Ekkert annað en enn annað ævintýri þrumuguðsins Þórs

ape-men.jpgEinu sinni var hópur af mönnum sem skálduðu upp fyrir fólkið sögur af alls konar guðum, Þór, Óðinn, Loki, Apólló og Hades. Í dag skálda svipaður hópur manna sögur af ímyndaðri fortíð mannkyns. Þeir láta sem svo að þessar sögur séu byggðar á gögnum en miklu nær sannleikanum er að þessar sögur eru byggðar á þeirra trú að Þróunarkenningin sé sönn.

Ég myndi svo sem láta nægja að ranghvolfa augunum yfir þessari vitleysu ef það væri ekki fyrir hvernig þetta fólk dirfist að matreiða vitleysuna. Þetta er sett fram eins og staðreyndir sem engin ástæða er til að efast um. Eins og það hafi verið menn að kveikja eld fyrir miljón árum síðan er jafn áreiðanlegt og okkar þekking á sögu Napóleons eða George Washington.

Skoðum eitt dæmi sem ætti að sýna fram á að minnsta kosti á hve veikum grunni akkúrat þessi saga af Homo Erectus að kveikja eld fyrir miljón árum síðan. Samkvæmt leiðandi mannfræðingum heimsins, menn eins og Milford H. Wolpoff (University of Michigan), William S. Laughlin (U. of Connecticut), Gabriel Ward Lasker (Wayne State U.), Kenneth A. R. Kennedy (Cornell), Jerome Cybulski (National Museum of Man, Ottawa), and Donald Johanson (Institute of Human Origins) telja að munurinn milli venjulegra manna og H. erectus væri svo lítill að um er að ræða sömu tegundina. Ég veit ekki betur en allir þessir menn eru þróunarsinnar.

Enn fremur hafa fundist fótspor sem passa vel við fótspor nútíma manna í lögum sem eiga að vera 3. miljón ára gömul, miklu eldri en H. erectus, sjá: http://creationsafaris.com/crev200709.htm#20070919a   Hið skemmtilega sem við sjáum þarna er að aldursgreiningarnar voru endurskoðaðar fram og til baka vegna þess að þetta passaði ekki við hugmyndir manna um þróun mannsins; sem sagt, þróunarkenningin sjálf var þarna að móta gögnin.

Menn geta auðveldlega gagnrýnt sögu Biblíunnar á sama hátt en málið er einfaldlega það að báðar þessar sögur eru teknar í trú. Menn geta valið hvort þeir telja trúlegri, þessa sögu af tilviljana kenndum breytingum á DNA plús náttúruval að búa til okkur mennina, að okkar vitsmunir og siðferði var í rauninni búið til af mistökum við afritun á DNA eða að við vorum hönnuð, sköpuð af Guði í Hans mynd með tilgang og von um framtíð. Síðan er hægt að bera saman gögnin og athuga hvor trúin passar betur við gögnin og fyrir mitt leiti er engin spurning að sköpun passar betur við gögnin.


mbl.is Notuðu eld fyrir milljón árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mofi

Herra, það er hægt að athuga staðreyndirnar og bera þær saman við sköpunarsöguna og þá sögu sem tilheyrir þróunarkenningunni.  Það er hægt að bera saman setlögin eins og t.d. kambríum, steingervingana og margt fleira og athugað, hvor sagan passar betur við staðreyndirnar.

Vísindin hafa útvegað margar ástæður til að trúa að Guð sé til en að sanna slíkt lyggur ekki alveg fyrir enda sannanir tilheyra í rauninni bara stærðfræðinni, allt annað verður að sætta sig við að einhver tilgáta eða kenning er líklegast rétt. Ég hef ekki enn séð guðleysingja færa sannfærandi rök fyrir sinni afstöðu, eina sem þeir virðast hafa er gagnrýni á öll þau ógrynni af rökum fyrir tilvist Guðs en það er svakalega aumkunarvert að hafa ekkert fram að færa nema afsakanir og gagnrýni.

Mofi, 4.4.2012 kl. 12:59

2 Smámynd: Mofi

Ég er sammála að trú og vísindin er byggð á túlkunum og þar spila inn í þær forsendur sem menn gefa sér mjög stóran part og oftar en ekki er erfitt fyrir einstaklinga að gera sér grein fyrir áhrifum þessara forsenda.

Helstu ástæður sem vísindin hafa komið með fyrir því að trúa á Guð eru þessar:

  1. Alheimurinn hafði byrjun
  2. Eðlisfræðilögmálin virðast vera fínstillt til að leyfa tilvist lífs
  3. Lífið sjálft er ekki einfalt eins og menn héldu heldur gífurlega flóknar vélar sem vinna á miklu magni af upplýsingum, upplýsingum sem virka eins og stafrænn forritunarkóði en bara miklu flottari.

Þetta passar aðeins við Guð Biblíunnar og Kóransins enda var Múhammeð bara að herma eftir Biblíunni og taldi sjálfan sig vera einn af spámönnum Guðs eins og Elía, Jesaja og fleiri. Passar ekki við aðra guði sögunnar af því að þeir tilheyrðu alltaf alheiminum og oftar en ekki fengu sína krafta eða gáfur frá alheiminum eins og t.d. Óðinn fékk visku með því að gera eitthvað stórfurðulegt ef ég man rétt.

Mér finnst ég hafa endalaust ástæður til að trúa á Guð en alltaf þegar ég rökræði við guðleysingja eða hlusta á rökræður á netinu þá er alltaf sama sagan, guðleysingjar hafa engin jákvæð rök fyrir sinni afstöðu, ekkert nema gagnrýni á rökin sem þeir sem trúa á Guð hafa. Það er ekki eftirsóknaverð staða til að vera í.

Mofi, 4.4.2012 kl. 15:04

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Kenning getur hvorki verið sönn eða ósönn.

Þessa vegna er tilvist guðs hvorki sönn né ósönn, hún er trúarkenning.

Helstu ástæður sem vísindin hafa komið með fyrir því að trúa á Guð eru þessar:

1. Alheimurinn hafði byrjun

Það er kenning, svo ekki er það sönnun eða afsönnun á neinu. Sé sama kenning framlengd með stærðfræðilegum útreikningum kemur í ljós að hún kveður ekki bara á um að heimurinn okkar hafi einhverntíma "byrjað" heldur að það sé sameiginlegur eiginleiki þeirra allra. Ekkert við þá kenningu þarfnast yfirnáttúrulegra skýringa, ekki í okkar tilviki frekar en öðrum tilvikum þegar eitthvað hefur orðið til úr tóminu og horfið svo aftur inn í tómið að loknum líftíma sínum.

2. Eðlisfræðilögmálin virðast vera fínstillt til að leyfa tilvist lífs

Já þau þau eru það í þessum heimi sem við lifum í, þess vegna erum við til og erum að fjalla um þetta. Við erum hinsvegar ekki að gera það í öllum hinum heimunum þar sem eru ekki skilyrði til lífs. Að sama skapi þá búa ísbirnir aðeins á heimskautasvæðum, utan þeirra eru ekki lífsskilyrði fyrir þá, ekki frekar en þú myndir þrífast vel í eyðimörk klæddur loðfeld. Þessi rökrétta afleiðing af áðurnefndum eðlisfræðilögmálum á sér stað og hefur verið rannsökuð í þaula án vísbendinga um að hún sé nokkuð annað en það: rökrétt afleiðing eðlisfræðilögmálanna. Engum dettur í hug að halda því fram að ísbreiðurnar hafi verið skapaðar svo að Ísbirnir gætu þrifist þar, heldur eru menn almennt sammála um að orsakasamhengið sé á hinn veginn, ísbirnirnirnir hafi orðið til og náð að lifa vegna þess að á ísbreiðunum voru skilyrði þeim hagstæð.

3. Lífið sjálft er ekki einfalt eins og menn héldu heldur gífurlega flóknar vélar sem vinna á miklu magni af upplýsingum, upplýsingum sem virka eins og stafrænn forritunarkóði en bara miklu flottari.

Menn héldu líka einu sinni að jörðin væri flöt, sem hefur síðan komið í ljós að var byggt á ófullkomnum tilgátum vegna þess að menn höfðu einfaldlega ekki tæki til að kíkja út í himingeiminn og athuga hvort þeir hefðu rétt eða rangt fyrir sér. Í dag sveima gervihnettir umhverfis jörðina sem senda okkur myndir og aðrar mælingar allan sólarhringir sem sýna réttan gang himintunglanna, svo við þurfum ekki lengur að treysta á óljósar kenningar um það. Í þessum mælingum hafa menn ekki fundið neitt sem þarfnast yfirnátturlegra skýringa, og engum dettur í hug að halda því fram að þetta sé vegna þess að einhver yfirnáttúruleg vera hafi tekið flata jörð og breytt henni í kúlu, aftur á móti eru flestir sammála um að hún hljóti lengst af að hafa verið kúla og flatjarðarkenningar okkar mannanna hafi einfaldlega verið rangar á sínum tíma.

Og af því að þú minntist á upplýsingar og "forritskóða" þá er það svo að í upplýsinga- og tölvunarfræðinni sem er mín faggrein, þá hafa menn áttað sig á því að þetta sem þú segir gildir í raun um heiminn í heild sinni og er langt frá því að vera eitthvað einhlítt um lifandi verur eingöngu. Hægt er að lýsa heiminum (og öllum hinum líka) sem upplýsingakerfi, og einstökum einingum sem bitum af upplýsingum, án þess að sú formbreyting á kerfislýsingunni breyti á nokkurn hátt hegðun kerfisins sem lýst er. Fremstu menn á þessu sviði hafa í seinni tíð leitað æ meir í smiðju náttúrunnar eftir fyrirmyndum að snjallari lausnum á ýmsum hlutum. Eitt af því sem komið hefur út úr því eru "þróunarkennd" forrit, sem hafa þann eiginleika að taka handahófskenndum breytingum á handahófskenndum tíma (stökkbreytingum) og að velja úr þá útkomu sem gefur besta raun gagnvart þeim forsendum sem ráða hvort slík breyting erfist til næstu kynslóða (náttúruval). Eins og þú hefur væntanlega áttað þig á er þetta ekkert annað en lýsing á kenningu Darwins, sem gengur undir því villandi heiti þróunarkenning, en hún fjallar fyrst og fremst um náttúruval og erfðir. Öll dýnamísk kerfi þróast hinsvegar og það er staðreynd en ekki kenning.

Það sem menn hafa áttað sig á í tölvunarfræðinni er að náttúruleg ferli sem hafa þróast í gegnum árþúsundir og milljónir, eru einmitt "miklu flottari" en þau kerfi sem við mennirnir höfum reynt að hanna frá grunni. Ástæðan fyrir því er einföld, verkfræðilegur hugsunarháttur er ekki eldri en svo í mannkynssögunni að því fer víðsfjarri að menn muni í náinni framtíð geta útfært þaulprófanir á sínum kerfum og hönnunum, sem komast í hálfkvisti við þær ítarlegu og ströngu prófanir sem kerfi þróuð í náttúrunni hafa þurft að standast fram að það þessu. Það er nákvæmlega ástæðan fyrir því að umrædd kerfi (t.d. lífkerfi) og ferlar (t.d. lífefnahvörf) eru til yfir höfuð, vegna þess að ef þau myndu ekki virka þá væru þau ekki til.

Þú ert ekki sá fyrsti sem heldur því fram að guð sé einhverskonar forritunarsnillingur og þess vegna hljóti flókin lífkerfi að vera einhverskonar vísbending um tilvist hans, en þó að meðal okkar forritaranna séu margir snillingar eru fáir sem líta svo stórt upp á sig að starf þeirra hljóti að vera yfirnáttúrulegt. Hinsvegar finnst mörgum sem ekki eru innvígðir og fylgjast með flinkum tölvumanni sem þeir séu að verða vitni að svartagaldri, en það hefur í mannkynssögunni alltaf átt við um nýja tækni sem fáir samtímamenn hafa þá þegar náð að skilja til hlítar, að hún er göldrum líkust. Það þýðir samt ekki að við þurfum þar með að samþykkja að í því felist eitthvað yfirnáttúrulegt, vegna þess að það er einfaldlega ekki svo.

Sorry, ég er ekki að reyna að brjóta heimsmynd þína, heldur aðeins að reyna að upplýsa þig um staðreyndir, sem eru þær að ekkert af því þrennu sem þú nefnir er hægt að halda fram sem staðfestingum á neinu yfirnáttúrulegu. Enda ef það væri hægt þá væri það ekki yfirnáttúrulegt.

Tek það fram að ég er ekki trúleysingi, þvert á móti.

Ef þú hittir guð á förnum vegi, myndirðu þá trúa því að hann væri til?

Ef svo er þá ertu velkomin í kaffi til mín hvenær sem er. ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 5.4.2012 kl. 18:09

4 Smámynd: Mofi

Guðmundur
Kenning getur hvorki verið sönn eða ósönn.

Þessa vegna er tilvist guðs hvorki sönn né ósönn, hún er trúarkenning.

Ég skil ekki alveg, kannski erum við að skilja þessi hugtök á mismunandi hátt.  Tökum t.d. kenninguna um uppruna alheims, ein kenningin segir að alheimurinn á sér byrjun ( BigBang ), önnur kenning segir að alheimurinn sé eilífur (steadystate). Ertu að segja mér að hvorug þessara kenninga geti verið sönn?

Ég tel að ef maður aðhyllist aðra hvora þessara kenninga þá gerir maður það í trú því að endanlegar sannanir tilheyra í rauninni aðeins stærðfræðinni en samt þá er önnur hvor þessara kenninga raunverulega sönn þó að við kannski munum aldrei vita það í þessu lífi hundrað prósent.

Guðmundur
Ekkert við þá kenningu þarfnast yfirnáttúrulegra skýringa, ekki í okkar tilviki frekar en öðrum tilvikum þegar eitthvað hefur orðið til úr tóminu og horfið svo aftur inn í tómið að loknum líftíma sínum.

Hvaða náttúrulegar útskýringar geta útskýra uppruna náttúrunnar? Við erum að tala um að gögnin benda í þá átt að náttúran, efni, tími og rúm var eitt sinn ekki til svo hvorki efni, tími né rúm getur hafa orsakað sína tilvist vist. Svo ég sé ekki betur en að þegar kemur að því að útskýra uppruna þessa hluta þá er ekki hægt að vísa í þá sjálfa heldur þarf eitthvað út fyrir náttúruna; eitthvað sem er yfir náttúrnni.

Guðmundur
Já þau þau eru það í þessum heimi sem við lifum í, þess vegna erum við til og erum að fjalla um þetta. Við erum hinsvegar ekki að gera það í öllum hinum heimunum þar sem eru ekki skilyrði til lífs.

Sá sem trúir að það séu til aðrir heimar gerir það í eins blindri trú og þær gerast því að það er ekki snefill af sönnunargögnum fyrir tilvist þeirra.

Sá sem síðan trúir að lögmálin séu að breytast milli alheima þyrfti helst að útskýra hvað er að orsaka tilvist þeirra og þau náttúrulögmál og breytingar á þeim.

Guðmundur
Í þessum mælingum hafa menn ekki fundið neitt sem þarfnast yfirnátturlegra skýringa,

Við höfum fundið gífurlegt magn af flóknum vélum sem þurfa að lesa upplýsingar sem eru eins og stafrænn forritunarkóði. Veist þú um eitthvað sem getur orsakað slíkt annað en vitsmunaverur?

Guðmundur
og engum dettur í hug að halda því fram að þetta sé vegna þess að einhver yfirnáttúruleg vera hafi tekið flata jörð og breytt henni í kúlu,

Endilega lestu þessa grein um þessa flötu jörð, sjá: Not The Flat Earth Myth Again!

Guðmundur
Eitt af því sem komið hefur út úr því eru "þróunarkennd" forrit, sem hafa þann eiginleika að taka handahófskenndum breytingum á handahófskenndum tíma (stökkbreytingum) og að velja úr þá útkomu sem gefur besta raun gagnvart þeim forsendum sem ráða hvort slík breyting erfist til næstu kynslóða (náttúruval).

Í fyrsta lagi þá þurfti vitsmunaverur til að búa til þau forrit og í öðru lagi þá  eru þau mjög takmörkuð. Eitt dæmi er að menn hafa notað svona til að búa til betra loftnet og já, engin spurning að þessi aðferð er fín í það en þótt svona forrit eða svona aðferð væri keyrði í miljónir ára þá myndi hún ekki búa til útvarp eða nýtt windows kerfi.

Ef þú hefur forritað, segðu mér þá hvort þér finnist trúlegt að tilviljanir séu líklegar til að búa til flókin þjöppunar algrím?   Þér gæti þótt þetta líka mjög forvitnilegt: Eru tilviljanir líklegar til að forrita gagna þjöppunar reiknirit?

Guðmundur
eru fáir sem líta svo stórt upp á sig að starf þeirra hljóti að vera yfirnáttúrulegt.

Þú ert kannski einn af þeim sem hefur mikið á móti þessu orði "yfirnáttúrulegt" eða skilgreinir það á kannski annan hátt en ég.  Þessi rök eru ekki bein rök fyrir yfirnáttúru, vitsmunaveran sem hannaði þetta gæti verið náttúruleg og gæti átt sér náttúrulegar útskýringar en mér finnst það bara hæpið og tel Guð vera betra svar þótt hitt sé í samræmi við gögnin.

Guðmundur
Sorry, ég er ekki að reyna að brjóta heimsmynd þína, heldur aðeins að reyna að upplýsa þig um staðreyndir,

Ekkert að afsaka, ég er að reyna að brjóta heimsmynd allra þeirra sem hafa aðra heimsmynd en ég; það er ekkert illa meint hjá mér því ég vil þeim vel :)

Hver er þín trú?  Ef þú vilt frekar spjalla um það yfir kaffibolla en að skrifa það hérna niður þá væri það bara mjög gaman :)

Mofi, 6.4.2012 kl. 12:05

5 Smámynd: Óli Jón

Mofi: Þú segir þetta:

Einu sinni var hópur af mönnum sem skálduðu upp fyrir fólkið sögur af alls konar guðum, Þór, Óðinn, Loki, Apólló og Hades.

Ert þú s.s. á því að frásagnirnar af Þór, Óðni, Apolló og Hadesi séu uppspuni einn? Hvaða munur er á þessum sögum og ævintýrunum um Jesús?

Óli Jón, 8.4.2012 kl. 14:46

6 Smámynd: Mofi

Óli Jón, þær eru sagðar af mörgum mönnum sem voru vitni að þessum atburðum.

Mofi, 8.4.2012 kl. 21:43

7 Smámynd: Tómas

Mofi. Hvaða vitni voru til staðar allt þangað til Adam lifnaði til lífsins?

Nei, bara að spá, því skv. þínum rökum ætti ekki að taka þann part trúanlegan.

Sama á í raun við um flestar sögurnar fyrir flóðið. Eða vissi Nói nánast allt sem vita þurfti um þessar sögur?

Er það ekki mögulegt að menn hafi verið til vitnis um ýmislegt sem þessir fornu guðir gerðu? (Hefurðu t.d. kynnt þér Ódysseifskviðu? :) )

Tómas, 10.4.2012 kl. 22:12

8 Smámynd: Mofi

Tómas, það eru aðrar ástæður til að trúa þeim sögum því að það er auðvitað rétt að í því tilviki er ekki um að ræða sjónarvotta vitnisburð.  Þar sem ég trúi að þessi saga er raunveruleg þá einmitt býst ég við því að sjá afbrigði af henni í menningu margra annara forna þjóða og þannig er það. Ótal þjóðir hafa sögur sem líkjast Nóa flóðinu og sumar kannast við Babels turninn svo dæmi sé tekið.

Mofi, 11.4.2012 kl. 09:28

9 Smámynd: Tómas

Já, en þú svaraðir ekki fyrir sögurnar sem ég spurði um: Sköpunina, annars vegar (sem ég sé enga ástæðu til þess að trúa þar sem eina heimildin er biblían), og sögur frá sköpun fram að flóði.

Ertu sum sé með ástæður til þess að trúa sköpunarsögunni?

Og trúirðu því að Nói hafi safnað saman sögum um flóðið frá mörgum fornum þjóðum og varðveitt?

Er ekki líklegra að

  1. Sköpunarsagan sé tilbúningur (rétt eins og sköpunarsögur í öðrum trúarbrögðum) og
  2. Flóð séu þokkalega algeng (á árþúsundaskalanum), og/eða að Nóaflóðið sé vinsælt "meme" í menningu þjóða. Því séu sögur til um stór flóð í öðrum menningum.

Er það ekki líklegra en maður úr leir, kona úr rifbeini, talandi snákur, skilningstréð, flóð sem drepur allt og alla nea það sem er á stóra trébátinum o.s.frv. o.s.frv...

Mér finnst það nefninlega miklu líklegra. En það væri gaman að heyra góð rök fyrir því hvers vegna maður ætti að trúa slíku :)

Tómas, 12.4.2012 kl. 09:47

10 Smámynd: Mofi

Tómas
Ertu sum sé með ástæður til þess að trúa sköpunarsögunni?

Biblían myndar heildstæðan vitnisburð um sköpun og ef maður lítur á þann vitnisburð sem trúverðugan þá gefur það manni góða ástæðu til að trúa því og meta hvort að gögnin passi ekki við þann vitnisburð.

Ég tel nokkuð ljóst að ummerki um sköpun séu augljós, eitthvað sem jafnvel hörðustu þróunarsinnar viðurkenna; þeir einfaldlega telja að hið augljósa sé ekki satt.  Síðan getur maður skoðað steingervingana og þá ætti ekki að vera neinn vafi eftir.

Tómas
Og trúirðu því að Nói hafi safnað saman sögum um flóðið frá mörgum fornum þjóðum og varðveitt?

Við vitum ekkert um skrif Nóa; sagan af sköpunni og flóðinu kemur frá Móse. Þar sem Guð talaði beint við Móse þá er spurning hovrt að þetta er innblástur eða hvort að Móse hafði einhverjar heimildir.  En þetta var einfaldlega saga heimsins og þar af leiðandi höfðu margar þjóðir þetta líka í þeirra sögu þó auðvitað breytast svona sögur.

Tómas
Mér finnst það nefninlega miklu líklegra. En það væri gaman að heyra góð rök fyrir því hvers vegna maður ætti að trúa slíku :)

Hérna er ein góð ástæða:  Kamríum setlagið og þróunarkenningin

Mofi, 12.4.2012 kl. 10:06

11 Smámynd: Tómas

Mofi:
Ég tel nokkuð ljóst að ummerki um sköpun séu augljós, eitthvað sem jafnvel hörðustu þróunarsinnar viðurkenna; þeir einfaldlega telja að hið augljósa sé ekki satt.

Mér getur ekki fundist biblíuleg 6-daga sköpun líkleg.. Það er langt frá því að vera augljóst að  dagur og nótt hafi verið sköpuð 3 dögum á undan sólinni. Eina heimildin fyrir þessu er biblían. Skrifuð af mönnum (líkt og sköpunarsaga skv. norrænni og grískri goðafræði - sem þú afneitar í pistlinum að ofan....sem er ástæðan fyrir því að ég ákvað að ota mér inn í umræðuna).

Mofi:
Við vitum ekkert um skrif Nóa; sagan af sköpunni og flóðinu kemur frá Móse. Þar sem Guð talaði beint við Móse þá er spurning hovrt að þetta er innblástur eða hvort að Móse hafði einhverjar heimildir.

Ég held við hljótum að vera sammála um að heimildir sem Móse gæti hafa haft séu fábrotnar. Varla tókst þjóðum heimsins að skrá flóðið á steintöflur áður en það drukknaði, eða hvað? Ekki voru það munnmæli, því þjóðirnar dóu allar (utan þessa 8 manns á örkinni). Og hvernig tóks Móses að safna heimildunum saman?

Getur verið að Móse hafi skáldað þessar sögur, eða hafi ranglega trúað að guð hefði sagt sér þetta? Menn hafa verið með eins ranghugmyndir (t.d. u.þ.b. allir menn frá örófi alda (nema kristnir síðustu 2000 ár vilt þú meina)).

Er það ekki líklegra (svo ég endurtaki úr fyrri athugasemd), en alheimsflóð þar sem allt líf sem komst af var á einum trébát? Og er það ekki líka líklegra en talandi snákur?

Mofi:
En þetta var einfaldlega saga heimsins og þar af leiðandi höfðu margar þjóðir þetta líka í þeirra

Ég hélt við værum sammála um að allar þáverandi þjóðir heimsins hefðu drukknað? Ertu sammála því, eða er þetta vitlaust í biblíunni? (og var það þá Móses að misskilja heimildir sínar/guð, eða var guð að bulla?).

Mofi:
Hérna er ein góð ástæða:  Kamríum setlagið og þróunarkenningin

Er þetta ástæða til að trúa á talandi snák? Ég las ekki athugasemdirnar við þessa færslu, en það eina sem þessi færsla gerir er að sýna fram á vandamál í þróunarkenningunni. Færslan gerir ekkert til þess að sanna að biblían sé rétt, hvað þá sköpunarsagan.

Svo eru líka ágætis lausnir á þessu vandamáli. Sem eru, að mínu mati, talsvert líklegri en útskýringin í biblíunni. (Kambríum tímabilið var ekki stutt. Stutt jú á jarðneskum skala, en það er ekkert sem bannar þróunarkenningunni að fara á skrið í nokkur milljón ár ef aðstæður eru góðar. En ég er náttúrulega enginn náttúrufræðingur).

Við fjarlægjumst líklega óðum umræðuefnið (líkt og vill gerast í svona umræðum), en ég get ekki séð hvernig þú vilt jafna sköpunarsögu biblíunnar við vísindalegar kenningar, og um leið afneita sköpunarsögum annarra trúarbragða.

Tómas, 12.4.2012 kl. 19:04

12 Smámynd: Óli Jón

Mofi, þú segir:

Óli Jón, þær eru sagðar af mörgum mönnum sem voru vitni að þessum atburðum.

Af t.d. fjórum Guðspjallamönnum eru lágmark tveir sem ekki vitnuðu ekki lífhlaup Jesúss beint, Markús og Lúkas. Í dag er talið að Markús hafi verið sá fyrsti til þess að skrifa sína útgáfu af atburðum sem hann hafði einungis heyrt af og að Matteus hafi síðan stuðst við skrif hans. Það mun helst vera Jóhannes sem vitnaði eitthvað með eigin augum og eyrum, en það er vissulega hægt að bera brigður á skrif hans og þeirra allra, enda er fyrir löngu síðan búið að gera grein fyrir mögnuðu misræmi í guðspjöllunum.

Síðan geta menn verið vitni að töfrasýningu og talið sig fullvissa um að kanína hafi líkamnast í hattinum rétt áður en hún hoppaði upp úr honum, en við vitum öll að svo er ekki.

Það er því lítill munur á frásögnunum um ævintýri Jesúss annars vegar og annarra goða og guða hins vegar hvað áreiðanleika varðar og ætli hann liggi ekki hvað helst í því að kristnir fræðimenn hafa sett ógurlegan kraft í að koma löppum undir sinn málstað á meðan lítið er gert af slíku í norrænu goðdeildinni. Það eina sem skiptir máli er hverju fólk kýs að trúa, en annað er ekkert merkilegra en hitt.

Ef eitthvað er þá eru sögurnar af Þór, Óðni, Apolló og Hadesi betur skrifaðar og ígrundaðar því um merkingu þeirra stendur lítill styr á meðan sagan af Jesúsi og Guði er svo illa skrásett og óskýr að jafnvel lærðustu menn geta ekki komið sér saman um merkingar og meiningar í henni.

Getum við ekki verið sammála um það?

Óli Jón, 13.4.2012 kl. 14:16

13 Smámynd: Mofi

Óli Jón, hvað finnst þér um þetta hérna: http://www.youtube.com/watch?v=pHRP0I2SrVs

Aðeins sjö mínútur... 

Óli Jón
Ef eitthvað er þá eru sögurnar af Þór, Óðni, Apolló og Hadesi betur skrifaðar og ígrundaðar því um merkingu þeirra stendur lítill styr á meðan sagan af Jesúsi og Guði er svo illa skrásett og óskýr að jafnvel lærðustu menn geta ekki komið sér saman um merkingar og meiningar í henni.

Hefur þú lesið þær og borið þær saman við guðspjöllin?  Metið hvort sé trúverðugara?

Óli Jón
Getum við ekki verið sammála um það?

Eins langt og austrið er frá vestrinu er ég ósammála þér um það :)

Mofi, 13.4.2012 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Mofa blogg

Höfundur

Mofi
Mofi

Ég er sjöundadags aðventisti en tala samt ekki fyrir hönd safnaðarins. Hugbúnaðarfræðingur að mennt og aðhyllist Biblíulega sköpun. 

Íslendingur, hugbúnaðarfræðingur að mennt, búsettur í Englandi sem hefur áhuga á flest öllu. 

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • trinity witch craft
  • Bodunarkirkjan
  • Trinity_Symbol
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)
  • Christmas Adoration of the Shepherds (1622)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 802783

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband