Ræður þú við sannleikann?

180px-Truth-Warner-Highsmith

Þetta er áframhald af hugleiðingum sem koma fram í þessari grein: Pússluspil lífsins - trú og leitin að sannleikanum


Sannleikurinn og trúin 

Þegar kemur að trúarbrögðum, þá er eins og margir hafa mikið á móti að það er eitthvað til sem heitir sannleikur; og eru bókstaflega á móti því að sannleikurinn er til eða þekkjanlegur.  Þetta er mjög undarlegt því að við heimtum sannleika í hreinlega öllum öðrum þáttum okkar lífs. Við heimtum sannleika af:

  • fjölskyldu
  • vinum
  • starfsfélögum
  • læknum ( þegar við förum til læknis þá viljum við að hann segi okkur satt og láti okkur fá rétt lyf )
  • réttarkerfinu ( við viljum að það dæmi aðeins þá sem eru sekir )
  • flugfélögum ( við viljum að þeir segi satt um öryggi flugvéla og áfangastaði )

Þegar við lesum grein eða fréttir þá viljum við að það sé ekki verið að ljúga að okkur. Við gerum tilkall til sannleika þegar kemur að samböndum, öryggi, heilsu og fjármunum.  Þrátt fyrir þetta þá er eins og margir hafi engann áhuga á sannleika þegar kemur að trúarlegum málum.  Margir jafnvel neita að einhver trú geti verið sönn.  Þú hefur líklegast tekið eftir því en hérna er risastór þversögn á ferðinni.  Afhverju segja sumir "þetta er satt fyrir þig en ekki fyrir mig"?  Engum myndi detta í hug að segja þannig vitleysu við gjaldkera í banka, lögregluna, dómara eða lækni.

Í okkar þjóðfélagi bergmála raddir sem segja "Það er enginn alger sannleikur til", "þetta er bara þinn smekkur", "trúarbrögð snúast um trú, ekki staðreyndir".

Í tilraun til að glíma við þessa undarlegu hugmyndafræði þá skulum við skoða nokkur atriði varðandi sannleikann.

  1. Hvað er sannleikur?
  2. Afhverju trúir fólk, ástæður til að meta hvað er satt.
  3. Er hægt að vita sannleikann?
  4. Hvernig öðlumst við þekkingu á sannleikanum?
  5. Hvað með það, hverjum er ekki sama um sannleikann?

Hvað er sannleikur?

Það er hægt að skilgreina sannleikann að hann segir hlutina eins og þeir raunverulega eru. Ólíkt því sem margir halda fram þá er sannleikurinn algildur en ekki afstæður. Þá á ég við að fullyrðingar um einhvern sannleika eru sértækar og útiloka allt annað sem er andstætt þeim. Dæmi um þetta er að fullyrðingin "allt er satt". Mjög altæk setning og algild og útilokar það sem er andstætt henni. Í rauninni þá eru allar fullyrðingar um sannleika þannig að þær útiloka andstæður sína; líka trúarlegar fullyrðingar um einhvern sannleika.

Sannleikurinn um sannleikann

  • Sannleikurinn er uppgvötaður, ekki fundinn upp. Hann var til áður en einhver hafði þekkingu á honum.  Þyngdarlögmálið var til löngu áður en Newton lýsti því eða uppgvötaði það.
  • Sannleikanum er alveg sama um menningu. Ef eitthvað er satt þá er það satt fyrir alla menn á öllum tímum. Tveir plús tveir er jafnt og fjórir fyrir alla menn á öllum tímum.
  • Sannleikurinn breytist ekki jafnvel þótt að okkar hugmyndir um hann breytast.
  • Það sem þú trúir um staðreyndir breytir ekki staðreyndunum.   Þótt að einhver trúir því innilega að jörðin sé flöt þá hefur hann aðeins innilega rangt fyrir sér.
  • Sannleikurinn verður ekki fyrir áhrifum af þeim sem trúa honum. Þótt að einhver er hreykinn þá gerir hann ekki það sem hann trúir að lygi.

Það má segja að ólíkar skoðanir og ólíkar trúar sannfæringar eru mögulegar en ekki ólíkir sannleikar. Við getum trúað því að allt sé satt en við getum ekki gert allt satt. Þetta virkar kannski nokkuð augljóst en hvernig glímir maður við þá undarlegu fullyrðingu sem maður heyrir stundum í samfélaginu að það er enginn sannleikur?

pewter_mirror_thHvað segir spegilmyndin þér?

Ef maður notar svona undarlegar setningar á sjálfa sig þá getur það hjálpað manni og öðrum að sjá afhverju þær hljóta að vera rangar. Skoðum nokkur dæmi um þetta:

  • Það er enginn sannleikur, þetta er allt spurning um sjónarhorn
    Er það satt að það er enginn sannleikur?  Þetta er eins og að segja "ég get ekki sagt orð í íslensku"; fellur um sjálft sig.
  • Allur sannleikur er afstæður
    Er það afstæður sannleikur?
  • Það sem er satt fyrir mig þarf ekki að vera satt fyrir þig
    Er það satt bara fyrir þig eða er það satt fyrir alla?
Það getur tekið smá æfingu í að beita speglinum og sjá tækifæri til að beita honum en þegar maður nær færni í að beita honum þá veitir hann ómetanlega hjálp í að afneita hugmyndafræði sem fellur um sjálfa sig.


Afhverju ætti einhver að trúa einhverju?

Félagslegar ástæður
Foreldrar
Vinir
Samfélagið
menningin

Sálfræðilegar ástæður
Huggun
Hugar ró
Tilgangur
Von

Trúarlegar ástæður
Trúarlegar bækur
Prestur
Gúrú
Kirkjan

Heimspekilegar ástæður
Samheldni
Samkvæmt sjálfu sér
Besta útskýringin á öllum sönnunargögnunum

Félagslegar ástæður:

Þetta er líklegast sú ástæða sem hefur mest áhrif á trú fólks; sérstaklega þeirra sem hafa ekki tekið sér tíma í að skoða málið upp á eigin spítur.  En er þetta góð ástæða til að trúa einhverju?  Hafa foreldrar alltaf rétt fyrir sér?  Er nóg að vinur þinn trúir einhverju til að það sé líklegast satt?  Hefur menningin allta rétt fyrir sér?  Það er sannfærandi ef foreldrar manns segja eitthvað sem síðan vinir manns eru sammála og öll menningin í kringum mann segir að sé satt en það þýðir ekki að allir þessir aðilar hafa rétt fyrir sér. Alveg eins og það er rökvilla að vísa í meirihluta sem rök fyrir sinni trú þá er það órökrétt að trúa einhverju aðeins vegna þess að einhver annar gerir það.

Sálfræðilegar ástæður:

Það getur verið huggun að trúa að það er von út fyrir gröfina en það gerir það ekki satt. Eiturlyfja fíkill getur leitað hugganar í fíkniefni en það getur drepið hann. Sömuleiðis geta margir ekki viljað trúa einhverju því það myndi þýða að hann þyrfti að breyta hegðun sinni. Þyrfti kannski að hætta að gera eitthvað sem hann vill ekki hætta. En hvað maður vill og hvað maður langar að sé satt hefur ekki áhrif á sannleikann.

Trúarlegar ástæður:

Margir trúa mörgu af því að það stendur í einhverri heilagri bók eða af því að einhver "gúrú" sagði það.  En þar sem þessar helgu bækur kenna mismunandi atriði svo þá þarf getur maður ekki trúað þeim öllum svo maður þarf að velja hver er að segja satt ef einhver.  Þótt að margt í Kóraninum eða Biblíunni getur verið satt þá þarf samt eitthvað utan þessara heimilda til að meta hvort að fullyrðingarnar í helgum ritum séu sönn.

Heimspekilegar ástæður: 

Það er að draga ályktanir út frá rökum og þekkingu fengin frá vísindum. Þetta er ástæðan sem allir ættu að geta verið sammála um að sé rétta ástæðan til að trúa einhverju.

Er hægt að vita sannleikann?

Hérna glímum við þá staðhæfingu að það er ekki hægt að vita sannleikann. Með því að beita speglinum á þessa setningu þá getum við spurt "er það satt að við getum ekki vitað sannleikann"? Það er rétt að við sem menn með takmarkaða þekkingu lifum í ákveðni óvissu, við getum aðeins ályktað að eitthvað sé satt með mismunandi mikilli vissu en við gerum þannig ályktanir daglega og ekkert að því.  Önnur staðhæfing af svipuðum toga er "maður getur ekki vitað neitt fyrir víst". En vitum við það fyrir víst?  Því meira sem einhver efast því sannfærðari verður hann um andstæðu þess sem hann efast um. 

Hvernig öðlumst við þekkingu á sannleikanum?

Hvert sinn sem við segjum eitthvað erum við í rauninni að segja að við vitum einhvern sannleika um það sem við erum að fjalla um. Ef þú segir að einhver hafi rangt fyrir sér þá ertu að segja að þú vitir eitthvað um það sem er rétt. Jafnvel ef þú segðir "ég  veit ekki" ertu að segja að þú vitir eitthvað, þ.e.a.s. að þú vitir að þú vitir eitthvað ekki.  En hvernig öðlast maður þekkingu á sannleikanum?  Hvaða aðferð notar maður til að komast að sannleikanum?  Ferlið byrjar með grundvallar reglum rökfræðinnar. Þessar reglur eru grundvöllurinn því að það er ekkert á bakvið þær. Þær eru ekki sannaðar með einhverjum öðrum reglum heldur eru augljósar og innbyggðar í raunveruleikann. Allir þekkja þessar reglur jafnvel þótt þeir hafa ekki hugsað út í þær sérstaklega. Þessar tvær reglur eru "mótsagnarlögmálið" og "lögmálið um annað tveggja". Lögmálið um annað tveggja segir okkur að eitthvað annað hvort er eða er ekki. Til dæmis, annað hvort er Guð til eða Guð er ekki til. Annað hvort reis Jesús upp frá dauðum eða Hann gerði það ekki. Þessi lögmál eru tækin sem við notum til að öðlast þekkingu og svo augljós að enginn þurfti beint að kenna okkur þau.

Dæmi um beitingu þessara reglna:

  1. Allir menn eru dauðlegir
  2. Jón er maður
  3. Jón er dauðlegur

Þessi augljósu lögmál rökfræðinnar segja okkur að niðurstaðan er rökrétt. Niðurstaðan er aftur á móti aðeins rétt ef forsendurnar eru réttar. Ef allir menn eru dauðlegir og ef Jón er maður þá er Jón dauðlegur. Lögmál rökfræðinnar segja okkur ekki að forsendurnar eru sannar, kannski eru ekki allir menn dauðlegir, kannski er Jón ekki maður. Lögmál rökfræðinnar geta ekki sagt okkur hvort að forsendurnar sjálfar eru sannar.  Þetta er enn augljósara ef maður skoðar svona dæmi þar sem ein forsendan er röng.

  1. Allir menn eru skordýr með átta fætur.
  2. Jón er maður.
  3. Jón er skordýr með átta fætur.

Rökrétt en þar sem ein af forsendunum er röng þá vitum við að það er rangt. Þetta sýnir okkur að rökfræðin kemur okkur aðeins svo langt í leit okkar að sannleikanum. Við fáum upplýsingar með því að skoða heiminn í kringum okkur og síðan draga ályktanir út frá þeim skoðunum. Við vitum t.d. ekki betur en allir menn sem hafa lifað hafa dáið svo sú forsenda er rétt.  Það er rétt að það gæti verið undantekning svo við vitum þá forsendu ekki algjörlega án alls efa en það má samt segja að það er í góðu lagi á trúa að forsendan er rétt og þess vegna ályktunin áreiðanleg.

Dæmi þar sem maður setur þetta saman væri t.d. þessi blogg grein. Samkvæmt minni og þinni reynslu þá hefur hugur hefur verið á bakvið allt ritað mál sem kemur á framfæri hugsunum. Svo þú réttilega ályktar að þessi grein hefur einn eða fleiri höfund sem getur hugsað. Ef maður setur dæmið upp þá gæti það litið svona út.

  1. Allt ritað mál sem kemur á framfæri hugsunum er afrakstur hugsandi veru.
  2. Þessi grein er ritað mál sem kemur á framfæri hugmyndum og hugsunum.
  3. Að baki þessarar greinar er hugsandi vera. 

Hvernig er hægt að öðlast þekkingu á tilvist Guðs?

Sumir gætu hérna mótmælt og spurt hvernig þetta hefur með að gera að öðlast þekkingu á tilvist Guðs sem flestir kristnir, hindúar, múslimar og fleiri segja að sé ósýnilegur.  Ef þeir hafa rétt fyrir sér þá er samt hægt að öðlast þekkingu á því sem er ósýnilegt. Við t.d. sjáum ekki heilann í einstaklingum en við sjáum hvað hann orsakar. Við sjáum ekki beint atriði sem eru huglæg eins og kærleika og hatur en greinum ummerki þess. Við sjáum ekki þyngdaraflið en sjáum afleiðingar þess. Við sjáum afleiðingu og getum ályktað réttilega um orsök. Svo við getum skoðað heiminn í kringum okkur og ályktað um afleiðingu og orsök og hvort að við sjáum eitthvað sé til sem Guð hefur orsakað.

Hverjum er ekki sama? 

Augljóslega skiptir sannleikurinn máli þegar kemur að mörgum af sviðum okkar lífs. Ef við förum til læknis þá getur lygi frá lækni verið lífshættuleg. Foreldrar fræða börn sín um hættur heimsins og lygar eða fáfræði um þær hættur geta kostað mannslíf. En hvað með trúarlegann sannleika. Ef sum af trúarbrögðum þessa heims eru sönn þá skiptir það gífurlega miklu máli varðandi okkar eilífu örlög sem vega í rauninni þyngra en örlög okkar í þessu í lífi. Ef Islam segir rétt frá þá þýðir það að þeir sem eru ekki múslimar eiga von á eilífri vist í logum vítis. Ef kristni segir satt frá þá þýðir það að þeir sem iðrast ekki og setja traust sitt á Krist munu ekki komast til himna ef þeir hafa brotið gegn samvisku sinni og Guði.

Út frá þessu þá vona ég að fólk sjái að hægt er að öðlast þekkingu á sannleikanum og að hver sá sannleikur er, skiptir máli. Að vera sama um þessi mál er ekki gáfuleg afstaða því að ef einhver fer út á hraðbraut og trúir því ekki að trukkar séu til þá mun sú trú ekki bjarga þeim þegar trukkur keyrir yfir þá. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mama G

Hvernig öðlumst við þekkingu á sannleikanum?

Það vantar nú að tiltaka eitt tæki í viðbót sem hægt er að nota til að finna sannleikann. Það heitir hugleiðsla.

Fólk biður um að fá að sjá Guð svo það megi trúa. Málið er bara að Guð er ekki einhver vera eða hlutur sem birtist mannlegum augum. Maður sér Guð innan frá - þess vegna er svo erfitt að sanna það fyrir öðrum að Guð sé til. Það er í rauninni (eftir því sem ég best veit) ekki hægt að sanna Guð fyrir öðrum, bara segja fólki hvað það þarf sjálft að gera til að "sjá" Guð.

Fólk bara nennir ekki að bera sig eftir því í flestum tilfellum. Annars ágætis grein Mofi

Mama G, 16.6.2008 kl. 13:36

2 Smámynd: Mofi

Takk fyrir það Mama G.  Þú ættir endilega að gera grein þar sem þú útskýrir það sem þú sagðir hérna betur; hefði gaman að kíkja á það.

Mofi, 16.6.2008 kl. 13:40

3 identicon

Auðvitað er hægt að sanna að guð sé til Mama G, hvernig dettur þér annað í hug??  Sannaði guð ekki tilvist sína fyrir Hebreunum og Forn-Egyptum með óyggjandi hætti á sínum tíma?  Afhverju ætti hann ekki að geta það í dag?

Sveinn (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 13:42

4 Smámynd: Mama G

Mófi: Já, það endar sennilega með því að ég þurfi að fá smá útrás og skrifa pistil um þetta sjálf - mun surely bjóða þér að commenta á það þegar þar að kemur

Sveinn: Veit ekki alveg hvernig ég á að svara þér. Ertu að vitna í einhverjar sögur í Biblíunni þar sem Guð ákvað sjálfur að sanna tilvist sína? Hann gæti sjálfsagt gert það hefði Hann áhuga á því. Ég var meira að tala um venjulegt fólk eins og þig og mig - að við ættum í rauninni frekar erfitt með að sanna tilvist Guðs fyrir öðrum, eða heldurðu ekki?

Mama G, 16.6.2008 kl. 13:56

5 identicon

Ef sum af trúarbrögðum þessa heims eru sönn þá skiptir það gífurlega miklu máli varðandi okkar eilífu örlög sem vega í rauninni þyngra en örlög okkar í þessu í lífi. Ef Islam segir rétt frá þá þýðir það að þeir sem eru ekki múslimar eiga von á eilífri vist í logum vítis. Ef kristni segir satt frá þá þýðir það að þeir sem iðrast ekki og setja traust sitt á Krist munu ekki komast til himna ef þeir hafa brotið gegn samvisku sinni og Guði.

Eina rökrétta ályktunin, svo að allir fá 'happy ending' er trúleysi mófi :)

Arnar (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 14:03

6 identicon

Hann gæti sjálfsagt gert það hefði Hann áhuga á því.

Áhugaverð ályktun.  En akkuru virðist hann ekki hafa áhuga á því?

Guðinn ykkar virðist hafa alveg svakalegan áhuga á því að allir trúi á hann en svo lætur hann ekki sjá sig í +2000 ár.

Arnar (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 14:07

7 Smámynd: Mofi

Sveinn
Auðvitað er hægt að sanna að guð sé til Mama G, hvernig dettur þér annað í hug??  Sannaði guð ekki tilvist sína fyrir Hebreunum og Forn-Egyptum með óyggjandi hætti á sínum tíma?  Afhverju ætti hann ekki að geta það í dag?

Ég svaraði því í greininni sem kom á undan þessari.

Arnar
Eina rökrétta ályktunin, svo að allir fá 'happy ending' er trúleysi mófi :)

Hver er þinn "happy ending" Arnar? 

Arnar
Áhugaverð ályktun.  En akkuru virðist hann ekki hafa áhuga á því?

Guðinn ykkar virðist hafa alveg svakalegan áhuga á því að allir trúi á hann en svo lætur hann ekki sjá sig í +2000 ár.

Þar sem þessari spurningu var svarað í greininni sem kom á undan þessari þá væri best að kíkja á það og kommenta þar á það efni. 

Mofi, 16.6.2008 kl. 14:10

8 Smámynd: Mama G

Arnar: Svar við þinni spurningu/afstöðu kemur fram í mínu fyrsta commenti.

Mama G, 16.6.2008 kl. 14:12

9 Smámynd: Mofi

Henry, vandamálið hérna er að vísindin snúast ekki um endanlegann sannleika eða niðurstöðuna. Þau eru tæki til að öðlast þekkingu á heiminum í kringum okkur. Lastu hlutann sem kom að vísindum? 

Mofi, 16.6.2008 kl. 14:18

10 identicon

Nú, 'happy ending' fyrir alla er væntanlega sá endir þar sem engin fer til helvítis.

'Happy ending' fyrir mig, prívat og persónulega, er að hafa lifað ánægjulegu lífi.

Arnar (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 15:09

11 Smámynd: Mofi

Arnar, ef Biblían hefur rétt fyrir sér þá eru örlög þeirra sem hafna boði Guðs eilífur dauði. Svo ef ég hef rétt fyrir mér eða Biblían þá færðu þinn happy ending. Ég get alveg ímyndað mér betri en...

Mofi, 16.6.2008 kl. 15:12

12 Smámynd: Mofi

Gaman að heyra Henry. Endilega komdu með alla þá punkta og gagnrýni sem þér dettur í hug þar sem ég er að reyna að setja þetta saman í ræðu sem á að vera með næsta hvíldardag.  Langar að fjalla um efni sem ég hef þurft að rökræða við aðra svo ég fái dýpri skilning á því.

Mofi, 16.6.2008 kl. 16:45

13 identicon

Að nokkur maður skuli trúa á guð biblíunnar (eða kóransins o.s.f.v.) er mesta ráðgáta sem til er. Eða hvað ? Er það vonin um framhaldslífið? Væru einhverjir kristnir eða múslimar ef trúarbrögðin væru alveg eins og þau eru í dag fyrir utan loforðið um framhaldslíf? Þessi von um framhaldslíf er svo sterk að menn sjá allt út frá bókinni sem lofar framhaldslífinu. Bókin verður sannleikurinn í hugum fólks því án hennar þá er ekkert framhaldslíf. Ef þróunarkenninginn lofaði framhaldslífi en guðstrúin ekki þá væru sumir kannski trúaðri á þróunarkenninguna en þeir eru í dag? Hver veit?

Oddi Pattason (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 06:59

14 identicon

Sumir ráða einfaldlega ekki við þann sannleika að það sé ekkert framhaldslíf. 

Held að þú hafir einmitt loksins rekið nagglann á höfuðið minn kæri herra Mofi í fyrirsögninni hjá þér hér að ofan. 

Oddi Pattason (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 07:11

15 Smámynd: Mofi

Oddi, góður punktur. Er einmitt að benda á að það er öflugur hvati til að trúa en maður breytir ekki sannleikanum með því bara að langa til að eitthvað sé satt.

Takk fyrir innilitið Oddi 

Mofi, 17.6.2008 kl. 10:38

16 Smámynd: Zaraþústra

Þetta er gífurlegur ruglingur með orð og orðalag.  Þegar þú segir að þú væntir sannleika frá þeim sem þú treystir áttu við að þú gerir ráð fyrir að þau svari alltaf eftir bestu vitund.  Þú gerir aldrei raunverulega þá kröfu að það sem góðvinir þínir segi þér sé rétt, aðeins að það sem þeir segi þér sé það sem þeir álíta réttast.  Á þessu er gífurlegur munur.  Sannleikur er margrætt orð, að blanda saman merkingum þess í þessari umræðu er uppskrift af því sem kallað er kvíavilla.

Sömuleiðis ert þú að oftúlka það þegar menn segja að það sé enginn algildur sannleikur til.  Allir hljóta að viðurkenna að klifun eins og hvítur snjór er hvítur hlýtur að vera rétt einfaldlega vegna þess að annað er augljóslega rökleysa.  Þegar menn segja að sannleikur sé afstæður eru þeir að tala um annars konar sannleik.

Það er hægt að skilgreina sannleikann að hann segir hlutina eins og þeir raunverulega eru.

Þessi skilgreining bætir ekki úr skák, hvernig er hægt að vita hvernig hlutir eru raunverulega?  Hvað merkir það?

Ólíkt því sem margir halda fram þá er sannleikurinn algildur en ekki afstæður.

Hvaða sannleikur? Klifanir sem eru alltaf réttar samkvæmt skilgreiningu?  Samkvæmt ófullkomleika setningu Gödels byggja öll rökleg kerfi á að minnsta kosti einni forsendu sem ekki er hægt að sanna innan kerfisins.  Það þýðir að það er alltaf til ein forsenda sem við getum ekki sannað með röklegum aðferðum sem aftur þýðir að við getum ekki þekkt neinn merkilegan sannleik, annan en þann sem er augljós samkvæmt skilgreiningu. 

Sannleikurinn er uppgvötaður, ekki fundinn upp. Hann var til áður en einhver hafði þekkingu á honum.  Þyngdarlögmálið var til löngu áður en Newton lýsti því eða uppgvötaði það.

Hvernig er merkilegur sannleikur, þ.e. annar en augljós sannleikur, uppgötvaður?  Þyngdarlögmálið hefur ekki alltaf verið til, þyngdarlögmálið vísar til lögmála sem Newton setti fram til þess að lýsa hreyfingu þeirra hluta sem hann sá í kringum sig.  Þessi lýsing er nákvæm en hún er langt frá því að vera rétt eða algild.  David Hume fjallaði ítarlega um eðli slíkra lögmála, jafnvel einföld og sjálfgefinn lögmál eins og að sólinn komi alltaf upp að morgni (ef við hugsum ekki um út úr snúningana eins og ef það er skýjað) bresta um leið og það verður breyting á í eitt skipti.  Lögmál eru því ekki algild eða nokkurs konar sannleikur, þau eru aðeins nákvæmasta og traustasta lýsingin sem við höfum til þessa.

Er það satt að það er enginn sannleikur?  Þetta er eins og að segja "ég get ekki sagt orð í íslensku"; fellur um sjálft sig.

Þetta er engan veginn augljóst, það fer eftir því hvað þú átt við.  Get ég vitað merkilegri hluti en 1+1=2 sem eru það vegna skilgreiningar?  Er til slíkur sannleikur?  Ef spurningunni er skipt upp þannig er ekki alveg eins auðvelt að svara.

Mér finnst þetta allt of skammt hugsað, þekkingarfræði er töluvert flóknari en svo að þú afgreiðir hana í þessum bloggpósti, en það var væntanlega ekki ætlast til þess.

Zaraþústra, 18.6.2008 kl. 01:34

17 Smámynd: Mofi

Zaraþústra
Þetta er gífurlegur ruglingur með orð og orðalag.  Þegar þú segir að þú væntir sannleika frá þeim sem þú treystir áttu við að þú gerir ráð fyrir að þau svari alltaf eftir bestu vitund.  Þú gerir aldrei raunverulega þá kröfu að það sem góðvinir þínir segi þér sé rétt, aðeins að það sem þeir segi þér sé það sem þeir álíta réttast.  Á þessu er gífurlegur munur.  Sannleikur er margrætt orð, að blanda saman merkingum þess í þessari umræðu er uppskrift af því sem kallað er kvíavilla.

Punkturinn er að við viljum að þessir aðilar segi okkur satt, að minnsta kosti eftir þeirra bestu vitund. Við auðvitað vitum að fólk hefur takmarkaða þekkingu og hefur stundum rangt fyrir sér.

Þú segir að sannleikur er margþætt orð og ég er sammála að því leiti að fólk hefur mismunandi skilning á því og það er einmitt eitthvað sem ég var að leita eftir. Að fá mismunandi sjónarhorn á þetta efni og þú ert að hjálpa mér mjög mikið með það verkefni.

Zaraþústra
Sömuleiðis ert þú að oftúlka það þegar menn segja að það sé enginn algildur sannleikur til.  Allir hljóta að viðurkenna að klifun eins og hvítur snjór er hvítur hlýtur að vera rétt einfaldlega vegna þess að annað er augljóslega rökleysa.  Þegar menn segja að sannleikur sé afstæður eru þeir að tala um annars konar sannleik.

Hvers konar sannleikur er afstæður?  Sumt er breytilegt og þar af leiðandi ekki satt í dag þótt það var satt í gær.  Til dæmis að segja að það er gott veður getur verið satt í dag á Íslandi en ekki á Grænlandi og hvað þá í fyrra dag. En ef ég ( Halldór ) segi að mér hafi verið heitt og sitið fyrir framan tölvuna mína klukkan 11:11 þann 18. júní 2008 þá er það satt fyrir alla menn á öllum tímum, alls staðar í alheimnum. Kannski þyrfti kennitöluna mína líka til að forðast misskilning einhverra.

Zaraþústra
Þessi skilgreining bætir ekki úr skák, hvernig er hægt að vita hvernig hlutir eru raunverulega?  Hvað merkir það?

Til dæmis að jörðin er hnöttur sama hvað fólk trúir um lögun jarðarinnar. Að við erum með raunveruleika sem breytist ekki þótt að okkar skilningur á honum breytist.

Zaraþústra
Hvaða sannleikur? Klifanir sem eru alltaf réttar samkvæmt skilgreiningu?  Samkvæmt ófullkomleika setningu Gödels byggja öll rökleg kerfi á að minnsta kosti einni forsendu sem ekki er hægt að sanna innan kerfisins.  Það þýðir að það er alltaf til ein forsenda sem við getum ekki sannað með röklegum aðferðum sem aftur þýðir að við getum ekki þekkt neinn merkilegan sannleik, annan en þann sem er augljós samkvæmt skilgreiningu.

Ég útskýri að við getum aðeins vitað forsendurnar miðað við okkar þekkingu. Líkurnar á því að þær eru sannar eru mismunandi miðað við okkar þekkingu á forsendunni og okkar niðurstaða því mismunandi traust.  Hefur virkilega ekkert neina meiningu fyrir þér í þínu lífi?  Er sannleikur að þú ert til?

Zaraþústra
Hvernig er merkilegur sannleikur, þ.e. annar en augljós sannleikur, uppgötvaður?

Með rannsóknum og rökfræði.  Kannski þú útskýrir fyrir mér hvað þú átt við með "merkilegur".  Áttu við eitthvað sem hefur meiningu eða þýðingu?

Zaraþústra
Þyngdarlögmálið hefur ekki alltaf verið til, þyngdarlögmálið vísar til lögmála sem Newton setti fram til þess að lýsa hreyfingu þeirra hluta sem hann sá í kringum sig.  Þessi lýsing er nákvæm en hún er langt frá því að vera rétt eða algild.

Hlutir duttu til jarðar áður en Newton kom fram með sýnar lýsingar á Þyngdarlögmálinu ekki satt?

Zaraþústra
Þetta er engan veginn augljóst, það fer eftir því hvað þú átt við.  Get ég vitað merkilegri hluti en 1+1=2 sem eru það vegna skilgreiningar?  Er til slíkur sannleikur?  Ef spurningunni er skipt upp þannig er ekki alveg eins auðvelt að svara.

Um leið og þú útskýrir betur fyrir mér hvað þú átt við með "merkilegri" þá get ég kommentað betur á þetta.

Zaraþústra
Mér finnst þetta allt of skammt hugsað, þekkingarfræði er töluvert flóknari en svo að þú afgreiðir hana í þessum bloggpósti, en það var væntanlega ekki ætlast til þess.

Ekki að afgreiða en að fjalla um mína sýn á þetta og skapa umræðu. Svekkjandi hve fáir hafa tekið þátt. 

Mofi, 18.6.2008 kl. 11:22

18 Smámynd: Zaraþústra

Ég held þú sért að misskilja hvað ég á við með margrætt orð (ekki margþætt).  Ég á við að orðið hefur margar merkingar eins og ræpa, sem getur þýtt niðurgangur eða hæg vindgola.  Ég er því ekki að tala um að fólk hafi mismunandi skilning á því heldur hefur orðið einfaldlega margar merkingar, þess vegna þurfum við að gera greinarmun á því sem við erum að tala um.

Ég vildi til dæmis aðgreina ómerkilegan sannleik, þ.e. sjálfsagðir hlutir eins og að hvítur snjór sé hvítur, frá merkilegum sannleik.  Hvað þessi merkilegi sannleikur er er ekki alveg ljóst og neikvæð skilgreining (þ.e. skilgreining sem byggir á því að segja hvað ekki er átt við) er aldrei mjög góð skilgreining.

Svo notum við orðið sannleik í hversdagslegri merkingu, þegar ég krefst þess að einhver segi mér sannleikan á ég við að hann segi mér það sem hann telur satt og rétt.  Sá sannleikur er ekki sambærilegur þeim sannleika sem heimspekingar eltast við og vísindamenn reyna að nálgast.  Þetta er margræðnin sem ég var að tala um.  Ef við tölum um sannleik og notumst við allar merkingarnar gætum við allt eins verið að nota mörg mismunandi orð, þá verður ljóst að það er bara til vandræða.  Það fer kannski ekki á milli mála ef einhver segir: ég er með ræpu, en þegar einhver segir að það sé ræpa við flugvöllinn þá hugsa menn sig kannski um. (Mér datt í alvörunni ekkert betra í hug, en ég held þetta skiljist).


Hvers konar sannleikur er þá afstæður?  Það er  annars konar sannleikur en þú ert að tala um, þ.e. algild sannindi sem aldrei breytast.  Augljóst af skilgreiningunni að annað sá sannleikur getur ekki verið afstæður, en dæmi um hitt er sannleikurinn sem þú talaðir um þegar þú segist treysta á að ástvinir þínir segi þér sannleikan.  Tveir menn geta orðið vitni af sama glæp en upplifað hann öðruvísi.  Vitaskuld væri réttara að segja að það sem er afstætt er skynjun þeirra á veruleikanum, en það er í raun ekkert vitlaust við hitt orðalagið, við erum bara að nota mismunandi merkingar orðsins.  Þeir segja báðir sannleikan, en það sem gerðir í raun og sann er annar sannleikur.  Þetta er bara annar merkingaruglingur.

Hlutir duttu til jarðar áður en Newton kom fram með sýnar lýsingar á Þyngdarlögmálinu ekki satt?
Það sem ég á við er að þyngdarlögmálið er lýsing á því sem gerist.  Vissulega hafa hlutir fallið til jarðar fyrir tíma Newton, en það er ekki þyngdarlögmálið sem lætur þá falla.  Samkvæmt Einstein er það sveigja í tímarúminu sem orsakar þetta fall, en það er kannski bara túlkun á þeirri stærðfræði sem lýsir áhrifunum sem við sjáum.  Það útskýrir ekki fullkomlega eða af hverju hlutir falla.  Mér finnst þú vera að rugla saman lýsingunni á því sem gerist og útskýringunni á því af hverju eitthvað gerist.

Zaraþústra, 18.6.2008 kl. 14:06

19 identicon

Sæll Mofi!

Ég er búin að lesa þessi skrif þín um sannleikann.  Það var skemmtileg lesning, ekki vegna þess að ég sé sammála eða ósammála þér, látum það liggja milli hluta, heldur vegna þess að þau eru frá þér, vel skrifuð vel fram sett, skýr og trúverðug.  Þú hefur breyst.  Það kæmi mér ekki á óvart þú þú næðir alla leið um síðir.  Er reyndar sannfærð um að svo verði.  Gangi þér vel og haltu áfram að skrifa frá eigin hjarta.

Kveðja, IngaHel

e.s. Veltu fyrir þér sannleikanum að baki fórninni með hugmyndina allt fyrir allt og ekkert fyrir ekkert í huga.  

Inga Helgadóttir (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 15:51

20 identicon

Til dæmis að jörðin er hnöttur sama hvað fólk trúir um lögun jarðarinnar. Að við erum með raunveruleika sem breytist ekki þótt að okkar skilningur á honum breytist.

Ég ætla ekki að blanda mér inn í þessar sannleikspælingar en verð samt að leiðrétta þig hér.  Jörðin er ekki alveg hnattlaga, hverju sem þú trúir um það.

Sveinn (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 16:22

21 Smámynd: Mofi

Zaraþústra, held að ég skilji þig betur.  Hef í rauninni ekkert við það sem þú sagðir að athuga. Þetta sýnir að þessi umræða getur ruglað fólk í ríminu ef menn vanda sig ekki við orða notkun. 

Inga,  takk fyrir það :)

Sveinn,  góður punktur en þú hlýtur að hafa vitað hvað ég átti við.

Mofi, 18.6.2008 kl. 19:25

22 Smámynd: Zaraþústra

Gott, en ég ætla ekki að þykjast geta bætt um betur, það er mikið auðveldara að gagnrýna.  En ef þú hefur áhuga þá myndi ég mæla með því að þú lesið þér til um heimspeki David Hume.  Fyrir því eru tvær ástæður, annars vegar hefur þú verið að velta fyrir þér náttúrurétti (sambandi við siðfræði); Hann gagnrýndi töluvert hugmyndirnar sem komnar eru frá Tómasi frá Akvínó (sem er raunar þaðan sem þú færð þessar hugmyndir, beint eða óbeint í gegnum C.S. Lewis ég veit það ekki) og byggði svo frekar á hugmyndum Locke og Hobbes, eða þær voru allavega svipaðs eðlis.  Hins vegar þá má segja að nútíma þekkingarfræði hefjist með honum, ýmsar merkilegar hugmyndir varðandi sannindi og takmörk þekkingarinnar koma frá honum.  Vona að það virki ekki fráhrindandi á þig að hann var guðleysingi/trúleysingi. :D

Í framhaldi af því mætti skoða Kant, þó svo það sé kannski ekki gott að lesa upprunalegu ritverk hans, en það má finna ýmislegt hér: http://plato.stanford.edu/search/searcher.py?query=Kant 

Zaraþústra, 18.6.2008 kl. 23:29

23 Smámynd: Mofi

Zaraþústra, ég þarf greinilega að bæta við þessa grein hugleiðingum um Kant og David Hume... þar sem auðvitað það eru heilu áfangarnir í skólum um þeirra hugmyndafræði þá verður öll þannig umfjöllun ekki ýtarleg. Þekki aðeins hugmyndafræðina en hef ekki lesið bækur eftir þá... svo mikið að lesa og svo lítill tími. 

Mofi, 19.6.2008 kl. 10:34

24 identicon

Sveinn,  góður punktur en þú hlýtur að hafa vitað hvað ég átti við.

Já jú þannig séð, ég var allavega að vona að þú héldir þetta ekki.  Svo er ekki, þannig að ég þakka fyrir mig. 

Sveinn (IP-tala skráð) 19.6.2008 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Mofa blogg

Höfundur

Mofi
Mofi

Ég er sjöundadags aðventisti en tala samt ekki fyrir hönd safnaðarins. Hugbúnaðarfræðingur að mennt og aðhyllist Biblíulega sköpun. 

Íslendingur, hugbúnaðarfræðingur að mennt, búsettur í Englandi sem hefur áhuga á flest öllu. 

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • trinity witch craft
  • Bodunarkirkjan
  • Trinity_Symbol
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 803194

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband