Kettir, stórkostleg dýr, blessun ekki bölvun

cute-kittens-3.jpgKettir eru með skemmtilegustu dýrunum sem Guð skapaði, nóg er að kíkja á youtube og slá inn "cats" og sjá mjög langan lista af myndböndum af köttum að gera eitthvað sniðugt. Til dæmis þetta sem fylgir þessari grein hefur fengið 59 miljón heimsóknir sem hlýtur að teljast mjög gott.

Miðað við hve mikið af fólki þykir vænt um þessi dýr og margir hafa gaman af þeim þá er alveg sorglegt að þessi dýr skuli vera litin af mörgum í samfélaginu sem einhvers konar bölvun.  Ég tel að það hljóti að vera leið til að leysa þetta "vandamál" á þann hátt að allir geti verið ánægðir. Það sem mér dettur í hug er að búa til skemmtilegt heimili fyrir þá ketti sem hafa ekkert heimili.  

Staður þar sem þeir hafa nægt pláss til að leika sér og auðvelt er fyrir fólk að koma og heimsækja þá út í náttúrunni. Það er ekki gaman að hugsa til þess að fjöldi katta séu læst inn í búrum og þeirra bíði ekkert nema að vera svæfð þegar búið er að gefast upp á því að finna heimili fyrir þau. Það hreinlega getur ekki kostað mikið að gera þetta þannig að úr myndist staður þar sem þessum dýrum líður vel og fólk getur sömuleiðis skemmt sér við að heimsækja.  Ég er í þeirri aðstöðu að þurfa fara með minn kött í Katthollt og það sem ég fékk að heyra frá þeim var að hann yrði bara svæfður.  Það er að gera þetta frekar erfitt þar sem manni þykir alltaf vænt um þessi krútt.  Aftur á móti, ef spurningin væri að fara með köttinn á stað þar sem ekki er áætlunin að drepa hann heldur staður þar sem honum líður vel þá væri þetta allt annað mál.  Hve margir foreldrar ætli hafi logið að börnunum sínum og sagt að litla gæludýrið hafi verið sent í sveit þegar því var í rauninni lógað?  

Svo, það sem ég tel að kæmi út úr þessu væri eftirfarandi:

  • Staður sem fólk hefði gaman af að heimsækja og horfa á dýrin leika sér.
  • Miklu auðveldara fyrir fólk að fara með ketti á slíkan stað en staðan er í dag.
  • Svona staður gæti verið fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir sem glíma við þetta eins og bölvun en ekki blessun.
  • Værum ekki með helling af dýrum sem er í rauninni að fara illa með því að þessum dýrum líkar ekkert við að vera læst í litlum búrum í marga mánuði eða ár. Mér finnst hreinlega að við ættum að hafa samviskubit yfir því að vera sátt við að ótal dýr lifi við þannig aðstæður.

Ég vil endilega koma þessari hugmynd á framfæri í þeirri von að hægt verði að breyta einhverju sem er vandamál í eitthvað skemmtilegt. Væri við hæfi að Besti flokkurinn kæmi slíku máli til leiðar.

 

Síðan mitt uppáhald


mbl.is Mótmælir aðgerðum gegn köttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

Takk fyrir þennan fallega pistil. Múhammeð spámaður elskaði ketti og lofaði helvítisvist fyrir alla sem gerðu þeim eitthvað. Þeir sem gefa þeim mat og drykk og vernd hljóta hinsvegar sérlega blessun. Ég trúi ekki á hans speki nema að sjálfsögðu þetta, hehe. Og ég ætla að muna eftir þessum Þórhalli, ég vona innilega að hann komist ekki upp með sitt fyrirhugaða dýraníð. Það er spurning hvort hann tengist eitthvað kattamorðunum sem hafa einstaka sinnum komið í fréttunum frá Egilsstöðum? Það ætti að athuga það nánar og helst að gera eitthvað fyrirbyggjandi til þess að svona ömurleg þröngsýni og eyðilegging fái ekki að þrífast. Kettir eru kærleiksríkasta og skemmtilegasta dýrið í heiminum

halkatla, 25.9.2011 kl. 07:31

2 Smámynd: Rebekka

Héraðsmenn mættu líka hafa í huga að það voru ekki kettirnir sem báðu um að vera hent út af heimilunum og gerast villikettir.  Það er landlægt vandamál á Íslandi hvað fólk er latt við að gelda gæludýrin sín, og fleygir kisunum bara út ef minnstu vandamál koma upp (ef kisu vantar t.d. pössun meðan eigendurnir eru á ferðalagi og þ.h.).  Greinilegt að margir gera sér ekki grein fyrir hversu mikil ábyrgð fylgir að eiga gæludýr.

Þessi "kattaplága" sem þeir kvarta yfir er þeim sjálfum að kenna.

Rebekka, 25.9.2011 kl. 08:41

3 Smámynd: Róbert Björnsson

Kisur eru vissulega með dásamlegri dýrum sem þróast hafa á þessari jörð.  Heimiliskötturinn er raunar skapaður af mannskeppnunni en ekki einhverjum guði eins og Mofi heldur fram, en það er í sjálfu sér aukaatriði í þessu samhengi.

Eins og pirrhringur benti á var Múhammeð spámaður mikill kattavinur sem bendir nú til þess að hann hafi ekki verið alslæmur... en þetta hefur hins vegar leitt til ákveðinna ófyrirséðra og mótsagnarkennda vandamála víða í miðausturlöndum.  Ég var á ferðalagi í Sádí Arabíu í sumar, ekki svo langt frá sjálfri Mekka og það fyrsta sem ég tók eftir var að þar var bókstaflega ekki þverfóta fyrir köttum...og þá meina ég allsstaðar!  Meira að segja inná víggirtum öryggissvæðum á alþjóðaflugvellinum í Jeddah, verslunarmiðstöðvum og inni á íbúðasvæðinu þar sem ég bjó sem þó var girt af með fimm-metra háum múrvegg og gaddavír.  Í fyrstu þótti mér þetta skemmtilegt þar sem ég er mikill kattavinur en fljótlega sá ég að vesalings dýrin búa við hörmulegar aðstæður, grindhoruð og uppþornuð í eyðimörkinni þar sem vatn er ekki á hverju strái og hitinn að jafnaði yfir 40 gráður.  Þar sem fjöldi dýranna er svo mikill og óheftur berjast þau innbyrðis um hvern munnbita og annar hver köttur var rispaður og klóraður og nokkra sá ég eineygða og sárþjáða. 

Fyrsta daginn var ég að klappa þessum greyjum en var svo varaður við því að þeir eru meira og minna allir sýktir af ormaveiki, flóm og hundaæði (rabies) og einn vinnufélagi minn lenti á sjúkrahúsi með blóðeitrun eftir að hafa verið bitinn af lítili sætri kisu sem hann gaf að borða.

Það er mér því augljóst að það er ekki væntumþykja við dýrin að leyfa þeim að fjölga sér ótakmarkað og ganga lausum úti á vergangi.  Fyrir utan óþrifnaðinn og sjúkdómahættuna sem því fylgir þá er dýrunum sjálfum enginn greiði gerður með því.  Dýravinir þurfa að sýna ábyrgð og halda dýr sín í sátt og samlyndi við umhverfi sitt, halda stofninum í viðráðanlegri stærð og umfram allt að veita dýrunum ást, umhyggju og gott heimili. :)

Róbert Björnsson, 25.9.2011 kl. 11:14

4 Smámynd: Mofi

pirrhringur, það kemur manni á óvart hve mikið af fólki hatar ketti. Og ekki bara ketti heldur bara dýr almennt. Persónulega þá fer slíkt fólk í taugarnar á mér. Já, vonandi verður eitthvað gert til að fyrirbyggja þetta.

Rebekka, mikið rétt. Þetta er vægast sagt ekki þessum dýrum að kenna, þetta er algjörlega fólkið sjálft sem ber ábyrgðina. Því mun ógeðslegra er það að eitthvað lið fari og "leysi" vandann með því að fara um bæina og drepa dýrin.

Mofi, 25.9.2011 kl. 11:24

5 identicon

Það er alveg sama hvaða dýr fólk heldur það á ekki að hafa rétt til að láta þau ganga á lóðum eða lendum annara sem ekki vilja slíka lausagöngu.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 25.9.2011 kl. 12:00

6 Smámynd: Mofi

Róbert, við mennirnir vorum engan vegin þeir sem bjuggu til heimilisköttinn. Auðvitað getum við valið ákveðna eiginleika og ræktað þá en eiginleikarnir voru þegar til staðar, við bjuggum þá ekki til, við getum ekki einu sinni búið til einföld prótein hvað þá eitthvað flóknara en það.

Fyrir utan þetta :) þá ertu með mjög góða punkta. Við getum alveg komið í veg fyrir svona ástand eins og þú lýstir þarna og væri einmitt magnað ef að Ísland gæti verið fyrirmynd annara í þessum efnum.

Kristján, ef þú vilt ekki að dýr geti komist í garðinn þinn þá er það þitt að koma í veg fyrir það. Að láta eins og þú hafir einhvern rétt til að passa hvaða dýr fara inn á lóðina þína eins og þau hafi eitthvað skyn á það er bara kjánalegt.

Mofi, 25.9.2011 kl. 13:11

7 Smámynd: Mofi

María, ef þetta fer virkilega í taugarnar á einhverjum þá getur hann búið sér til góða girðingu sem kemur í veg fyrir að dýr komist í garðinn. Kettir síðan vanalega grafa, kúka og grafa yfir á meðan hundar gera þetta bara beint á gangstéttina eða hvar sem er. Kúkur katta verður vanalega bara góð viðbót við jarðveginn.

Mofi, 25.9.2011 kl. 15:38

8 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Mofi, ég verð að vera mjög ósammála fyrstu setningunni þinni. Til að byrja með skapaði guðinn þinn ekki ketti. En svo er enn meira ósammála því að kettir séu "með skemmtilegustu dýrunum", þeir eru skemmtilegasta dýrið ;)

Hjalti Rúnar Ómarsson, 25.9.2011 kl. 18:02

9 identicon

Mofi, þitt svar er kjánalegt!, þetta er spurning um að fólk passi upp á gæludýrin sín og láti þau ekki ganga laus og vaða yfir aðra, á sama hátt gæti ég bara til dæmis vaktað minn garð með haglabyssunni og skotið ketti sem hingað koma minn garður er eignalóð í dreifbýli og ég væri í fullum rétti í skjóta hvaða kött sem þangað kæmi, en mér finnst það ekki rétta leiðin, síðan vil ég benda þér á að smáfuglarnir eru búnir að lifa hér miklu lengur en við mennirnir, kötturinn er bara aðskotadýr flutt inn af manninu alveg eins og minkurinn og  á engan náttúrulegan  eða sögulegan rétt hér. 

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 25.9.2011 kl. 20:10

10 Smámynd: Mofi

María, æi greyið mitt.

Hjalti, jæja, ekki slæmt :)

Kristján, að hafa ketti í bandi?  Það er heimskulegt í mínum augum. Ég reyndi það eitt sinn, aðalega til að passa upp á að vitleysingurinn færi sér ekki að voða en það var ekki séns að láta það virka.  Prófaðu bara að slappa af og njóta náttúrunnar með þeim dýrum sem henni tilheyra.

Skondið, hérna er ég að reyna að stinga upp á einhverju til að minnka þetta vandamál sem kettir sem ganga lausir eru og katta hatararnir koma hérna vaðandi yfir mig með sínu hatri. Frekar ógeðfellt fólk verð ég að segja.

Mofi, 26.9.2011 kl. 09:49

11 Smámynd: Mofi

María, það er full ástæða til að gera margt til að bæta ástandið; það er auðvitað ekki gott að vita ef að gæludýrið manns er að angra það. Það er bara dáldið erfitt að stjórna þessum dýrum.  Þess vegna vill ég sjá almennilega aðstöðu fyrir þessi dýr því ég tel að margt myndi batna við það. 

Mofi, 26.9.2011 kl. 13:57

12 Smámynd: Mofi

Hljómar vel... persónulega held ég að ríkið eða bæjaryfirvöld ættu að niðurgreiða eða jafnvel hafa ókeypis geldingu katta. Það getur verið freistandi fyrir efnaminni að fresta þessu endalaust þegar kostnaðurinn er í kringum 15.000 á kött og áður en fyrr varir þá eru fleiri á leiðinni.  Menn geta auðvitað sagt að ríkið á ekki að vera að taka þátt í svona en málið er að ríkið er að gera það með því að glíma við þetta vandamál svo af hverju ekki að hjálpa til við að leysa það.

Mofi, 27.9.2011 kl. 11:12

13 Smámynd: Linda

Kisan mín er inni/úti köttur. Hann veiðir mýs og það gera fleiri kettir, sumir veiða rottur, þar sem kettir eru, eru mun minna um mýs og rottur. Þeir sem grenja hvað hæst um kattaheimsóknir í garðana sína mun eflaust tapa sér þegar músa or rottufaraldur byrjar. Ég gef fuglum epli þegar það vetrar, þeir elska epli, ég er með kisu, ég hef ekki ennþá fundið dauðann fugl í garðinum hér fyrir utan húsið. En þeir bíða eftir eplum. Sjálfsagt fylgjast þeir líka vel með kisum í leiðinni. Hrafnin á það til að ráðast á smá hunda, ætlast nú ekki til þess að hann verði drepinn fyrir vikið. Fuglar skíta út um allt, já líka í jurtagarða, og éta berin úr fínu görðunum, ekki ætlast ég til þess að meindýra eyðir komi of fargi þeim. Vel á minnst, fuglar bera með sér flæar og tegund af fuglaberklum. Já ágæta fólk, við búum í hættluegum heimi þar sem náttúran er ekki sótthreinsuð. ;)

Linda, 27.9.2011 kl. 13:44

14 Smámynd: Mofi

Linda, þakka heimsóknina og mjög góða athugasemd. Við þurfum að lifa í sátt við náttúruna og átta okkur á því að við lifum í samfélagi við náttúruna og dýrin. Það gæti verið mjög freistandi að losa okkur við skordýrin og flugurnar og fleira sem fer í taugarnar á okkur en ef við gerðum það þá yrði það okkur sjálfum til tortýmingar.  Reynum bara að halda ró okkar þegar kemur að því að sótthreinsa náttúruna. Síðan er gott að muna að það eru mörg börn þar sem þeirra aðal ef ekki einu vinur er gæludýrið sem það á. Ég veit að ég hefði verið alveg niðurbrotin þegar ég var lítill ef að kötturinn minn hefði dáið, hvað þá drepinn af einhverju fífli. Hefði örugglega alist upp eins og gömlu víkingarnir, æfa mig undir að hefna mín grimmilega. Sem betur fer segir mín trú mér að fyrirgefningin er rétta leiðin þó að slíkt virðist mér ekki vera alveg eðlislægt.

Mofi, 27.9.2011 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Mofa blogg

Höfundur

Mofi
Mofi

Ég er sjöundadags aðventisti en tala samt ekki fyrir hönd safnaðarins. Hugbúnaðarfræðingur að mennt og aðhyllist Biblíulega sköpun. 

Íslendingur, hugbúnaðarfræðingur að mennt, búsettur í Englandi sem hefur áhuga á flest öllu. 

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • trinity witch craft
  • Bodunarkirkjan
  • Trinity_Symbol
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband