Mín trú

quotes-leap.jpgMig hefur lengi langað að gera smá samantekt yfir mína trú svo fólk fái stutta heildarmynd af hver hún er.

  1. Guð er til.
    Mér finnst rökréttara að okkar heimur þarf orsök sem er fyrir utan hann. Sömuleiðis finnst mér rökrétt að Guð hannaði alheiminn og bjó til fínstillt lögmál sem stjórna honum frekar en að eitthvað eða ekkert orsakaði allan alheiminn eða að það eru til margir alheimar með tilviljanakennd lögmál og einn af þeim vildi svo til að hafa lögmál sem leyfðu tilvist okkar. Enn fremur finnst mér rökréttara að lífið þurfti hönnuð, að upplýsingakerfi og flóknar vélar voru orsökuð af vitrænum hönnuði en að þau bara mynduðust fyrir tilviljun.
  2. Biblían er innblásið orð Guðs.
    Ólíkt öðrum trúarbrögðum þá byggist hin kristna trú á raunverulegum atburðum og mörgum vitnum sem segjast hafa fengið orð Guðs og verið leiðbeint af Guði. Að sumu leiti má segja að það er hægt að afsanna kristni því að ef að fullyrðingar Biblíunnar standast ekki þá getur hún ekki verið sönn.

    Þannig að ég hef eftirtaldar ástæður fyrir því af hverju ég trúi að Biblían komi frá Guði
    * Vitnisburðurinn er sannfærandi, það sem ég hef lesið er fyrir mitt leiti mjög sannfærandi
    * Sagnfræðilega hefur Biblían reynst rétt, þar sem hefur verið hægt að prófa hana á einhvern almennilegan hátt.
    * Biblían inniheldur skýra og sögulega spádóma sem hafa ræst.
    * Biblían inniheldur þekkingu sem var á undan sinni samtíð eins og reglur um heilsu.
    * Persónan Jesú sem kemur fram í guðspjöllunum fyrir mig er einlæg og segir sannleikann og ég bara get ekki komist að þeirri niðurstöðu að þarna var á ferðinni lygari eða geðsjúklingur.
  3. Samvisku frelsi
    Það er fátt sem skiptir mig meira máli en samviskufrelsið. Þessi mikilvægu réttindi komu frá fyrstu mótmælendunum sem vildu fá að tilbiðja Guð samkvæmt sinni samvisku. Þetta þýðir að allir verða að fá að tilbiðja Guð eða ekki tilbiðja Guð, allt eftir því sem þeirra samviska býður þeim. Þegar t.d. kom að giftingu samkynhneigðra þá leit ég á það sem alveg eins mitt réttindamál að þeir fengju það.
  4. Kjarna boðskapur Biblíunnar
    Það sem ég tel vera aðal boðskap Biblíunnar er skylda okkar til að elska Guð fyrst og elska náungan eins og okkar sjálf. Vægast sagt hægara sagt en gert.  Stór hluti af Biblíunni fer síðan yfir hvernig við eigum að gera þetta því að kærleikur okkar mannanna getur verið mjög brenglaður. Okkar sjálfs elska og græðgi getur látið okkur réttlæta alls konar illsku. Þess vegna þarf kristinn einstaklingur að gera sitt besta í að fylgja því sem Biblían segir, þótt hann skilji kannski ekki alltaf af hverju Guð bað okkur um það.
  5. Von
    Andspænis sjúkdómum og að lokum dauða þá býður Biblían okkur upp á von. Að þótt að hlutirnir líta illa út fyrir okkur í þessum heimi þá býður Guð öllum eilíft líf. Til þess að öðlast það þá þarftu að iðrast, leita Guðs og Hans vilja og síðan ganga á Hans vegum.
    Það er alltaf jafn undarlegt að verða vitni að því þegar fólk reynir að hakka niður þennan boðskap og gera það sigrihrósandi. Eins og að lífið væri miklu betra ef að þessi boðskapur er lygi.
  6. Aðvent kirkjan
    Af öllum þeim kirkjum sem eru í heiminum þá trúi ég að hún sé sú kirkja sem er næst boðskapi Biblíunnar. Hef nokkrar ástæður fyrir þessari sannfæringu. Aðvent kirkjan predikar að við eigum að halda boðorð Guðs eða boðorðin tíu; þar á meðal hvíldardaginn eða sjöunda daginn. Aðvent kirkjan kennar að helvíti sé ekki til, þ.e.a.s. staður þar sem syndarar verða kvaldir að eilífu. Gjöf Guðs er eilíft líf, þeir sem fá ekki þessa gjöf þeir deyja. Síðan sagði Ellen White að Aðvent kirkjan væri kirkja Guðs fyrir síðustu tíma og ég trúi að hún hafi verið spámaður frá Guði. Ef einhver er í vafa um það þá mæli ég með því að viðkomandi lesi Þrá aldanna, sjá: Desire of Ages
  7. Sköpun en ekki þróun
    Þegar ég horfi á náttúruna, með öllum sínum undrum þá er eina rökrétta svarið að það var hönnuður á bakvið þetta. Fyrir mig sem forritara þá er það hin mesta fyrra að það sem liggur til grundvallar lífinu, forritunarmál ( DNA ) og flókið upplýsingakerfi til að vinna úr þeim upplýsingum hafi orðið til án vitræns hönnuðar. Hugmyndin að efni geti gefið sjálfu sér meiningu, að skilaboð geta orðið til án vitsmuna er ein sú órökréttasta trú sem ég veit um.
    Engin spurning aftur á móti að dýrategundir breytast eitthvað með tímanum og umhverfið spilar þar stór hlutverk eins og finkurnar hans Darwin sýndu fram á. En að bakteríur geti orðið að mennskum börnum með aðeins tíma og tilviljunum og náttúruvali er ekki trúlegt.
  8. Aldur jarðar
    Ég veit ekki hve gömul þessi jörð er eða hve gamall alheimurinn er. Ég trúi að sköpun lífs og sköpun manna gerðist fyrir innan við sirka tíu þúsund árum síðan og eftir það var flóð sem myndaði setlög jarðarinnar með megnið af þeim steingervingum sem við finnum í dag.
  9. Vísindi
    Ég er á því að vísindi snúast um að öðlast þekkingu á heiminum í kringum okkar með rannsóknum, samkvæmt hinni vísindalegu aðferð. Þessi þekking aftur á móti er takmörkunum háð, sértaklega þegar kemur að spurningum sem varða fortíðina. Við getum ekki endurtekið upphaf alheimsins eða upphaf lífs. Þar tökum við trúarstökk en best að taka þannig stökk sem eru rökrétt miðað við þá þekkingu sem við höfum. Sem sagt, góð trú er byggð á góðum vísindum, rökrétt áframhald miðað við þá þekkingu sem við höfum. Þannig að sá sem trúir að líf hafi kviknað fyrir tilviljun gerir slíkt í jafn mikilli trú og ég sem trúi að Guð hafi skapað lífið. Eini munurinn er að mín trú er í samræmi við okkar þekkingu á orsök og afleiðingu, það þarf vitsmuni til að orsaka upplýsingakerfi, flóknar vélar og forritunarmál.

Læt þetta duga í bili, líklegast miklu meira sem hægt er að tína til en ég held að þetta gefi ágæta heildarmynd.  Ég þakka lesturinn...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Mofi.

Myndin við pistilinn þinn er einkar viðeigandi. Þú stekkur óhræddur fram af hengifluginu.

Ég leyfi mér að gera eftirfarandi athugasemdir;

Ólíkt öðrum trúarbrögðum þá byggist hin kristna trú á raunverulegum atburðum og mörgum vitnum sem segjast hafa fengið orð Guðs og verið leiðbeint af Guði.

þetta er ekki það sem gerir kristni ólíka öðrum trúarbrögðum, heldur miklu frekar er þetta það sem kristni á sameiginlegt með öðrum trúarbrögðum. Sum þeirra eru þar að auki talvert betur tilfærð hvað varðar vitni og sögulega staðfestingar en kristni.

Sagnfræðilega hefur Biblían reynst rétt, þar sem hefur verið hægt að prófa hana á einhvern almennilegan hátt.

Fjöldi atriða í Biblíunni, sérstaklega GT eru vægast sagt umdeild sagnfræðilega eins og t.d. um  að ekki sé minnst á sagnfræðilega ómöguleika eins og að konan hafi verið sköpuð af rifi Adams. Þá segir NT frá sögulegum atburðum sem hreinlega stangast á, sem dæmi dauðdagi Júdasar.

Biblían inniheldur skýra og sögulega spádóma sem hafa ræst.

Þetta á Biblían sameiginlegt með mörgum öðrum trúarritum fortíðarinnar og er ekki eitt af sérkennum hennar.

Ég trúi að sköpun lífs og sköpun manna gerðist fyrir innan við sirka tíu þúsund árum síðan og eftir það var flóð sem myndaði setlög jarðarinnar með megnið af þeim steingervingum sem við finnum í dag.

Sama tegund aldursgreininga og notaðar eru til að greina aldur hluta sem reynast innan við 10.000 ára eru notuð til að greina hluti sem reynast miklu eldri. Að þessu leiti finnst mér þú víkja frá góðri trú sem er "byggð á góðum vísindum, rökrétt áframhald miðað við þá þekkingu sem við höfum."

Þú segir að það sé fátt sem skiptir mig meira máli en samviskufrelsið. Þar áréttar þú þá skyldu hvers manns að leita sannleikans sjálfstætt og án hindrana sem gamalar trúrkenningar og úrelt þekking getur verið. Sú leit kann vel að enda með því að hann "finnur Guð" því Guð býr í sannleikanum og það hefur engin einkarétt á honum.

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.9.2010 kl. 15:53

2 Smámynd: Mofi

Svanur
Myndin við pistilinn þinn er einkar viðeigandi. Þú stekkur óhræddur fram af hengifluginu.

Hehe :)   Já, kannski. Ég aftur á móti er á því að allir geri hið sama. Allt of margir gera þetta aftur á móti af frekar illa grunduðu máli. Heyra eitthvað eins og Richard Dawkins segir og Stephen Hawking segir og volla, þeir eru stokknir með enga von um eitthvað net til að grípa þá.

Svanur
þetta er ekki það sem gerir kristni ólíka öðrum trúarbrögðum, heldur miklu frekar er þetta það sem kristni á sameiginlegt með öðrum trúarbrögðum. Sum þeirra eru þar að auki talvert betur tilfærð hvað varðar vitni og sögulega staðfestingar en kristni

Hvaða önnur trúarbrögð hefur þú í huga?  Islam byggist á Biblíunni fyrir utan það sem Múhammeð sagði hafa gerst fyrir hann sjálfan.  Hvaða trúarbragð telur þú betur tilfærð hvað varðar vitni og sögulega staðfestingar?

Svanur
Fjöldi atriða í Biblíunni, sérstaklega GT eru vægast sagt umdeild sagnfræðilega eins og t.d. um  að ekki sé minnst á sagnfræðilega ómöguleika eins og að konan hafi verið sköpuð af rifi Adams. Þá segir NT frá sögulegum atburðum sem hreinlega stangast á, sem dæmi dauðdagi Júdasar.

Ekki ómögulega en óendurtakanlega; eitthvað sem maður getur aðeins tekið í trú. Ekki tæknilega ómögulegt. Ég tel síðan alveg hægt að samræma þessar tvær útgáfur af dauða Júdasar en í versta falli þá er eitt af guðspjöllunum með villu í sér, þá eru samt þrjú eftir. Ekki vissi ég að þú hefðir eitthvað á móti NT?

Svanur
Þetta á Biblían sameiginlegt með mörgum öðrum trúarritum fortíðarinnar og er ekki eitt af sérkennum hennar.

Ég veit ekki um önnur, ertu með dæmi?

Svanur
Sama tegund aldursgreininga og notaðar eru til að greina aldur hluta sem reynast innan við 10.000 ára eru notuð til að greina hluti sem reynast miklu eldri. Að þessu leiti finnst mér þú víkja frá góðri trú sem er "byggð á góðum vísindum, rökrétt áframhald miðað við þá þekkingu sem við höfum.

Þessar aðferðir byggjast á mörgum ályktunum að fyrir mitt leiti eru það léleg vísindi að taka þessar aðferðir alvarlega.

Mofi, 15.9.2010 kl. 16:05

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Mofi reit.

Hvaða önnur trúarbrögð hefur þú í huga?

Þú nefnir Íslam sem er rétt. Sagnfræðilega eru heimildir um Múhameð talsvert áreiðanlegri en um Krist. Þá eru heimildir um líf og starf Gautama Búdda ekkert síður áreiðanlegri en um sögupersónur GT. Þá má einnig nefna Zoroaster eða Zaraþústra-trú.

Ég tel síðan alveg hægt að samræma þessar tvær útgáfur af dauða Júdasar en í versta falli þá er eitt af guðspjöllunum með villu í sér, þá eru samt þrjú eftir.

Það er nú mikill munur á því að hengja sig og hrasa svo iðrin liggi úti Mofi :)

En fyrst þú gefur því möguleika að eitt af guðspjöllunum sé með villu í sér, þá er ekki ómögulegt að það sama eigi við önnur rit Biblíunnar og þess vegna séu þau ekki endilega áreiðanlegar sagnfræðiheimildir.

 Ekki vissi ég að þú hefðir eitthvað á móti NT?

Þarna misskilur þú mig algjörlega. Ég er ekki á móti neinu trúarriti. Ég tel hinsvegar að þau tali inn í tíma sem eru löngu liðnir og eigi því illa við nútímalegar aðstæður. Til dæmis er tungumálið sjálft og líkingamálið sem í þeim er að finna í fullu samræmi við heimsmynd fólks áður en vísindi urðu til. Dæmisagan af sköpun mannsins er ekki í  neinu samræmi við vísindalega þekkingu okkar í dag. Fyrir 4000 árum skipti það ekki máli.

Önnur trúarrit sem innihalda spádóma; Zendavesta, Bagdavagita, Kóraninn og hin kínverska Chen  svo dæmi séu nefnd.

Þessar aðferðir byggjast á mörgum ályktunum að fyrir mitt leiti eru það léleg vísindi að taka þessar aðferðir alvarlega.

Hvaða aldurgreiningaraðferðir tekur þú alvarlega?

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.9.2010 kl. 16:50

4 Smámynd: Mofi

Svanur
Þú nefnir Íslam sem er rétt. Sagnfræðilega eru heimildir um Múhameð talsvert áreiðanlegri en um Krist. Þá eru heimildir um líf og starf Gautama Búdda ekkert síður áreiðanlegri en um sögupersónur GT. Þá má einnig nefna Zoroaster eða Zaraþústra-trú

Hvernig metur þú það?  Hvernig færðu út að heimildir um starf Búdda eru jafn áreiðanlegar og NT?  Síðan þá er sú trú sem Búdda predikaði, hún byggist ekki á einhverjum atburðum, hún er bara hugmyndafræði.
Hvaða heimildir eru fyrir Zoroaster og af hverju telur þú þær vera áreiðanlegar?  Hafa í huga samhengið, þ.e.a.s. hvort að atburðirnir lyggja til grunnar trúarinnar; ekki hvort að viðkomandi hafi verið á lífi og að hann hafi predikað eitthvað.

Svanur
Það er nú mikill munur á því að hengja sig og hrasa svo iðrin liggi úti Mofi :)

Þú getur hengt þig og síðan getur bandið slitnað og eftir fallhæðinni þá getur eitthvað svona gerst. Það sem getur ekki gerst er bara að hrasa og við það falla iðrin út úr manni :)

Svanur
En fyrst þú gefur því möguleika að eitt af guðspjöllunum sé með villu í sér, þá er ekki ómögulegt að það sama eigi við önnur rit Biblíunnar og þess vegna séu þau ekki endilega áreiðanlegar sagnfræðiheimildir.

Það er auðvitað fáránlegt, þá gætum við hent öllum fornum ritum. Við gerum ekki þessar ofur háu kröfur til annara sagnfræðirita.

Svanur
Til dæmis er tungumálið sjálft og líkingamálið sem í þeim er að finna í fullu samræmi við heimsmynd fólks áður en vísindi urðu til. Dæmisagan af sköpun mannsins er ekki í  neinu samræmi við vísindalega þekkingu okkar í dag

Hún er í frábæru samræmi við okkar vísindalegu þekkingu, hún er bara ekki í samræmi við guðleysi sem ætti ekki að koma á óvart.

Svanur
Önnur trúarrit sem innihalda spádóma; Zendavesta, Bagdavagita, Kóraninn og hin kínverska Chen  svo dæmi séu nefnd.

Ertu með alvöru dæmi því að ég var að vísa til spádóma í mannkynssögunni sem eru skýrir og hafa ræst.

Svanur
Hvaða aldurgreiningaraðferðir tekur þú alvarlega?

Að telja árs hringi trjáa er lala... því jafnvel þar, glímir maður við að við vitum ekki fyrir víst að aðstæður í fortíðinni hafa ekki framkallað auka hringi.

Mofi, 15.9.2010 kl. 17:04

5 Smámynd: Sveinn Þórhallsson

Það sem getur ekki gerst er bara að hrasa og við það falla iðrin út úr manni :)
Nú afhverju er það ómögulegt ef það að menn rísi upp frá dauðum er ekki ómögulegt?

Sveinn Þórhallsson, 15.9.2010 kl. 17:40

6 Smámynd: Einnar línu speki

Ef guð er til, af hverju læknar hann ekki Stephen Hawking?

Einnar línu speki, 15.9.2010 kl. 17:57

7 Smámynd: Jón Ragnarsson

Bara með því að bæta "rökrétt" inn í setningu, gerir hana ekkert sannari.

Jón Ragnarsson, 15.9.2010 kl. 17:59

8 Smámynd: Sveinn Þórhallsson

...eða staðhæfinguna rökréttari...

Sveinn Þórhallsson, 15.9.2010 kl. 18:01

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Heimildir um Búdda er t.d. að finna í lengstu samfelldu króníku sem til er í heiminum; Mahavamsa og er talið afar áreiðanlegt sagfræðirit.

Ágæt grein um Zoroaster sem setur hlutina í Biblíulegt samhengi má finna hér.

Hvað varðar Júdas held ég að þú þurfir að sætta þig við það sem þú kallar versta fallið, þ.e.  "í versta falli þá er eitt af guðspjöllunum með villu í sér, þá eru samt þrjú eftir."

Um leið getum við hætt að stóla á Biblíuna sem algjörlega áreiðanlegt sagnfræðirit, enda aldrei ætlað að vera slíkt.

Þú segir enn söguna af sköpun mannsins og konunnar standast vísindalega skoðun. Hvernig skýrir þú það vísindalega að Eva hafi verið sköpuð af rifbeini Adams?

Hvað spádómana varðar má benda á spádóma Búdda varðandi endurkomu sinnar sem Maitreya

Túlkun þeirra spádóma er meðal annars að finna hér.

Við hvað miðar þú Mofi, ef allar aldursgreiningar eru að þínu mati vafasamar. Viltu meina að ekkert sé vitað yfirleitt um aldur hluta sem ekki eru til ritaðar heimildir um?

Svanur Gísli Þorkelsson, 15.9.2010 kl. 19:58

10 Smámynd: Mofi

Sveinn
Nú afhverju er það ómögulegt ef það að menn rísi upp frá dauðum er ekki ómögulegt?

Eitt er yfirnáttúrulegt inngrip frá Guði, hinu er lýst bara sem einhverjum atburði. Ég átti aðalega við að það hlýtur eitthvað meira sem þarna liggur að baki en að Júdas hafi dottið og það er ekkert talað um að um yfirnáttúrulegan atburð hafi verið að ræða.

Einnar Línu speki
Ef guð er til, af hverju læknar hann ekki Stephen Hawking?

Virðist hafa önnur áform fyrir Hawking. Það er ekki Biblíuleg kenning að þetta líf á þessari jörð eigi að vera einhver dans á rósum.

Mofi, 16.9.2010 kl. 10:02

11 Smámynd: Mofi

Jón Ragnarsson
Bara með því að bæta "rökrétt" inn í setningu, gerir hana ekkert sannari

Aðeins sett til að mitt mat á viðkomandi staðhæfingu komi fram.

Mofi, 16.9.2010 kl. 10:04

12 Smámynd: Mofi

Svanur
Heimildir um Búdda er t.d. að finna í lengstu samfelldu króníku sem til er í heiminum; Mahavamsa og er talið afar áreiðanlegt sagfræðirit

Það er auðvelt að segja að eitthvað er talið áreiðanlegt en það er töluvert annað að sýna fram á það. Síðan er búddismi ekki byggður á því að eitthvað gerðist heldur aðeins að Búdda var til og þetta er það sem hann kenndi. Dáldið að bera saman epli og appelsínur hérna.

Svanur
Ágæt grein um Zoroaster sem setur hlutina í Biblíulegt samhengi má finna hér.

En hvaða fornu handrit eru til um Zoroaster og af hverju eru þau áreiðanleg?  Er Zoroaster einn af spámönnum Guðs að þínu mati?  Ef svo er þá væri mjög gaman að vita af hverju þú ert á þeirri skoðun.

Svanur
Hvað varðar Júdas held ég að þú þurfir að sætta þig við það sem þú kallar versta fallið, þ.e.  "í versta falli þá er eitt af guðspjöllunum með villu í sér, þá eru samt þrjú eftir."

Það væri í versta falli og ég tel miklu líklegra að samræming á sögunum er næst sannleikanum og að þarna er ekki um mótsögn að ræða.

Svanur
Um leið getum við hætt að stóla á Biblíuna sem algjörlega áreiðanlegt sagnfræðirit, enda aldrei ætlað að vera slíkt.

Margar af bókum hennar voru pottþétt skrifaðar þannig að sagnfræðilega nákvæmi skipti miklu máli. Lúkas er t.d. mjög duglegur að skrifa um hluti sem skipta söguna sjálfa litlu máli en hjálpa okkur til að sjá að þarna var á ferðinni maður á þessum tíma, á þessum slóðum þar sem hann gefur sér tíma til að skrifa um staðina sem hann er á og fólkið sem þarna er.

Sum handrit Biblíunnar eru ekki skrifuð þannig, það er alveg hárrétt.

Svanur
Þú segir enn söguna af sköpun mannsins og konunnar standast vísindalega skoðun. Hvernig skýrir þú það vísindalega að Eva hafi verið sköpuð af rifbeini Adams?

Við getum klónað dýr svo hérna er ekki neitt á ferðinni sem við gætum mennirnir gætum ekki gert á næstu tíu árum eða svo.  Þessi saga er síðan lýsing á yfirnáttúrulegri sköpun svo að því leiti þá er hún handan vísindanna að rannsaka beint. Það gerir það ekki að verkum að hún er ósönn by default vegna þess; ekki nema þú útilokar afskipti Guðs af heiminum.

Svanur
Hvað spádómana varðar má benda á spádóma Búdda varðandi endurkomu sinnar sem Maitreya

Er þetta skýr sagnfræðilegur spádómur sem hægt er að staðfesta að hafi ræst?  Ég sé ekkert skýrt þarna og veit ekki til þess að Maitreya er kominn og hvað þá, hvernig ég gæti vitað að Maitreya er Búdda kominn aftur.

Svanur
Við hvað miðar þú Mofi, ef allar aldursgreiningar eru að þínu mati vafasamar. Viltu meina að ekkert sé vitað yfirleitt um aldur hluta sem ekki eru til ritaðar heimildir um?

Þegar við  höfum ritaðar heimildir og einhverja aldursgreiningu sem passar saman þá erum við í ágætum málum, allt fyrir utan það er mjög vafasamt.

Mofi, 16.9.2010 kl. 10:16

13 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

 Tími til kominn að hluta þetta sundur. Ég ætla að taka hvern punkt sér. Það er of langt að taka þá saman. Fyrst, Sagan af sköpun mannsins í Biblíunni.

Mofi reit.;

Við getum klónað dýr svo hérna er ekki neitt á ferðinni sem við gætum mennirnir gætum ekki gert á næstu tíu árum eða svo. 

Ef að um klónun var að ræða var Eva karlmaður. Það gengur ekki upp. Henni er lýst sem konu sem eignaðist börn. Það gæti klónn af karlmanni ekki gert.

Þessi saga er síðan lýsing á yfirnáttúrulegri sköpun svo að því leiti þá er hún handan vísindanna að rannsaka beint.

Þú sagðir líka að sagan væri "í frábæru samræmi við okkar vísindalegu þekkingu, hún er bara ekki í samræmi við guðleysi sem ætti ekki að koma á óvart."

Hvar er þetta frábæra samræmi?

Svanur Gísli Þorkelsson, 16.9.2010 kl. 12:57

14 Smámynd: Mofi

Svanur
Ef að um klónun var að ræða var Eva karlmaður. Það gengur ekki upp. Henni er lýst sem konu sem eignaðist börn. Það gæti klónn af karlmanni ekki gert.

Það er hægt að nota erfðaefnið til þess. Það hefði einmitt ekki verið hægt að fara í hina áttina, að taka erfðaefni frá konu og búa til karlmann. Klónun var rangt orð hérna en eitthvað mjög nálægt því.

Svanur
Hvar er þetta frábæra samræmi?

Í til dæmis eftirfarandi atriðum:

  • Það þarf vitsmuni til að búa til DNA sem er eins og upplýsingakerfi sem geymir forritunarkóða sem lýsir gerð flókinni véla.
  • Dýr eignast afkvæmi eftir sinni tegund, tegundirnar eru ekki að breytast í aðrar tegundir; við sjáum aðeins lítilvæga aðlögun tegundanna.
  • Við sjáum sköpun þessarar jarðar en hún er einstök meðal allra þeirra hnatta sem við sjáum í kringum okkur í geimnum.

    Ég hef ekki séð sannfærandi gögn fyrir því að þessi saga er röng.
    Sannarlega þarf maður að taka henni í trú þar sem um yfirnáttúrulegt inngrip Guðs er að ræða, eitthvað sem er ekki hægt að endurtaka í tilraunastofu. En þegar kemur að uppruna jarðarinnar, uppruna lífs og dýrategundanna þá getur enginn endurtekið eitt eða neitt í þeim efnum.

Mofi, 16.9.2010 kl. 13:13

15 Smámynd: Sveinn Þórhallsson

Það er hægt að nota erfðaefnið til þess. Það hefði einmitt ekki verið hægt að fara í hina áttina, að taka erfðaefni frá konu og búa til karlmann. Klónun var rangt orð hérna en eitthvað mjög nálægt því.
Afhverju ekki? Nú er Y-litningurinn miklu, miklu minni en X-litningurinn. Ætti ekki að vera auðveldara að taka bara af X-litningnum til að búa til Y litning í staðin fyrir að bæta helling við Y-litninginn?

Sveinn Þórhallsson, 16.9.2010 kl. 13:49

16 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Mofi:

Hvaða vísindaleg gögn styðja það að maðurinn hafi verið skapaður á þann hátt sem lýst er í sköpunarsögunni og að konan hafi verið sköpuð úr rifi hans. -

Látum það alveg liggja á milli hluta í bili, hvort til þess þurfti vitsmuni eða ekki.

Af erfðaefni kvenna eingöngu, getur aðeins komið kvenmaður. Spurningin er þá hvaðan Jesú Maríuson fékk sín karl-erfðaefni.

Af erfðaefni karla eingöngu, færðu aðeins karlmenn. -

Ef að kraftaverk þurfti þarna til, erum við komnir út fyrir vísindin og inn í atburðarrás sem ekki fellur vel að þeim.

Því stenst fullyrðing þín um að þessi saga sé "í frábæru samræmi við okkar vísindalegu þekkingu" alls ekki.

Svanur Gísli Þorkelsson, 16.9.2010 kl. 14:04

17 Smámynd: Mofi

Sveinn
Afhverju ekki? Nú er Y-litningurinn miklu, miklu minni en X-litningurinn. Ætti ekki að vera auðveldara að taka bara af X-litningnum til að búa til Y litning í staðin fyrir að bæta helling við Y-litninginn?

Karlmenn eru með XY en konur eru með tvo XX litninga, þannig að við höfum það sem þarf til að búa til kvenmann en konur hafa Y litninginn til að búa til karlmann. Well, þannig skil ég þetta. Skiptir auðvitað engu máli þar sem við erum að tala um yfirnáttúrulega sköpun kvenmanns og Guð hefði þess vegna getað búið til glænýtt erfðaefni.

Mofi, 16.9.2010 kl. 14:27

18 Smámynd: Mofi

Svanur
Hvaða vísindaleg gögn styðja það að maðurinn hafi verið skapaður á þann hátt sem lýst er í sköpunarsögunni og að konan hafi verið sköpuð úr rifi hans. 

Frekar að það eru ekki til gögn sem andmæla því.

Svanur
Ef að kraftaverk þurfti þarna til, erum við komnir út fyrir vísindin og inn í atburðarrás sem ekki fellur vel að þeim.

Trúir þú ekki að Guð hafi gripið inn í mannkynssöguna? Að Guð hafi gert eitthvað í þessum alheimi?  Miðað við aðra umræðu þá veit ég að þú trúir að Guð hafi orsakað alheiminn en stoppar það þar hjá þér?

Svanur
Því stenst fullyrðing þín um að þessi saga sé "í frábæru samræmi við okkar vísindalegu þekkingu" alls ekki.

Að því leiti að við skoðum hvernig hlutirnir eru í dag og síðan hvort það passar við þessa sögu. Þar sem sagan er um óendurtakanlegan atburð og þar af leiðandi mjög erfitt fyrir vísinda aðferðina að glíma mikið við það. Aftur á móti hægt að athuga hvernig hlutirnir eru í dag og hvort að þessi saga stangast á við þá þekkingu.

Mofi, 16.9.2010 kl. 14:31

19 Smámynd: Sveinn Þórhallsson

Nei, karlmenn eru með X og Y litning en konur eru með tvo X-litninga. Y-litningurinn er miklu, miklu minni en X-litningurinn og því væri fræðilega hægt að búa til Y-litning úr X-litningi á meðan hið gagnstæða væri mun erfiðara og krefðist þess að nýtt erfðaefni yrði búið til (þetta er jafnframt ástæðan fyrir því hvers vegna miklu fleiri karlmenn þjást af erfðatengdum göllum en konur, bilað gen, jafnvel víkjandi gen, finnst kannski á X-litningi þeirra en ekkert sambærilegt gen, þá ríkjandi, væri á Y-litninginum sem gæti vegið á móti þar sem hann er minni og gallinn kemur þess vegna fram. Rauð-græn litblinda er dæmi um þetta).

En þetta skiptir auðvitað engu máli í ljósi þess að rök eiga alls ekkert við, eins og þú segir. En þá skaltu líka hætta að reyna að rökstyðja þetta...

Sveinn Þórhallsson, 16.9.2010 kl. 15:02

20 Smámynd: Egill Óskarsson

Frekar að það eru ekki til gögn sem andmæla því.
Ertu að reyna að eiga í vísindalegri umræðu eða heimspekilegri? Svona setning er bara gjaldgeng sem rökstuðningur fyrir því sem þú ert að halda fram í annari af þessum tegundum umræðna. 

Egill Óskarsson, 16.9.2010 kl. 16:15

21 Smámynd: Mofi

Egill, bara spjalli.

Mofi, 17.9.2010 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Mofa blogg

Höfundur

Mofi
Mofi

Ég er sjöundadags aðventisti en tala samt ekki fyrir hönd safnaðarins. Hugbúnaðarfræðingur að mennt og aðhyllist Biblíulega sköpun. 

Íslendingur, hugbúnaðarfræðingur að mennt, búsettur í Englandi sem hefur áhuga á flest öllu. 

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • trinity witch craft
  • Bodunarkirkjan
  • Trinity_Symbol
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 803264

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband