eftir Páskadag og stóð yfir í viku.  Hún átti að kenna fólki um hið syndlausa líf. Fólkið átti að fjarlægja alla synd úr lífi sínu sem var táknað með því að á þessum tíma var aðeins borðað ósýrt brauð.  Þeir sem velta því fyrir sér hvort að kristnir eiga að halda þessa hátíð þá segir Páll skýrt að við eigum að gera það, við lesum um það í 1. Kórintubréfi, fimmta kafla, sjöunda vers:

    1. Kórintubréf 5:7
      Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig, enda eruð þér ósýrðir. Því að páskalambi voru er slátrað, sem er Kristur.
    Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi né með súrdeigi illsku og vonsku, heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.
  3. Feast of first fruits
    Ef að páskadagur væri á föstudegi þá væri þessi hátíð á sunnudegi og út frá kristnum skilningi þá táknaði þessi hátíð upprisuna og Kristur reis upp á þessum degi og varð frumgróðri allra sem hafa dáið.
  4. Hvítasunna ( Pentecost )
    Fimmtíu dögum eftir páska þá var Hvítasunnuhátíðin en penta þýðir fimmtíu. Á þeim degi var fagnað því að Ísrael fékk lögmálið frá Guði. Lærisveinunum var skipað að vera áfram í Jerúsalem eftir krossfestinguna og það var á Hvítusunnunni sem þeir fengu Heilagan Anda og byrjuðu að predika og þar með varð í rauninni kristna kirkjan til. Áhugavert að Guð skuli tengja þetta svona saman, að fá lögmálið og fá Heilagan Anda en þegar maður skilur að lögmálið segir okkur hvað synd er og þegar við iðrumst og fylgjum lögmálinu þá er syndin farin úr lífi okkar og við erum hætt að syndga og þá getur Heilagur Andi búið í okkur.
  5. Feast of trumpets
    Þessi hátíð var tíu dögum fyrir Day of Atonement eða Friðþægingardaginn mikla og hann var nokkurs konar viðvörun um að núna skildu allir undirbúa sig undir þann dag sem var alvarlegasti dagur ársins.
  6. Friðþægingardagurinn ( Day of Atonement )
    Á þessum degi áttu allir að fasta og iðrast synda sinna. Fara yfir líf sitt og syrgja hvaða syndir þeir gætu hafa drýgt.  Á þessum degi fór líka æðsti presturinn inn í hið allra helgasta og færði fórn á náðarsætið sem var lokið á örkinni sem geymdi Boðorðin tíu. Þarna fékk fólkið skýra táknmynd um að það væri blóð Krists sem borgaði fyrir okkar brot á lögum Guðs og það væri ekki þeirra eigin verk sem færði þeim réttlæti heldur var það þessi fórn sem dó fyrir syndir þeirra.
  7. Laufskálahátíðin ( Feast of Tabernecles )
    Á þessari hátíð þá átti þjóðin að fagna og búa í laufskálum í heila viku. Taka sér frí frá daglegu amstri og sínu vanalega umhverfi. Þarna átti fólkið að læra að fara úr sínu daglega umhverfi til að undirbúa það fyrir að skilja við þessa jörð. Það átti líka að minnast þess þegar Guð lét þjóðina búa í laufskálum þegar það var í eyðimörkinni áður en það kom inn í fyrirheitna landið. Þessi hátíð táknaði einnig endurkomuna, þann tíma sem fólk Guðs færi frá þessri jörð til að dvelja með Guði.

Eins og sjá má þá voru þarna mikilvægar lexíur fyrir fólk Guðs. Annað sem á að hafa í huga er að orðið sem notað er yfir þessar hátíðir þýðir í rauninni stefnumót enda hafði Guð mælt sér mót við þjóðina á þessum dögum en Jesú mætti þjóð sinni á páskadag og uppfyllti þá hátíð. Það er í mínum huga alveg öruggt að Guð mun uppfylla hinar hátíðarnar líka.

Svo hvað ef maður ber hátíðir Guðs, saman við jólin?  Hátíð sem í praksís snýst um að borða of mikið af óhollum mat og gefa óþarfa. Vellistingar og óhóf er það sem einkennir þessa hátíð. Ég vona að kristnir fari að snúa sér frá jólunum aftur til þeirra hátíða sem Guð bjó til handa okkur til að leiðbeina okkur og undirbúa okkur undir eilífa lífið með Honum.

Hérna er fyrsta myndbandið af sjö sem fjallar um ýtarlega hátíðirnar.


mbl.is Minnir á boðskap jólanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mofi

Hérna er fjallað um nokkra: http://www.religioustolerance.org/xmas_sel.htm

Mofi, 22.12.2011 kl. 11:31

2 Smámynd: Mofi

Ekki nema dagsetninguna sem er það eina sem ég sagði. Já, ég er sammála þér varðandi ástæðuna þó að sögulega er þetta örugglega flóknara.

Mofi, 22.12.2011 kl. 11:54

3 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Jólin eru ósköp indæl. Þótt þau séu ekki fyrirskipuð í Biblíunni, þá hafa þau um árabil verið hátíð sem virðist opna hjörtu fólks fyrir Guði. Einnig er eitthvað við jólin sem sameinar fjölskyldur. Jólin eins og við höldum þau, eru jú minning um komu frelsarans í þennan heim. Ef við höldum upp á afmæli okkar, þá ættum við að geta haldið jól.

Hátíðir biblíunnar, heyra hins vegar gamla sáttmála. Páskar fá uppfyllingu sína í fórnardauða Krists og nú minnumst við dauða Hans, þegar við brjótum brauðið og drekkum minni Hans.

Hvítasunnan fékk uppfyllingu sína, þegar heilögum anda var úthellt og lærisveinar Jesú fengu nýjan Kraft og töluðu tungum.

Laufskálahátíðin hefur hins vegar ekki ennþá, uppfyllingu í hinum nýja sáttmála, en ég trúi að hún bendi til hins síðara regns eða endurkomu Krists, eins og þú bendir á.

Ég ætla hins vegar að borða hangikjöt annað kvöld, og ekki of mikið, fæ nefnilega desert á eftir. Enn og aftur gleðilega hátíð frelsarans, Krists Jesú.

Kristinn Ásgrímsson, 24.12.2011 kl. 00:23

4 Smámynd: Mofi

Já, við þurfum að nota hátíðirnar eins vel og við getum fyrst að fólk er meira andlega hugsandi á þessum tíma.

Varðandi gamla sáttmála og nýja sáttmála, hvað tilheyrir nýja sáttmálanum? Eins og þessar hátíðir, í Gamla Testamentinu segir Guð að þetta eru Hans heilögu stefnumót við sitt fólk, stendur einhversstaðar að það er búið að taka burt þennan heilagleika sem Guð gaf þeim?

Það er líka hangikjöt hjá mér annað kvöld og sem betur fer er það bara annað skiptið á árinu. Þetta á að vera sérstakt að mínu mati og þá má þetta ekki vera oft á ári.

Gleðileg jól, hitt er bara eitthvað til að hugsa um yfir hátíðirnar.

Mofi, 24.12.2011 kl. 01:04

5 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

1Höfuðinntak þess sem sagt hefur verið er þetta: Við höfum þann æðsta prest er settist til hægri handar við hásæti hátignarinnar á himnum. 2Hann þjónar sem prestur í helgidóminum, hinni sönnu tjaldbúð sem Drottinn reisti en eigi maður.

6En nú hefur Jesús fengið þeim mun ágætari helgiþjónustu sem hann er meðalgangari betri sáttmála sem byggist á traustari fyrirheitum.

13Þar sem hann nú kallar þetta nýjan sáttmála þá hefur hann lýst hinn fyrri úreltan. En það sem er að úreldast og fyrnast er að því komið að verða að engu.

16Enginn skyldi því dæma ykkur fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga. 17Slíkt er aðeins skuggi þess sem koma átti. Veruleikinn er Kristur.

Já, ég trúi því Halldór að helgun sé aðeins í Kristi. Þ.e. ef Hann fær að höndla líf okkar, þá fæðast eiginleikar Andans fram.

Lögmálið hjálpar okkur ekki að helgast, það segir okkur hvað er rangt og hvað synd er, en Kristur er okkur: Réttlæti, Helgun og Endurlausn. 

Prestaþjónusta hins gamla sáttmála endaði, þegar KRISTUR kom.  Reyndar er það sem við köllum "gamla sáttmála" eða lögmálið, ekki byggt á fyrirheiti, heldur var því bætt við vegna syndugs eðlis mannsins, eins og Páll segir í Galatabréfinu.

Sáttmáli okkar í Kristi er uppfylling á þeim sáttmála sem Guð gerði við Abraham, áður en að lögmálið kom. 

Kristinn Ásgrímsson, 24.12.2011 kl. 07:55

6 Smámynd: Mofi

Kristinn - also known as Páll :)
16
Enginn skyldi því dæma ykkur fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga. 17Slíkt er aðeins skuggi þess sem koma átti. Veruleikinn er Kristur.

Taktu eftir því að ástæðan fyrir því að við ættum ekki að láta neinn dæma okkur fyrir að halda hátíðirnar er vegna þess að þær voru táknmyndir fyrir Krist sjálfan. Þú ert sammála að hátíðirnar eru táknmyndir fyrir Krist ekki satt?

Fyrir mig er þetta eins og að segja "ekki láta neinn dæma þig fyrir að kalla þig kristinn þá það vísar í Jesú Krist sem er þinn Drottinn".

Hélt Páll hátíðirnar?  Sagði Páll söfnuðum að halda þessar hátíðir?

Kristinn
Lögmálið hjálpar okkur ekki að helgast, það segir okkur hvað er rangt og hvað synd er, en Kristur er okkur: Réttlæti, Helgun og Endurlausn. 

Telur þú að drýgja hór vanhelgi þann sem drýgir hór?

Kristinn
Prestaþjónusta hins gamla sáttmála endaði, þegar KRISTUR kom.  Reyndar er það sem við köllum "gamla sáttmála" eða lögmálið, ekki byggt á fyrirheiti, heldur var því bætt við vegna syndugs eðlis mannsins, eins og Páll segir í Galatabréfinu. 

Biblían er mjög skýr á því að nýji sáttmálinn innihélt Jesú sem okkar prest sem þjónar í himneskum helgidómi með sitt eigið heilaga blóð. Alveg sammála, dýrafórnir og prestþjónusta manna í jarðneskum helgidómi var ekki lengur í gildi.

En hvar stendur hvaða skyldur menn hafa við Guð varðandi nýja sáttmálann?

Ég veit um eitt vers:

Jeremía 31:31 
Sjá, þeir dagar munu koma - segir Drottinn - að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús, 32  ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra - segir Drottinn.
33  En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta - segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.

Segðu mér, hvaða orð er það sem Jeremía segir að verði í hjörtum þeirra sem fylgja þessum nýja sáttmála og hvað þýðir þetta orð?

Mofi, 24.12.2011 kl. 10:37

7 Smámynd: Mofi

Kristinn
Sáttmáli okkar í Kristi er uppfylling á þeim sáttmála sem Guð gerði við Abraham, áður en að lögmálið kom. 

Biblían segir að Abraham hélt lög Guðs

1. Mósebók 26:5 
af því að Abraham hlýddi minni röddu og varðveitti boðorð mín, skipanir mínar, ákvæði og lög." 

Líka áhugavert að skoða hvaða orð þarna er þýtt lög.

Mofi, 24.12.2011 kl. 10:44

8 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Halldór:

Taktu eftir því að ástæðan fyrir því að við ættum ekki að láta neinn dæma okkur fyrir að halda hátíðirnar er vegna þess að þær voru táknmyndir fyrir Krist sjálfan. Þú ert sammála að hátíðirnar eru táknmyndir fyrir Krist ekki satt?

Jú, ég er sammála að hátíðir, tunglkomur og hvíldardagar voru aðeins skuggi þess sem koma átti. En ástæðan var hins vegar sú að hinir kristnu gyðingar vildu fá hina kristnu heiðingja til að halda lögmálið.

Halldór:

Telur þú að drýgja hór vanhelgi þann sem drýgir hór?

Að sjálfsögðu, en það sem ég var að segja, er að það er Kristur og Hans heilagi andi sem hjálpar okkur að standa gegn syndinni, lögmálið er vanmáttugt á því sviði, það aðeins segir mér hvað synd er. ( Róm 8.3.-4) 

Halldór:

En hvar stendur hvaða skyldur menn hafa við Guð varðandi nýja sáttmálann?

Ég myndi byrja á: Jóh 15.5 Verið í mér, þá verð ég í yður ..Lúk 14.27 Hver sem ber ekki minn kross og fylgir mér getur ekki verið lærisveinn minn.

Nýi sáttmálinn snýst um barnarétt, náð án verka, síðan verk í trú, af því að við erum börn og elskum.  Það er einfaldlega munur á þjóni eða barni.  En nýi sáttmálinn gerir kröfu um að óttast Guð og virða og hlýðni við boð Hans.

Halldór

1. Mósebók 26:5 
af því að Abraham hlýddi minni röddu og varðveitti boðorð mín, skipanir mínar, ákvæði og lög." 

Róm 4:13

13Það var ekki vegna hlýðni við lögmálið að Abraham og niðjar hans fengu fyrirheitið um að erfa heiminn heldur vegna þeirrar trúar sem réttlætir.

 Halldór, ég trúi að það sem Guð gerði fyrir okkur í Kristi, að við getum engu við það bætt. Við réttlætumst aðeins fyrir trú...punktur. Siðan talar ritningin um verk í Kristi og að okkur beri að birtast fyrir dómstóli Krists.

Eitt af því ömurlegasta sem ég upplifi er að mæta kristnum manni fullum af sjálfsréttlætingu af því að hann gerir þetta eða hitt, en finna enga hlýju eða kærleika.  Þess vegna er það mín niðurstaða að sú krafa sem hinn nýi sáttmáli gerir er sú að vera stöðug í "Kærleikanum "  Hins vegar á það ekki að vera á kostnað sannleikans, en að tala sannleikan í kærleika er það sem okkur er boðið að gjöra.

Þakka þér málefnalega umræðu og Guð blessi þig kæri bróðir 

Kristinn Ásgrímsson, 25.12.2011 kl. 17:43

9 Smámynd: Mofi

Kristinn
Jú, ég er sammála að hátíðir, tunglkomur og hvíldardagar voru aðeins skuggi þess sem koma átti.

Og koma skal, ekki satt?

Kristinn
En ástæðan var hins vegar sú að hinir kristnu gyðingar vildu fá hina kristnu heiðingja til að halda lögmálið.

Í gegnum Gamla Testamentið þá var þetta aðal boðskapur Guðs til mannana, haldið lögmálið. Í gegnum alla spámennina þá var þessi beiðni Guðs endurtekin aftur og aftur með loforð um blessanir eða varnaðarorð um bölvun ef að fólk Guðs færi ekki eftir lögmálinu.

Miðað við þetta, þá ætti að vera mjög skýrt í Nýja Testamentinu að búið væri að afnema lögmálið ekki satt?  

Hvað segir Jesú um lögmálið og spámennina, segir Jesú skýrt að nú er búið að afnema það?

Kristinn
Að sjálfsögðu, en það sem ég var að segja, er að það er Kristur og Hans heilagi andi sem hjálpar okkur að standa gegn syndinni, lögmálið er vanmáttugt á því sviði, það aðeins segir mér hvað synd er. ( Róm 8.3.-4) 

Þar sem synd er lögmálsbrot þá hlýtur það að vera þannig að Heilagur Andi vinnur með okkur til að halda lögmálið þar sem brot á því er það sem vanhelgar og býr til gjá milli okkar og Guðs.

Kristinn
Ég myndi byrja á: Jóh 15.5 Verið í mér, þá verð ég í yður ..Lúk 14.27 Hver sem ber ekki minn kross og fylgir mér getur ekki verið lærisveinn minn.

Hvernig skilur þú Matteus 23?

Kristinn
Nýi sáttmálinn snýst um barnarétt, náð án verka, síðan verk í trú, af því að við erum börn og elskum.  Það er einfaldlega munur á þjóni eða barni.  En nýi sáttmálinn gerir kröfu um að óttast Guð og virða og hlýðni við boð Hans.

Þetta var sannarlega aðal boðskapur Páls, að útskýra að sekir menn geta ekki réttlæt sjálfan sig með því að halda lögmálið ekki frekar en morðingi getur orðið saklaus með því að halda umferðareglurnar.

En Páll segir skýrt

Rómverjabréfið 2:13
Og ekki eru heyrendur lögmálsins réttlátir fyrir Guði, heldur munu gjörendur lögmálsins réttlættir verða.

Eina sem við höfum um nýja sáttmálann er að í honum treystum við á betri loforð, höfum ekki mennska presta í jarðneskum helgidómi heldur er Kristur okkar æðsti prestur.  En varðandi okkar skyldur við Guð þá höfum við ekkert um neinar breytingar þar á. Eins og versið sem ég benti á í Jeremía sem talar um að í nýja sáttmálanum er Móse lögmálið, lögmál Guðs skrifað á hjörtu þeirra sem tilheyra nýja sáttmálanum.

Kristinn
Halldór, ég trúi að það sem Guð gerði fyrir okkur í Kristi, að við getum engu við það bætt. Við réttlætumst aðeins fyrir trú...punktur. Siðan talar ritningin um verk í Kristi og að okkur beri að birtast fyrir dómstóli Krists.

Sammála að það er engu við það bætt en ef einhver tekur á móti Kristi þá vill Guð að Hann gangi á Guðs vegum og hver Guðs vilji er opinberaður í orði Hans. Hans orð er Mósebækurnar og spámennirnir, finnst þér vera mikið eftir af Biblíunni þinni ef þú hendir þessu tvennu út sem úrelt og á ekki við okkur?

Kristinn
Eitt af því ömurlegasta sem ég upplifi er að mæta kristnum manni fullum af sjálfsréttlætingu af því að hann gerir þetta eða hitt, en finna enga hlýju eða kærleika

Sammála en taktu eftir hvað Jesú segir um lögmálið og kærleikann

Matteus 24:12
Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.

Endilega haltu áfram að rannsaka þetta og ekki hlaupa frá þeim versum sem ég benti á heldur glímdu við þau eins vel og þú getur.

Þakka sömuleiðis og megi Guð blessa þig en ekki gleyma, í gegnum allt Gamla Testamentið þá var hlýðni við orð Guðs skilyrði fyrir því að fá Guðs blessun og nærveru.

Mofi, 26.12.2011 kl. 11:43

10 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Sæll Halldór minn, var að lesa svarið þitt fyrst í dag. Er dálítið hissa á þínum skilningi. Fyrir mig, þá hefur Nýja testamentið meira vægi heldur en Gamla testamentið. Þú segir: " Hans orð er Mósebækurnar og spámennirnir,"  Þú spyrð: "finnst þér vera mikið eftir af Biblíunni þinni ef þú hendir þessu tvennu út sem úrelt og á ekki við okkur?"

Já fyrir mig væri allt sem ég þarf eftir: Hebr. 1. 1Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna. 2En nú í lok þessara daga hefur hann til okkar talað í syni sínum sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gert. 3Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði okkur af syndum okkar og settist til hægri handar hátigninni á hæðum.
Hebr.712Þegar prestdómurinn breytist verður og breyting á lögmálinu.

19Lögmálið gerði ekkert fullkomið. En nú höfum við öðlast betri von sem leiðir okkur nær Guði.

7Hefði hinn fyrri sáttmáli verið óaðfinnanlegur hefði ekki verið þörf fyrir annan.

13Þar sem hann nú kallar þetta nýjan sáttmála þá hefur hann lýst hinn fyrri úreltan. En það sem er að úreldast og fyrnast er að því komið að verða að engu.
Róm 10.4.
4En Kristur er endalok lögmálsins, svo að nú réttlætist sérhver sá, sem trúir.                     Róm 9.4Ísraelsmenn. Þeir eiga frumburðarréttinn, dýrðina, sáttmálana,[1]  löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin.

Annar lesháttur: sáttmálann.

Kristinn Ásgrímsson, 29.12.2011 kl. 20:41

11 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Róm 3.21En nú hefur réttlæti Guðs, sem lögmálið og spámennirnir vitna um, verið opinberað án lögmáls.

Þú vitnaðir í Róm2.13, en það þarf að lesa þessi vers í samhengi:

12Allir þeir, sem syndgað hafa án lögmáls, munu og án lögmáls tortímast, og allir þeir, sem syndgað hafa undir lögmáli, munu dæmast af lögmáli.
13Og ekki eru heyrendur lögmálsins réttlátir fyrir Guði, heldur munu gjörendur lögmálsins réttlættir verða.
14Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál.
15Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra, sem ýmist ásaka þá eða afsaka.

Róm 7.En nú erum vér leystir undan lögmálinu, þar sem vér erum dánir því, sem áður hélt oss bundnum, og þjónum í nýjung anda, en ekki í fyrnsku bókstafs.

Róm 8.1Nú er því engin fordæming fyrir þá, sem tilheyra Kristi Jesú.
2Lögmál lífsins anda hefur í Kristi Jesú frelsað þig frá lögmáli syndarinnar og dauðans.
Halldór, það verður einfaldlega breyting , þegar maður endurfæðist og fær "barnarétt"
Þjónn hefur ekki sama rétt og barn. Jesú gaf okkur sem dóum með honum, rétt til að lifa "nýju lífi" leyst frá lögmáli syndar og dauða og um þetta fjallar fyrri hluti Rómverjabréfsin. Að lokum smá frásögn, sem skýrir þetta vel.

During the French Revolution the king and queen were behaded, leaving the crown prince orphaned. There was talk about beheading him too, until sombody said, " If you kill him you´ll just send his soul to heaven. Instead, turn him over to Old Meg and she´ll teach him vile, filthy words so his soul will be damned forever. However, when they truned the prince over to this woman of the streets who tried to get him to repeat all kinds of profanity, he refused, saying, "I was born a king and I will not say it."

1.Jóh.39Hver sem af Guði er fæddur syndgar ekki því að það sem Guð hefur í hann sáð varir í honum. Hann getur ekki syndgað af því að hann er fæddur af Guði.

Kristinn Ásgrímsson, 29.12.2011 kl. 21:03

12 Smámynd: Mofi

Kristinn
Sæll Halldór minn, var að lesa svarið þitt fyrst í dag. Er dálítið hissa á þínum skilningi. Fyrir mig, þá hefur Nýja testamentið meira vægi heldur en Gamla testamentið.

Ég skil það vel en hugsaðu aðeins út í þetta. Þegar þú sérð í Nýja Testamentinu "ritað er" eða "orð Guðs" þá er alltaf verið að tala um Gamla Testamentið. 

Annað til að hafa í huga, þegar fyrsti sáttmálinn var gerður þá lofaði fólkið að halda lög Guðs og Móse fórnaði dýri til að innsygla sáttmálann.

Hið sama gerðist síðan þegar Jesú dó, Hans blóð innsyglaði sáttmálann. En pældu í hvað það þýðir, það þýðir að eftir krossinn þá er ekki hægt að breyta nýja sáttmálanum. Ef að lærisveinarnir skrifa eitthvað sem fer á móti því sem búið var að opinbera þá telst það ekki gilt því að sáttmálinn var innsyglaður á Golgata.

Ekki að ég held að lærisveinarnir hafi ætlað að fara að breyta einhverju, alls ekki. Þeir þekktu Jesaja sem segir að ef einhver er frá Guði þá talar hann í samræmi við það sem Guð hefur þegar opinberað.

Kristinn
Já fyrir mig væri allt sem ég þarf eftir: Hebr. 1.

Þá er mjög lítið eftir af Biblíunni. Þegar Jesú síðan segir við fólkið að fjölskylda Hans eru þeir og þær sem hlusta á orð Guðs og fara eftir því. Þegar Jesú segir þetta þá er Hann að tala um Gamla Testamentið því að hið Nýja var ekki til og allir sem hlustuðu skildu að Jesú var að tala um þær bækur sem Gamla Testamentið samanstendur af.

Kristinn
19
Lögmálið gerði ekkert fullkomið. En nú höfum við öðlast betri von sem leiðir okkur nær Guði.

Kom Jesú til að afnema lögmálið?  Þú mátt ekki láta þessi vers þýða eitthvað annað en höfundurinn var að meina. Þótt við höfum betri leið þá þýðir það ekki að hin gamla var röng heldur að í krafti trúarinnar er hægt að gera vilja Guðs og vilja Guðs er að finna í lögmálinu.

Kristinn
7
Hefði hinn fyrri sáttmáli verið óaðfinnanlegur hefði ekki verið þörf fyrir annan.

Var lögmál Guðs það sem var gallað eða var það eitthvað annað sem var að gamla sáttmálanum?

Kristinn
4En Kristur er endalok lögmálsins, svo að nú réttlætist sérhver sá, sem trúir.

Ætlar þú að reyna að láta þetta þýða að Kristur er endalok lögmálsins í þeim skilningi að þeir sem eru í Kristi ljúga, stela og myrða?

Taktu síðan eftir hvað þú gerir núna, aftur. Þú glímir ekki við það sem ég sagði. Glímir ekki við rökin og glímir ekki við versin. Af hverju?

Mofi, 29.12.2011 kl. 21:10

13 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Þú sérð að framansögðu, Halldór að heiðingjarnir fengu aldrei lögmál, um það snérist postulafundurinn í Jerúsalem, Gyðingarnir samkvæmt Róm 9 fengu sáttmálana og lögmálið. Heiðingjarnir ég og þú okkur var boðað fagnaðarerindi Jesú Krist, að við gætum réttlætts af trú.  Réttlæti Guðs án lögmáls fyrir trú. Að vísu vorum við græddir við stofninn, samkvæmt Róm 11 og urðum einn maður í Kristi ásamt Gyðingunum.

Síðan höfum við þetta boðorð í Kól 2.6. 6Þér hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum.

Þakka svo gamla árið, sjáumst vonandi á því næsta, það verður sameiginleg samkoma, sem þín kirkja tekur þátt í hinn 22. janúar í Hvítasunnukirkjunni í Keflavík kl. 20.  Þú ert velkominn.

Kristinn Ásgrímsson, 29.12.2011 kl. 21:16

14 Smámynd: Mofi

Kristinn
Róm 7.En nú erum vér leystir undan lögmálinu, þar sem vér erum dánir því, sem áður hélt oss bundnum, og þjónum í nýjung anda, en ekki í fyrnsku bókstafs.

Kenndi Páll að það væri í lagi að ljúga, stela og myrða?

Er kannski ekki möguleiki að Páll var að meina eitthvað annað þarna?
Sérstaklega þegar þú hefur í huga að Páll sagði skýrt að lögmálið væri til að útskýra hvað synd væri og að nú þegar við erum undir náð þá alls ekki myndum við dirfast að syndga.

Rom 6:1  Hvað eigum vér þá að segja? Eigum vér að halda áfram í syndinni til þess að náðin aukist?
Rom 6:2  Fjarri fer því. Vér sem dóum syndinni, hvernig ættum vér framar að lifa í henni? 

Þar sem lögmálið segir okkur hvað synd er þá augljóslega getur Páll ekki verið að segja að það sé í lagi að brjóta lögmálið er það nokkuð?

Kristinn
Halldór, það verður einfaldlega breyting , þegar maður endurfæðist og fær "barnarétt"
Þjónn hefur ekki sama rétt og barn. Jesú gaf okkur sem dóum með honum, rétt til að lifa "nýju lífi" leyst frá lögmáli syndar og dauða og um þetta fjallar fyrri hluti Rómverjabréfsin. Að lokum smá frásögn, sem skýrir þetta vel.

Leyst til þess að brjóta gegn orði Guðs? Var það það sem Jesú áorkaði á krossinum, að gefa okkur leyfi til saurlifnaðar og losa okkur undan orði Guðs því það var að gera líf okkar svo ömurlegt?

Eða þýða þessi vers að laun syndarinnar er dauði og það er lögmálið sem við vorum leyst undan. Að þrátt fyrir að hafa brotið lögmál Guðs sem heimtar okkar dauða að þá fáum við samt að lifa vegna þess að Kristur dó fyrir okkur. Okkar viðbrögð við þessari gjöf eru þá að lifa í samræmi við vilja Guðs sem opinberast í Hans lögmáli því eins og Hebreabréfið 10 segir:

Hebreabréfið 10:26
Því að ef vér syndgum af ásettu ráði, eftir að vér höfum öðlast þekkingu sannleikans, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar, 27  heldur er það óttaleg bið eftir dómi og grimmilegur eldur, sem eyða mun andstæðingum Guðs.
28  Sá, er að engu hefur lögmál Móse, verður vægðarlaust líflátinn, ef tveir eða þrír vottar bera.
29  Hve miklu þyngri hegning ætlið þér þá ekki að sá muni vera talinn verðskulda, er fótum treður son Guðs og vanhelgar blóð sáttmálans, er hann var helgaður í, og smánar anda náðarinnar?

Ekki gleyma þegar þú lest þessi vers að synd er lögmálsbrot. Synd er ekki eitthvað handahófskennt orð yfir að gera það sem okkur finnst persónulega ekki sniðugt heldur er þetta orð yfir það að brjóta lögmál Guðs.

Kristinn
1.Jóh.39Hver sem af Guði er fæddur syndgar ekki því að það sem Guð hefur í hann sáð varir í honum. Hann getur ekki syndgað af því að hann er fæddur af Guði.

Og þar sem synd er lögmálsbrot þá ætti það að vera þeim sem vilja endurfæðast að keppast að því að læra lögmálið og fara eftir því svo þeir syngdi ekki.

1 Jn 3:4  Hver sem synd drýgir fremur og lögmálsbrot. Syndin er lögmálsbrot.

Mofi, 29.12.2011 kl. 21:20

15 Smámynd: Mofi

Kristinn
Þakka svo gamla árið, sjáumst vonandi á því næsta, það verður sameiginleg samkoma, sem þín kirkja tekur þátt í hinn 22. janúar í Hvítasunnukirkjunni í Keflavík kl. 20.  Þú ert velkomin
Takk fyrir það Kristinn og sömuleiðis :)

Mofi, 29.12.2011 kl. 21:21

16 Smámynd: Mofi

Verð að segja eitt í viðbót. Í gegnum alla Biblíuna þá er sífellt verið að vara við synd. Páll segir að án lögmáls er syndin dauð. Sem sagt, ef lögmálið er farið, er ekki synd. En augljóslega er ennþá synd og hvort sem við lesum í Gamla eða Nýja Testamentinu þá varar Guð okkur við syndinni og að afleiðing hennar er dauði.  Þannig að ég get ekki neitað því að þegar ég horfi á kristna kenna að kristnir þurfa ekki að halda lögmálið þá sé ég fólk sem er að leiða annað fólk til eilífrar glötunnar.

Ég vona bara að þú skoðir þetta af eins mikilli alvöru og þú getur því það er ekki bara þín sál sem er í húfi vegna þeirrar stöðu sem þú ert í.

Mofi, 29.12.2011 kl. 21:26

17 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Sæll aftur Halldór.

Verð að segja að viðbrögð þín valda mér hryggð.

Kristinn maður er ekki að leita að tækifæri til að syndga. Hann er Guðs barn. Páll segir skýrt, Hvað þá, eigum við að syndga af því að við erum undir náð, fjarri fer því.

Ég get bara talað fyrir mig, þegar ég frelsaðist, þá breyttist líf mitt. Blótsyrðin fóru ósjálfrátt, ég las ekki að það væri synd, ég var leystur frá reykingum, sem ég hafði svo oft reynt áður. Mig klígjaði við þeim lífsmáta sem ég hafði lifað. Það gerðist eitthvað innra með mér. Guðs andi tók sér bústað.

Síðan þá hef ég bæði reynt að fylgja þeirri leiðsögn, sem heilagur andi gefur mér á hverjum degi. Ég trúi því að þegar Jesús kemur inn í líf okkar þá verður samviska okkar upplýst af heilögum anda. Náð Guðs kennir okkur að hafna öllum óguðleik (Títus) Auðvitað kennir lögmálið okkur hvað er synd.  En ef þú lest Matteus kafla 5.17 og síðan kafla 6, þá getur þú séð Jesú bera saman þær kröfur sem lögmálið gerir og síðan krafa náðarinnar. Undir lögmáli þurftir þú að vera staðinn að verki fyrir hórdómsbrot, en Jesús sagði að girndin væri synd.

Ég kenni ekki að syndin sé eitthvað léttvægt, hins vegar trúi ég því að hvíld okkar sé í Kristi, en ekki í ákveðnum  degi og ef þú telur það hættulegt fyrir aðra, þá verður svo að vera.

Þú hefur hvatt mig til að lesa ritningastaði, sem ég hef lesið árum saman. Nú hvet ég þig til að lesa Rómverjabréfið.

Syndin er vissulega lögmálsbrot, en þegar þú ekki fyrirgefur, er það lögmálsbrot ?

Þegar þú heldur allt lögmálið, en elskar ekki náungann ?

Kristinn Ásgrímsson, 30.12.2011 kl. 00:13

18 Smámynd: Mofi

Kristinn
Ég get bara talað fyrir mig, þegar ég frelsaðist, þá breyttist líf mitt. Blótsyrðin fóru ósjálfrátt, ég las ekki að það væri synd, ég var leystur frá reykingum, sem ég hafði svo oft reynt áður. Mig klígjaði við þeim lífsmáta sem ég hafði lifað. Það gerðist eitthvað innra með mér. Guðs andi tók sér bústað.

Ef að andi Guðs tók sér bústað þá átt þú að hafa jákvæða afstöðu gagnvart lögmálinu

Rómverjabréfið 8:7 
Hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði, með því að hún lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki. 

Þú talar um hvernig lífið breyttist og telur upp góða hluti, hluti sem einmitt lögmálið segir að séu slæmir og við eigum ekki að gera. Svo af hverju að boða að lögmálið hefur verið afnumið og við þurfum ekkert að fara eftir því?

Kristinn
Síðan þá hef ég bæði reynt að fylgja þeirri leiðsögn, sem heilagur andi gefur mér á hverjum degi

Án leiðsagnar Guðs ( sem er auðvitað orð Guðs, lögmálið og spámennirnir ) þá getur þú verið að bara fara eftir þínum eigin vilja.

Kristinn
Ég trúi því að þegar Jesús kemur inn í líf okkar þá verður samviska okkar upplýst af heilögum anda.

Og engin þörf á orði Guðs til að leiðbeina okkur?  Sagði ekki Páll að ef hann hefði ekki lögmálið þá hefði hann ekki vitað hvað synd var?  

Hvar stendur að lögmál Guðs er eitthvað sem fólk þarf ekki að fara eftir?  Endilega hafðu Matteus 23 í huga þegar þú veltir þessu fyrir þér.

Kristinn
Ég kenni ekki að syndin sé eitthvað léttvægt, hins vegar trúi ég því að hvíld okkar sé í Kristi, en ekki í ákveðnum  degi og ef þú telur það hættulegt fyrir aðra, þá verður svo að vera.

Málið er að lögmálið segir að einn dagur í vikunni er heilagur og að brjóta helgi hans sé synd. Um leið og þú auðvitað gerir að engu lögmálið og þú sjálfur ákveður hvað er rétt og hvað er rangt þá í mínum augum hefur þú gert sjálfan þig að Guði, þá ert þú orðinn að löggjafanum í staðinn fyrir Guð.

Kristinn
Þú hefur hvatt mig til að lesa ritningastaði, sem ég hef lesið árum saman. Nú hvet ég þig til að lesa Rómverjabréfið.

Ég hef marg oft lesið það en þú hefur ekki svarað og útskýrt versin sem ég hef bent á.

Málið með Pál og Rómverjabréfið er að hann er að glíma við fólk sem vildi réttlætast með því að halda lögmálið og Páll er að útskýra af hverju það mun aldrei virka.  Páll er ekki að útskýra að við þurfum ekki að halda lögmálið enda segir hann marg oft að við staðfestum lögmálið, við hættum að syndga og að lögmálið er andlegt, heilagt og gott.

Kristinn
Syndin er vissulega lögmálsbrot, en þegar þú ekki fyrirgefur, er það lögmálsbrot ?

Þegar við horfum á krossinn þá sjáum við Guð borga gjaldið fyrir lögmálsbrotin. Þegar Guð fyrirgefur okkur þá er Hann ekki að brjóta lögmálið því að lögmálið segir að gjaldið fyrir syndina er að sú sál sem syndgar skal deyja og Jesú dó og borgaði þetta gjald. Þannig getur Guð fyrirgefið án þess að brjóta lögmálið en aðeins vegna þess að Jesú dó á krossinum.  Guð hefði getað afnumið lögmálið og þá hefði Jesú aldrei þurft að deyja.

Kristinn
Þegar þú heldur allt lögmálið, en elskar ekki náungann ?

Málið er að lögmálið segir okkur að elska náungann og Guð, það er einmitt málið, það er samræmi milli kærleiks og lögmálsins enda sagði Jesú "Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín" - Jóhannesar guðspjall 14:15

Mofi, 30.12.2011 kl. 00:29

19 Smámynd: Mofi

Kristinn, þér gæti þótt þetta vera forvitnilegar hugleiðingar: Nýja Testamentið tilheyrir ekki nýja sáttmálanum

Mofi, 3.1.2012 kl. 17:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Mofa blogg

Höfundur

Mofi
Mofi

Ég er sjöundadags aðventisti en tala samt ekki fyrir hönd safnaðarins. Hugbúnaðarfræðingur að mennt og aðhyllist Biblíulega sköpun. 

Íslendingur, hugbúnaðarfræðingur að mennt, búsettur í Englandi sem hefur áhuga á flest öllu. 

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • trinity witch craft
  • Bodunarkirkjan
  • Trinity_Symbol
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 802800

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband